*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Týr
2. október 2017 10:20

Sviðin jörð

Val kjósenda er milli tveggja flokka, til hægri eða vinstri, því það er varla hægt að kalla restina flokka lengur.

Haraldur Guðjónsson

Upp er komin hreint furðuleg staða í íslenskri pólitík og hélt Týr þó að hann væri orðinn ýmsu vanur eftir darraðardans undanfarins áratugar. Loks þegar hann hélt að stjórnmálin væru mögulega að nálgast eðlilegt ástand sprakk allt í loft upp með bomsarabomsi. Sem varð enn hlægilegra þegar rykið settist og menn áttuðu sig á því að Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu fyrir misskilning.

                                                   ***

Nú er tæpur mánuður til kosninga og ástandið engu líkt. Björt framtíð er búið spil. Fylgi Viðreisnar virðist hafa helmingast, flokkurinn í uppnámi og formaðurinn hornreka gagnvart eigin þingmönnum. Samfylkingin er enn rjúkandi rúst. Og hvað má þá segja um Framsóknarflokkinn sem fyrir viku virtist vera á góðri leið með að endurreisa sig? Formaðurinn fyrrverandi er búinn að stofna Mistök frjálslyndra og Wintrismanna, en gamli flokkurinn í slíkum sárum, að hugsanlega koma hvorki Framsókn né Sigmundur Davíð manni á þing.

                                                   ***

Miðja íslenskra stjórnmála, sem allt hverfðist um svo lengi, er orðin sviðin jörð. Hún verður ekki skárri við það að lýðskrumsflokkarnir tveir, Flokkur fólksins og Píratar, hafa eitthvað í námunda við 10% fylgi hvort. Enginn virðist vilja vinna með Flokki fólksins, en Píratar hófu kosningabaráttuna á því að fordæma alla flokka aðra, nema Samfylkinguna. Það heitir að dæma sig úr leik.

                                                   ***

En fyrst minnst er á Pírata, þá er rétt að rifja upp áherslu þeirra á skipan utanþingsráðherra fyrir réttu ári. Ekkert hefur heyrst um stefnubreytingu að því leytinu, svo Píratar hljóta að þurfa að upplýsa um ráðherraefni sín sem allra fyrst, fyrst nöfn þeirra eru ekki á kjörseðlinum. Sérstaklega þegar haft er í huga hvað Birgitta hvarf loksins glaðleg af þingi.

                                                   ***

Sitt hvoru megin við þessa sviðnu jörð gnæfa tveir turnar, ekki himinháir að vísu, Vinstrigrænir til vinstri og Sjálfstæðisflokkurinn til hægri. Um það snýst val kjósenda: að kjósa flokk til hægri eða vinstri, sem er einhvers konar tveggja flokka kerfi, því það er varla hægt að kalla restina flokka lengur. Illskiljanlegt er raunar að einhver nenni að gera upp hug sinn til þessara sjö ráðlausu og dáðlausu áhugamannaleikfélaga, sem sveiflast milli öfga og uppnáms. Farið hefur fé betra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.