Fullt var út úr húsi í Gamla bíó þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti helstu áherslumál flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar. „Borgarlína, Miklabraut í stokk, leikskóli fyrir 12-18 mánaða og húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur eru meðal kosningamála Samfylkingarinnar í vor.“

Dagur flutti þessa ræðu í apríl 2018.

Í máli borgarstjóra á fundinum fyrir fjórum árum kom fram að hefja ætti framkvæmdir við borgarlínu á næsta ári, sem var þá árið 2019. Til að gera mjög langa sögu stutta þá eru framkvæmdir ekki enn hafnar.

Dagur lagði áherslu að leggja Miklubraut í stokk, „þar sem Reykjavíkurborg gæti tryggt fjármagn til stokksins þótt framlög ríkisins komi inn á lengri tíma“. Til að gera langa sögu stutta þá er enginn sjáanlegur stokkur við Miklubraut í dag jafnvel þótt borgarstjóri hafi fullyrt að borgin gæti tryggt fjármagn til framkvæmdarinnar.

Borgarstjórinn sagði á þessum fundi vorið 2018 að aldrei hefðu fleiri íbúðir farið í uppbyggingu á nokkru öðru kjörtímabili í sögu borgarinnar og átti þá við kjörtímabilið 2014 til 2018. Í þessu sambandi má benda á að ástandið á fasteignamarkaðnum á kjörtímabilinu, sem borgarstjóri vísaði í, var svipað og það er í dag. Viðvarandi skortur á íbúðum á þessum árum varð til þess að íbúðaverð hækkaði gríðarlega. Á árinu 2015 hækkaði vísitala íbúðaverðs um tæplega 9%, sem var einungis forsmekkurinn að því sem í vændum var. Á árunum 2016 og 2017 varð alger sprenging á markaðnum. Á þessum tveimur árum hækkaði vísitala íbúðaverðs um ríflega 30%.

Dagur sagði á fundinum í Gamla bíói fyrir fjórum árum að Samfylkingin vildi „halda áfram að tryggja húsnæði fyrir alla þjóðfélagshópa, fjölga félagslegum íbúðum og halda áfram að bjóða fjölbreytta valkosti á húsnæðismarkaði“. Í stuttu máli þá hefur það algerlega mistekist eins og þróunin á fasteignamarkaðnum síðustu misseri ber vitni um. Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 23% og er ástæðan fyrst og síðast skortur á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og þar ber Reykjavíkurborg mesta ábyrgð sem langstærsta sveitarfélagið.

Höldum upprifjuninni áfram. Borgarstjóri lofaði því að á kjörtímabilinu 2018 til 2022 yrði hægt að bjóða 12 til 18 mánaða börnum pláss á leikskólum. Þetta hefur misfarist því að meðaltali eru börn 20 mánaða þegar þau fá pláss og algjörlega tilfallandi hvort yngri börn fái inn á leikskólum.

Það er ástæða fyrir því að Dagur lagði megináherslu á húsnæðis- og samgöngumál í loforðum sínum árið 2018, sem eins og lesa má hér hafa að mestu verið svikin. Ástæðan er sú að þessi mál hafa verið í molum í borginni og eru enn. Síðustu skoðanakannanir benda samt til þess að Dagur muni áfram sitja í borgarstjórastólnum eins og hann hefur gert síðustu átta ár.

Það er mýmargt sem misfarist hefur hjá núverandi meirihluta. Það eru ekki bara húsnæðis- og samgöngumálin sem eru í ólestri heldur heldur einnig skólamálin því að á nokkurra mánaða fresti kemur upp nýtt tilfelli um myglu. Nú er staðan sú að mygla hefur greinst í Hagaskóla, Laugalækjarskóla, Laugarnesskóla, Fossvogsskóla og Ártúnsskóla, sem og í leikskólunum Sunnuási, Vesturborg, Lækjarborg, Furuskógi , Kvistaborg og Grandaborg. Þá hefur einnig greinst mygla á frístundaheimilinu Tígrisbæ í Grafarvogi. Í fjórum tilfellum hefur þurft að færa starfsemina annað, oft í önnur hverfi borgarinnar, sem er fullkomlega óviðunandi staða.

Fjárhagsstaða borgarinnar er einnig afar slæm en borgarsjóður var rekinn með tæplega 4 milljarða halla á síðasta ári. Borgaryfirvöld hafa reynt að þyrla ryki í augun á fólki með því að segja að samstæðan ( Aog B -hluti), hafi verið rekin með 23,4 milljarða afgangi en í því sambandi ber að hafa í huga að 19,4 milljarðar eru vegna matsbreytinga „fjárfestingaeigna“ hjá Félagsbústöðum og 6,6 milljarðar eru vegna gangvirðisbreytinga innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur. Þess ber að geta að Eftirlitsstofnun EFTA ( ESA ) hefur krafist svara við því hvers vegna notast sé við notkun hugtaksins „fjárfestingareignir“ hjá Félagsbústöðum í reikningsskilum borgarinnar.

Áður en kosningabaráttan hófst, ef kosningabaráttu skyldi kalla, var Sjálfstæðisflokkurinn í góðri stöðu til að auka fylgi sitt í borginni en það tækifæri hefur hann alls ekki nýtt sér, heldur þvert á móti. Í kosningunum 2018 hlaut flokkurinn tæplega 31% atkvæða en nú mælist hann um eða undir 20%. Nú eru einungis átta dagar til kosninga og tímabært að alvöru umræða fari í gang um stöðuna í borginni.