*

sunnudagur, 13. júní 2021
Örn Arnarson
23. nóvember 2020 07:23

Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað

Líkt og góðum fréttamanni sæmir sótti Einar Þorsteinsson hart eftir svörum um hvort mistök hefðu átt sér stað á Landakoti.

Það er alþekkt að þeir sem vilja fanga athygli fjölmiðla kynna skýrslur og efna til blaðamannafunda eftir hádegi á föstudögum. Þannig voru tvær skýrslur kynntar síðastliðinn föstudag. Blaðamannafundur var haldinn vegna kynningar annarrar skýrslunnar en látið var duga að læða hinni á vef ráðuneytis við lítinn lúðraþyt.

                                                              ***

Á föstudaginn var birt skýrsla sem starfsmenn Landspítalans gerðu vegna alvarlegs hópsmits sem kom upp á Landakotsspítala í síðasta mánuði með þeim afleiðingum að nánast allir sjúklingar á tveimur deildum spítalans sýktust af kórónuveirunni og tólf létust. Niðurstaða skýrslunnar var kynnt á blaðamannafundi sem haldinn var seinnipart sama dags en þar fóru stjórnendur Landspítalans yfir niðurstöður skýrslunnar. Í stuttu máli eru þær að engin mistök voru gerð af hálfu stjórnenda spítalans og það að heilt sjúkrahús hafi farið á hliðina með þessum grafalvarlegu afleiðingum megi alfarið rekja til manneklu, lélegs aðbúnaðar og húsnæðis á Landakoti.

                                                              ***

Mörgum þótti þetta rýrt í roðinu svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ástand Landakotsspítala hefur verið öllum kunnugt um langt skeið. Smit kom upp á spítalanum í fyrstu bylgju faraldursins og þá var gripið til hólfaskiptingar og annarra aðgerða sem gerðu það greinilega að verkum að afleiðingar smitsins þá urðu ekki jafn alvarlegar og í bylgjunni sem skall á snemmveturs. Áleitnar spurningar vakna um hvort stjórnendur Landspítalans hafi ekki nýtt sumarið í að kanna mögulegar lausnir á veikleikanum sem felst í húsnæðiskosti Landakotsspítala á meðan faraldurinn geisar – lausnir sem hefðu meðal annars getað falist í að kanna nýtingu á lausum og nútímalegri húsnæðiskosti sem nú er ónýttur á einkareknum heilbrigðisstofnunum.

                                                              ***

Sökum tímasetningar blaðamannafundarins var ekki að búast við mjög yfirgripsmikilli umfjöllun um efni skýrslunnar í aðalfréttum ljósvakamiðlanna um kvöldið. Til þess hefur ekki unnist tími. Fréttablaðið sagði frá málinu í stuttri neðanmálsfrétt daginn eftir en aftur á móti var yfirgripsmeiri umfjöllun að finna í Morgunblaðinu sama dag. Þar var meðal annars bent á þá staðreynd að ekkert er fjallað um þá staðreynd að flutningur sjúklinga af Landakoti varð til þess að smit bárust á Reykjalund og hjúkrunarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka. Vafalaust var ekki tilefni til af hálfu skýrsluhöfunda Landspítalans að fjalla um þann þátt málsins þar sem að þeirra mati voru engin mistök gerð á Landakoti þegar hópsmitið kom upp.

                                                              ***

Úttekt Landspítalans á eigin verkum vekur upp fleiri spurningar en hún svarar – í raun og veru svarar hún litlu sem engu. Það er hlutverk fjölmiðla að ganga eftir svörum við þeim spurningum. Þeir Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, og Einar Þorsteinsson, einn þáttastjórnenda Kastljóssins, átta sig á þessu. Jón Trausti skrifaði ágætan leiðara sem birtist á vef Stundarinnar sama dag og Landakotsskýrslan kom út og Einar gekk faglega eftir svörum við augljósum og þörfum spurningum þegar Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar Landspítalans, heimsótti Kastljósið á mánudagskvöld.

                                                              ***

Í stuttu máli var málflutningur Más á þá leið að engin mistök hefðu verið gerð – húsnæðið á Landakoti er lélegt og vírusinn er hinn raunverulegi sökudólgur. Einar sætti sig ekki við þessi svör og gekk eins og góður fréttamaður hart eftir frekari svörum við spurningum um hvort ekki hefði verið unnt að gera betur og hvort það væri virkilega tilfellið að engin mistök hefðu verið gerð. Það var ekkert við framgöngu Einars að athuga. Þrátt fyrir það skall hneykslisbylgja á samfélagsmiðla í kjölfar viðtalsins. Vakti mikla undrun að jafnvel þingmenn og virt frelsisblys innan háskólasamfélagsins hneyksluðust á því hversu aðgangsharður Einar var í viðtalinu, undir því flaggi að nú væri ekki rétt að leita sökudólga.

