*

fimmtudagur, 23. janúar 2020
Týr
28. október 2019 13:00

Svik Jóhönnu

Það er raunar þakkarvert að þessar tillögur urðu ekki að stjórnarskrá í uppnámi og óðagoti hrunsins.

Jóhanna Sigurðardóttir - fyrrum forsætisráðherra
Haraldur Guðjónsson

Umræða um endurskoðun stjórnarskrárinnar er enn farin af stað og það þrátt fyrir að engum hafi auðnast að benda á það hvað sé að þeirri, sem við höfum fyrir. Upp úr bankahruni og Búsó voru uppi háværar raddir um „nýtt Ísland“ en þar var ný stjórnarskrá mörgum ofarlega í huga. 

Það ætti að vera óþarfi að rekja klúðrið sem á eftir fylgdi. Fyrst var stjórnlagaþingskosning, sem megnaði ekki að draga nema 37% kjósenda á kjörstað. Svo var hún dæmd ólögleg í Hæstarétti, en þá greip ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til þess óyndisúrræðis að skipa hina ólöglega kjörnu í nýtt stjórnlagaráð, en tók þó fram að niðurstaða þess yrði ekki bindandi. Sú kverúlantasamkoma klastraði svo saman nýrri stjórnarskrá á fjórum mánuðum sléttum, sem síðan var borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.

Eða ekki, því af 115 greinum í plaggi stjórnlagaráðsins var aðeins spurt um fimm atriði. Og ríkisstjórnin svo vantrúuð á tillögurnar að atkvæðagreiðslan var líka ráðgefandi (ekki bindandi). Þar var ekki einu sinni spurt hreint út hvort kjósendur vildu að tillagan yrði lögfest sem ný stjórnarskrá, heldu hvort þær skyldu „lagðar til grundvallar“ stjórnarskrárbreytingum. Sá þrefaldi fyrirvari segir sína sögu um tiltrú Jóhönnu á tillögunum. Áhugi kjósenda var engu meiri, aðeins 48% kjörsókn en af þeim studdu ⅔ þennan óljósa grundvöll, svo þar að baki bjó vilji aðeins 32% atkvæðisbærra Íslendinga. 

Það er raunar þakkarvert að þessar tillögur urðu ekki að stjórnarskrá í uppnámi og óðagoti hrunsins. Næg voru umbrotin og ólgan samt, þó ekki bættist við umbylting stjórnarskrárinnar, sem sett hefðu öll dómafordæmi í uppnám, með tilheyrandi réttaróvissu og glötuðu réttaröryggi, áralöngum töfum á framgangi réttvísi og réttlætis. 

Það var því furðulegt að lesa grein eftir fyrrnefnda Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem hún sagði lýðræðið fótum troðið og að stjórnvöld hefðu svikið þjóðina um þá stjórnarskrá sem samþykkt hefði verið. Þá gleymir hún því að það var hún, hennar ríkisstjórn og hennar þingmeirihluti sem klúðraði því öllu. Fyrir nú utan hitt, að bæði í gildandi stjórnarskrá og tillögu stjórnlagaráðs eru ákvæði um að stjórnarskrárbreytingar séu afgreiddar á Alþingi en ekki úti í bæ. Þar eru sömuleiðis samhljóða ákvæði um að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína, en ekki við nein fyrirmæli frá öðrum. Þar á meðal hins illa grundvallaða stjórnlagaráðs.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.