*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Leiðari
24. maí 2019 13:03

Svigrúm til hagræðingar

Hvaða tilgangi þjónar það að hér séu sjö sveitarfélög sem eru með 99 eða færri íbúa.

Haraldur Guðjónsson

Sveitarfélög hafa ýmsum skyldum að gegna. Í einföldu máli þurfa þau að þjónusta sína íbúa, sem dæmi reka þau leik- og grunnskóla, hafa málefni fatlaðra á sinni könnu og sjá um uppbyggingu og viðhald á innviðum. Þegar landsmönnum fjölgar þurfa sveitarfélög að bregðast við með byggingu nýrra íbúða. Á engan er hallað þegar sagt er að Mosfellsbær hefur staðið sig best að þessu leyti enda hefur uppbyggingin þar verið gríðarleg undanfarin ár. Garðabær og Kópavogur hafa einnig staðið sig vel en Reykjavík og Hafnarfjörður ekki eins vel. Að vísu er mikil uppbygging í gangi í Reykjavík í dag en þetta stærsta sveitarfélag landsins fór alltof seint af stað og færa má sterk rök fyrir því að þetta aðgerðarleysi borgarstjórnarmeirihlutans hafi leitt til þess að fasteignaverð rauk upp úr öllu valdi á árunum 2016 og 2017.

Auk þess að þjónusta íbúa snýst rekstur sveitarfélaga um að lokka til sín nýja íbúa. Hvort sem fólki líkar betur eða verr þá er samkeppni um íbúa. Til þess að fá nýja íbúa í sveitarfélagið þarf auðvitað að byggja íbúðir.

Með nýjum íbúum aukast útsvarstekjurnar. Útsvar er innheimt af sveitarfélögum og er skattur sem leggst ofan á tekjuskattinn, sem ríkið innheimtir. Þetta þýðir að tekjuháir íbúar borga mest til sveitarfélagsins, hæsta útsvarið. Þá komum við að undantekningunni sem sannar regluna. Í þessu tilfelli er undantekningin sú að mjög tekjuháir einstaklingar þurfa ekki endilega að vera þeir sem greiða hæsta útsvarið. Ef einstaklingur hefur einungis fjármagnstekjur þá greiðir sá hinn sami ekkert útsvar, því á fjármagnstekjur er ekki lagt útsvar. Líklega eru ekki mörg dæmi um að einstaklingar afli einungis fjármagnstekna en margir afla hluta sinna tekna með þessum hætti.

Ástæðan fyrir því að minnst er á þetta hér er að það þarf ekki endilega að vera samasemmerki á milli heildartekna íbúa og útsvars. Forsvarsmenn sveitarfélaganna hafa um árabil bent á þetta misræmi enda er útsvar langstærsti tekjustofn sveitarfélaga.

Árið 2017 voru útsvarstekjur 58% af heildartekjum sveitarfélaga. Þar á eftir komu þjónustugjöld, sem voru um 17% af heildartekjum, framlög úr jöfnunarsjóði voru 13% af heildartekjum og fasteignaskattar 12%. Þetta er heildarmynd allra 72 sveitarfélaga landsins. Tekjustofnarnir eru síðan misjafnir eftir sveitarfélögum, t.a.m. byggja sum sveitarfélög rekstur sinn að stórum hluta á framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Fyrst minnst er á Jöfnunarsjóðinn þá má nefna að í vor hafa sveitarfélögin staðið í stappi við ríkið vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að frysta framlög til sjóðsins árin 2020 og 2021.

Erum við þá komin að öðrum punkti en það er hagræðing innan sveitarfélaganna. Þrátt fyrir mörgum þeirra hafi tekist að minnka skuldir sínar eftir hrun er enn mikið svigrúm til hagræðingar. Það er til dæmis óskiljanlegt að á Akureyri skuli vera 13 íbúar á bakvið hvert stöðugildi bæjarins á meðan 20 íbúar eru á bakvið hvert stöðugildi í Reykjanesbæ, þar sem heildaríbúafjöldinn er svipaður. Annað svipað dæmi er að í Skagafirði eru 12 íbúar á hvert stöðugildi en 16 í Vestmannaeyjum en í báðum þessum sveitarfélögum búa um fjögur þúsund manns. Í Eyjafjarðarsveit búa um eitt þúsund manns og þar eru 16 íbúar á bakvið hvert stöðugildi en 12 í Vesturbyggð sem er álíka fjölmennt sveitarfélag.

Ekki verður skilið við þessa umræðu án þess að nefna fjölda sveitarfélaga í landinu en í dag eru þau 72 talsins. Hvaða tilgangi þjónar það að hér séu sjö sveitarfélög sem eru með 99 eða færri íbúa og 9 sem eru með 100 til 299 íbúa? Á Íslandi eru 39 sveitarfélög með 999 eða færri íbúa. Það liggur í augum uppi að þetta geta ekki verið hagkvæmar rekstrareiningar, nema náttúrlega þú getir reitt þig á greiðslur úr Jöfnunarsjóði.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.