*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Heiðrún Lind Marteinsd.
2. júlí 2021 10:05

Svo mikið veit ég…

Nú þegar hættan af faraldrinum er liðin hjá er mikilvægt að aflétta þeim frelsisskerðingum sem settar voru á í faraldrinum.

Aðsend mynd

 Það er við hæfi að við Ís­lendingar séum að kveðja kórónu­veiruna nú þegar sól er hæst á lofti. Það gerir að­stæðurnar ein­fald­lega enn á­nægju­legri, enda er það heldur dapur­leg til­hugsun að fagna frelsi í gulri við­vörun með á­tján vind­stig í fanginu. Þetta var skít­legur tími, svo ekki sé nú meira sagt, en að vissu leyti mjög lær­dóms­ríkur.

Við lærðum að þvo á okkur hendurnar. Við lærðum að hósta að hætti siðaðra manna með oln­boga fyrir vitum. Við lærðum að njóta ís­lenskrar náttúru. Við lærðum að bíða í röð með þægi­legri fjar­lægð á milli manna. Við lærðum á fjar­funda­búnað. Við lærðum að versla á netinu - meira að segja á­fengið!

Mikil­vægastur af öllu var þó lær­dómurinn sem fólst í því að meta frelsið. Frelsið sem þótti jafn sjálf­sagt og súr­efnið. Frelsið til að ferðast, frelsið til að hitta ást­vini, frelsið til að fá sér í glas á illa lyktandi bar, frelsið til faðmast. Aldrei hafði að okkur hvarflað að skerðingar á frelsi sem helst þekkjast í harð­stjórnar­ríkjum gætu skollið á fyrir­vara­laust. Þó að maður hafi á til­ganginum skilning er þessi veru­leiki ógn­vekjandi. Frelsið reyndist ekki ó­frá­víkjan­legt lög­mál.

Sagan er hins vegar ekki á enda. Nú þegar hættan er liðin hjá er mikil­vægt að skila öllu því sem af var tekið. Það er ekki síður mikil­vægt að læra að veita aftur frelsi. Að­eins þannig fáum við borgararnir vissu um að við höfum öll verið í þessu saman. 

Pistlahöfundur er framkvæmdastjóri SFS

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.