Það er ekki sjálfsagt mál að verkalýðsforingjar tali af skynsemi á Íslandi þessa dagana. Þess vegna gladdi það hrafnana að lesa ummæli Friðriks Jónssonar, formanns Bandalags háskólamanna, í Viðskiptablaðinu fyrir viku. Rætt var við Friðrik í tengslum við umfjöllun um hvað væri raunverulega til skiptanna í næstu kjarasamningum. Friðrik benti á þá staðreynd að svigrúm einstaka atvinnugreina til launahækkana væri ólíkt og taka yrði tillit til þess í næstu kjarasamningum. Svigrúmið væri fyrst og fremst til staðar í þeim geirum sem framleiðni hefði vaxið umfram launahækkanir.

Sem fyrr segir fagna hrafnarnir þessum orðum og minna að sama skapi á að ríkissjóður er nú rekinn með tæplega 200 milljarða króna halla og að taka verður tillit til þeirrar staðreyndar þegar kemur að því að semja um kaup og kjör hjá hinu opinbera. Ekki síst í ljósi þess að sérfræðimenntaðir hjá hinu opinbera hafa verið leiðandi í launahækkunum á undanförnum árum.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .