„Ég stefni að því núna í byrj­un júní að end­an­leg­ar til­lög­ur líti dags­ins ljós og byggi meðal ann­ars á þess­ari könn­un og öðrum þeim gögn­um sem við höf­um verið að afla. Þær til­lög­ur munu síðan rata í sam­ráð og vænt­an­lega verður næsti vet­ur til­einkaður nýj­um frum­vörp­um til heild­ar­laga.Þetta hefur Morgunblaðið eftir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra. Tilefnið er könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir ráðuneytið um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála. Í könnuninni er spurt sérstaklega út í hvaða kerfi þjóðfélagsins almenningur telji brýnast að breyta um þessar mundir. Og hver var niðurstaðan sem ráðherra túlkar sem svo víðtækt umboð til að umbylta grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar?
***
Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar telja Íslendingar mikilvægast að ráðast í breytingar á heilbrigðiskerfinu. Breytingar á kvótakerfi eru í sjötta sæti, því næst neðsta af þeim möguleikum sem í boði voru.

Almenningur telur sem sagt brýnna að bæta heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið, menntakerfið, samgöngukerfið og landbúnaðarkerfið en kvótakerfið. Nú vill svo til að Svandís var áður ráðherra heilbrigðismála – og tókst þá varla vel til miðað við þessi svör. Það má því kannski hafa áhyggjur af vegferð hennar til breytinga á kvótakerfinu núna.

Það verður þá kannski svo að Íslendingar setji breytingar à kvótakerfi í fyrsta sæti þegar næst er spurt og Svandís hefur þar skilið við sviðna jörð, eins og í heilbrigðisráðuneytinu.
***
Týr hefur miklar áhyggjur af þessari vegferð Svandísar og undrast sofandahátt þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gagnvart þessu brölti hennar gegn sjávarútveginum. Sem kunnugt er þá hefur hún fengið Samkeppniseftirlitið – varðhund íslenska landnámsmajónessins – í lið með sér til að gera atlögu að sjávarútveginum með það eitt að markmiði að tortryggja þá sem í honum starfa. Það kæmi ekki Tý á óvart að þegar allt verður yfirstaðið verði herferðar Svandísar gagnvart sjávarútveginum minnst með sama hætti og dómsmálaráðherratíðar Jónasar Jónassonar frá Hriflu. Sporin hræða vissulega.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins.