*

mánudagur, 13. júlí 2020
Örn Arnarson
25. júní 2020 12:08

Svikalogn um sumar?

„Teikn eru um að blikur séu á lofti og nú þegar sól tekur að lækka á ný blasi við grafalvarlegt ástand í efnahagslífinu.“

„Byggingavöruverslanir og verslunarmiðstöðvar eru fullar af fólki sem virðist hafa nýtt samkomubannið til að brýna neysluklóna.“
Haraldur Guðjónsson

Um þessar mundir er fátt sem bendir til þess að spár um meiriháttar efnahagsþrengingar á Íslandi vegna kórónuveirufaraldursins rætist. Byggingavöruverslanir og verslunarmiðstöðvar eru fullar af fólki sem virðist hafa nýtt samkomubannið til að brýna neysluklóna. Vegir eru allar helgar þéttskipaðir af bifreiðum með fjölskyldum sem eru einsettar að njóta þess besta sem Ísland hefur upp á að bjóða: tómatsúpunnar í Friðheimum og dýragarðsins í Slakka.

Og af fréttum að dæma virðist ástandið vera það gott að hin aðdáunarverða verkalýðsforysta telur íhugunarvert að segja upp hinum svokallaða lífskjarasamningi.

Sú hugsun sem sækir að er um hvort um svikalogn sé að ræða. Vissulega er eiginfjárstaða íslenskra heimila sterk um þessar mundir og ljóst er að peningurinn sem þau hefðu að óbreyttu eytt á Kanaríeyjum í sumar þarf að finna sinn farveg.

En á móti kemur að atvinnuleysisstig er hátt og væntanlega mun hærra en opinberar tölur gefa til kynna. Samkomubannið ætti að hafa fært ábyrga stjórnendur fyrirtækja í sanninn um hversu mörg gagnslaus störf eru innt af hendi í íslensku efnahagslífi. Ágætt dæmi um þetta er sú staðreynd að öll útibú íslenskra banka voru meira og minna lokuð um mánaðaskeið án þess almenningur hafi fundið fyrir því. Stjórnendur bankanna hljóta hafa lært af þeirri reynslu.

Að sama skapi virðast úrræði stjórnvalda vegna ástandsins að stórum hluta hafa reynst gagnslaus. Fréttir bárust af því vikunni að ekkert fyrirtæki hafi nýtt sér hin boðuðu brúarlán af einhverjum sökum. Brúarlánin hafa skipt miklu máli við að halda lífi í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á meginlandi Evrópu undanfarna mánuði.

Teikn eru um að blikur séu á lofti og nú þegar sól tekur að lækka á ný blasi við grafalvarlegt ástand í efnahagslífinu. Og hugsanlega í haust mun lýsingarorðið „fordæmalaust" vekja ný hugrenningatengsl þeirra sem véla með völd í íslensku samfélagi.

Höfundur er sjálfstætt starfandi

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.