*

mánudagur, 1. júní 2020
Óðinn
13. apríl 2019 18:01

Sveitarfélögin og útgjöldin

Stærsta fjárfesting Hveragerðisbæjar í ár er ólögbundið verkefni sem felur í sér 200 milljóna króna fjárfestingu.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðis og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aðsend mynd

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, lýsti yfir óánægju sinni um miðjan mars að einhverjum í fjármálaráðuneytinu hafði dottið í hug að hugsanlega gæti ríkið lækkað framlög sín til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 3,4 milljarða á tveimur árum, eða um 1,75 milljarða á ári. Meðal annars vegna útgjalda ríkisins vegna deilna á vinnumarkaði. Framlög ríkissjóðs til jöfnunarsjóðsins árið 2017 námu 17,5 milljörðum króna, og væri þetta því um 10% lækkun á framlögum.

                                                               ***

Í samtali við mbl.is 17. mars sagði Aldís: „Miðað við hagspár þá lítur þetta út fyrir að geta verið tap fyrir sveitarfélögin upp á 3,4 milljarða. Það eru auðvitað peningar sem sveitarfélögin hafa búist við að fá og þurfa á að halda til þess að standa straum af kostnaði vegna verkefna sem meðal annars ríkið hefur falið okkur að sjá um.“

                                                               ***

Hver eru verkefni sveitarfélaga?

Formaðurinn og bæjarstjórinn í Hveragerði má eiga það að vera heldur ónákvæmur þegar hann varpar ábyrgðinni á útgjöldum sveitarfélaganna yfir á ríkið. Vissulega hafa sveitarfélögin tekið yfir kostnaðarsama málaflokka eins og skólamál og málefni fatlaðra.

                                                               ***

Mörg verkefna sveitarfélaganna eru lögbundin en hvergi er getið í lögum hversu miklum fjármunum sveitarfélögin eigi að verja til þeirra. Eitt dæmi um það eru lög um bókasöfn en í þeim er sveitarfélögum falinn rekstur bókasafna að hluta. Hvergi í lögunum er að finna kröfu um fjölda titla, fjölda starfsmanna, opnunartíma eða umfangið að öðru leyti.

                                                               ***

Annað dæmi um það eru íþróttamál. Sérstök íþróttalög voru sett árið 1998 þar sem kveðið er á um að bygging íþróttamannvirkja í þágu skóla og til almenningsnota séu í verkahring sveitarfélaga og sveitarstjórn veiti byggingarstyrki til íþróttafélaga og íþróttasamtaka eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætlun sveitarfélags.

                                                               ***

Það er ekki lögbundin skylda sveitarfélaga að byggja keppnishús í fimleikum eða yfirbyggð knattspyrnuhús. Hvergi í lögunum er talað um að sveitarfélög eigi að taka þátt í leikmannakaupum eða greiða fyrir erlenda þjálfara.

                                                               ***

Hveragerðisbær í áhættufjárfestingu

En við skulum líta á rekstur sveitarfélags formanns Sambands sveitarfélaga. Í Hveragerði koma um 25% áætlaðra tekna sveitarfélagins árið 2018 frá jöfnunarsjóðnum, eða 568 m.kr. og því myndu tekjur sveitarfélagsins dragast saman um 56 m.kr. Áætlað er að afkoma verði jákvæð um 145 m.kr.

                                                               ***

En hvað er sveitarfélagið að fást við þessa dagana? Eins og segir í greinargerð með fjárhagsáætlun þessa árs þá er stærsta einstaka fjárfesting ársins kaup á Kambalandi, ríflega 30 hektara svæði undir Kömbunum.

                                                               ***

Í greinargerðinni segir: „Með þeim [kaup]samningi er byggingaland fyrir Hveragerðisbæ tryggt til framtíðar. Samkvæmt nýsamþykktu aðalskipulagi er gert ráð fyrir mikilli íbúðabyggð eða um 360 íbúðum á því svæði sem þarna er til ráðstöfunar. Til samanburðar má geta þess að í núverandi byggð eru um 843 heimili þannig að kaupin á Kambalandinu eru gríðarlega mikilvæg fyrir þróun bæjarfélagsins til lengri tíma litið.“

                                                               ***

Stærsta fjárfesting Hveragerðisbæjar í ár er því ólögbundið verkefni og nemur fjárfestingin um 200 m.kr. Þessi fjárfesting er áhættufjárfesting. Það er ekki hlutverk sveitarfélaga að taka þátt í slíkum verkefnum og það er gömul og ný saga að ef tap verður af þessari fjárfestingu munu bæjarbúar greiða tapið, og skattgreiðendur um allt land í gegnum jöfnunarsjóðinn.

                                                               ***

Vissulega minnkar það áhættu sveitarfélagsins mikið að það hefur skipulagsvaldið og mun að sjálfsögðu ekki deiliskipuleggja lóðir í einkaeigu meðan bæjarlandið er óselt. Þar með væri bærinn reyndar að misnota skipulagsvaldið, en tilgangurinn helgar meðalið. Rökin í greinargerðinni um að kaupin séu gríðarlega mikilvæg fyrir þróun sveitarfélagsins eru undarleg. Hvað hefði orðið um landið annars? Hefði það gufað upp? Auðvitað hefðu einkaaðilar byggt upp á svæðinu ef eftirspurn væri til staðar.

                                                               ***

Golfklúbbur í bæjarrekstri

Rekstur bókasafnsins kostar 38 m.kr., bærinn ver 72 m.kr. í menningarmál, 10 m.kr. er varið í golfklúbbinn (aðeins 440 þúsund krónur af þeirri fjárhæð er vegna barna- og unglingastarfs) og 3,5 m.kr. í bæjarhátíðina Blómstrandi daga. Þarna má finna lítil dæmi um að hægt er að lækka útgjöld sveitarfélagsins án þess að ganga á svig við lög og þau verkefni sem ríkisvaldið hefur falið sveitarfélaginu.

                                                               ***

Framlag jöfnunarsjóðsins var 183 þúsund krónur á hvern íbúa í Hveragerði árið 2017 á sama tíma og það nam 10 þúsund krónum á hvern íbúa í Reykjavík. Aðeins eru 43,6 km á milli sveitarfélaganna tveggja. Óðinn sér ekki nokkur einustu rök fyrir þessum mun og hann sýnir hversu miklar ógöngur menn komast í þegar stofnaðir eru sjóðir til að jafna hitt og þetta.

                                                               ***

Bæjarstjóra Hveragerðis til varnar þá gæti Óðinn farið með sama hætti í gegnum fjárhag flestra sveitarfélaga á Íslandi. Þau hafa einfaldlega farið langt út fyrir sitt svið og afleiðingin af því er að mörg hver eru með alla gjaldmæla í botni og safna skuldum þegar sérstaklega vel árar í efnahagslífinu.

                                                               ***

Tekjur sveitarfélaga hafa hækkað um 35% frá árinu 2013 til ársins 2017. Leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum þá er hækkun tekna 22%. Þrátt fyrir þetta hefur sveitarfélögunum tekist að auka skuldir sínar.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.