*

laugardagur, 11. júlí 2020
Aldís Hafsteinsdóttir
24. ágúst 2019 13:32

Sveitarfélögin þurfa að eflast

Það er mikil áskorun að halda úti góðri þjónustu við íbúa í víðfeðmu og strjálbýlu landi.

Haraldur Guðjónsson

Sveitarfélög á Íslandi veita íbúum landsins mikilvæga grunn- og nærþjónustu og hefur verkefnum þeirra fjölgað til muna á undanförnum árum. Þegar sveitarfélögin voru flest voru þau 224. Árið 1992 voru þau 197 og núna árið 2019 eru þau 72. Sveitarstjórnarstigið hefur því tekið breytingum í gegnum árin og þau hafa aðlagað sig breyttum aðstæðum og lýðfræðilegum breytingum. Í sumum sveitarfélögum sem áður voru til býr nú enginn. Í öðrum búa örfáir og enn önnur hafa vaxið og dafnað með þeim hætti sem enginn eða allavega fáir áttu von á. Fáir gátu væntanlega ímyndað sér það upp úr miðri síðustu öld að um 80% landsmanna myndu búa í og við höfuðborgarsvæðið.

Fáir hefðu séð það fyrir að búsældarlegar sveitir yrðu svo til mannlausar og að blómleg sjávarþorp þyrftu að berjast fyrir tilveru sinni. En þetta er sá veruleiki sem blasir við okkur í dag. Þetta er þróun sem gefur fullt tilefni til að staldra við og íhuga með hvaða hætti best verður brugðist við. Einn af þeim möguleikum sem klárlega geta eflt hinar dreifðu byggðir eru stærri og öflugri sveitarfélög. Sveitarfélög með slagkraft og afl til að mæta þessari þróun.

Það er mikil áskorun að halda úti góðri þjónustu við íbúa í víðfeðmu og strjálbýlu landi. Við viljum að sem flestir geti búið við svipuð lífsgæði og aðgang að þjónustu og við viljum flest að landsbyggðin verði eftirsóknarverð til búsetu. Til þess að það megi verða verðum við að geta stigið skref í átt til breytinga. Eitt skref í þá átt er að gera sveitarfélög landsins enn öflugri en nú er. Í dag er meira en helmingur sveitarfélaga með 1.000 íbúa eða færri. 7 sveitarfélög eru með færri en 100 íbúa. Það er morgunljóst að slagkraftur sveitarstjórnarstigsins þarf að aukast. Sveitarfélögin verða að eflast vítt og breitt um landið, til hagsbóta fyrir íbúana, byggðirnar og landið sem heild.

Starfshópur á vegum Samgönguog sveitarstjórnarráðuneytisins, þar sem fulltrúar Sambands Íslenskra sveitarfélaga hafa tekið virkan þátt, hefur unnið að skýrslu um stöðu sveitarstjórnarstigsins. Sú skýrsla var lögð fram sem grænbók í samráðsgáttinni í sumar og fékk þá nokkra umfjöllun.

Í kjölfarið á Grænbókinni hefur ráðherra samgöngu og sveitarstjórna nú lagt fram þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga sem rædd verður á Alþingi á haustmánuðum. Í tillögunni eru sett fram tvö megin markmið, það fyrra lýtur að sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra en hið síðara að sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga. Jafnframt er lögð fram ítarleg aðgerðaráætlun til næstu fimm ára með 11 skilgreindum aðgerðum sem tryggja eiga framgang markmiða áætlunarinnar. Einna mesta athygli hefur vakið sú tillaga að ekkert sveitarfélag hafi færri en 250 íbúa árið 2022 og öll hafi þau 1.000 íbúa eða fleiri árið 2026. Einnig hefur verið gagnrýnt að í tillögunni er ekki gert ráð fyrir að íbúar kjósi um sameiningartillögurnar. Finnst mörgum þar vegið að lýðræðinu!

Í raun ber að skoða þessa tillögu í ljósi sögunnar þar sem fámenn sveitarfélög hafa ítrekað hafnað sameiningum við nágrannasveitarfélög sem jafnvel veita viðkomandi sveitarfélögum meginþorra allrar þjónustu. Hvaða lýðræði er fólgið í því að fámenn sveitarfélög sem njóta jafnvel mikilla tekna umfram önnur, til dæmis vegna þess að þar hafa virkjanir og önnur samfélagsleg mannvirki verið staðsett, geti komið í veg fyrir sameiningar sveitarfélaga? Þar með verði til hálfgerðar skattaparadísir sem um leið eru þiggjendur svo til allrar þjónustu í nágrannasveitarfélögum sem ekki geta boðið sínum íbúum viðlíka skattaafslátt. Það er í mínum huga alveg ljóst að við verðum að huga að heildarhagsmunum.

Það verður að horfa til framtíðar og hugsa um það hvað börnin okkar og barnabörn myndu vilja. Þau vilja góða þjónustu og blómlegt líf í byggðunum. Þau horfa ekki á sveitarfélagamörk og munu seint skilja þegar fram líða stundir hvers vegna tækifærin voru ekki gripin þegar enn var tækifæri til að snúa við þróun sem að öðrum kosti er óumflýjanleg. Nú er mikilvægt að hugsað verði til framtíðar og skynsamasti kosturinn verði valinn. Eflum sveitarfélögin, þannig myndum við sterkar heildir sem eflt gefa lífsgæði í landinu öllu!

Höfundur er bæjarstjóri í Hveragerði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.