                                                              ***

Spurningar Einars snerust ekki um að leita uppi sökudólga. Þær sneru að því að þeir sem bera ábyrgð á rekstri Landakots svari því hvort ekkert sé raunverulega hægt að gera betur ef hópsmit kemur upp á ný? Sóttvarnayfirvöld hafa verið óþreytandi að vara almenning við að lítið þurfi út af bregða til þess að faraldurinn fari um samfélagið eins og eldibrandur og þar af leiðandi er mikilvægt að heilbrigðisstofnanir séu með svör á reiðum höndum um hvað megi betur gera hverju sinni. Enginn vafi er á að vistmenn á Landakoti og aðstandendur þeirra hafi mikinn áhuga á að fá skýr svör við þeim spurningum sem Einar lagði fyrir Má í þessum Kastljósþætti. Hafi embættismenn ekki svör við þeim spurningum þá hljóta spjótin að beinast að þeim sem fara með hið pólitíska vald. Að þessu sögðu má velta fyrir sér hvort fólk hefði sætt sig við sömu svör ef hópsýking með jafn alvarlegum afleiðingum hefði komið upp hjá sjúkrastofnun í einkarekstri. Hefðu menn þá sætt sig við svör um að þetta væri allt húsnæðinu og bévítans vírusnum að kenna og nauðsynlegt væri að bæta kaffiaðstöðu starfsmanna?

                                                              ***

Í þessu samhengi er vert að minnast þess að sama dag og skýrslan var kynnt var ákveðið fyrir Héraðsdómi Reykjaness að sjópróf skyldu haldin í máli skipverja um borð í Júlíusi Geirmundssyni. Þar mun reyna á ábyrgð stjórnanda skipsins og skyldur hans gagnvart undirmönnum sínum.

                                                              ***

Hin skýrslan sem vísað var til í upphafi greinarinnar fjallaði um samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með tilliti til raforkukostnaðar. Þýska fyrirtækið Fraunhofer gerði skýrsluna að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Meginniðurstaða skýrslunnar er að Ísland sé mjög samkeppnishæft þegar kemur að sölu raforku til stóriðju miðað við Noreg, Kanada og Þýskaland. Þetta er vissulega fréttnæm niðurstaða miðað við grátkór stóriðjunnar undanfarin misseri. Eigi að síður vakna margar spurningar um efnistök við lestur skýrslunnar.

                                                              ***

Ekki er alltaf einfalt að flytja einföld skilaboð um flókin viðfangsefni. Það var bersýnilegt þegar Ríkisútvarpið fjallaði um skýrslu Fraunhofer. Fyrsta setningin í frétt RÚV hljóðaði svo: „Raforkukostnaður stórnotenda skerðir almennt ekki samkeppnishæfni þeirra gagnvart samanburðarlöndum.“ Var þarna verið að vísa í tilkynningu sem fylgdi birtingu skýrslunnar á vef ráðuneytisins.

                                                              ***

 Í þessu samhengi verður að spyrja hvað geti flokkast sem almennt í þessu samhengi þegar staðreynd málsins er sú að fjórar verksmiðjur – þrjú álver og eitt kísilver - nýta yfir 70% af orkunni og því til viðbótar eru örfá gagnaver. Hversu mikið er þá hægt að fullyrða út frá meðaltölum? Málið flækist enn frekar við lestur skýrslunnar, en þar kemur fram að sumir stóriðjusamningar geti talist samkeppnishæfir og aðrir ekki. Af því mætti til dæmis draga þá ályktun að ekki væru öll þrjú álverin á samkeppnishæfum kjörum. Það hlýtur að teljast fréttnæmt þar sem eitt af álverunum þremur er einungis rekið á 85% afköstum og stefnt er að lokun þess í fyrirsjáanlegri framtíð vegna þess hve óhagkvæmur reksturinn er út af raforkusamningnum við Landsvirkjun. Niðurstaða skýrslu Fraunhofer hljóta að vera mikil tíðindi fyrir stjórnendur álversins í Straumsvík.

                                                              ***

Og hvað þá um hin álverin? Í skýrslunni er horft til ársins 2019, en nýr samningur Norðuráls og Landsvirkjunar tók ekki gildi fyrr en í nóvember í fyrra. Það þýðir þá að Norðurál var ekki á „nýja verðinu“ meginþorra ársins. Þá hefur komið fram hjá Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, að stefnt sé að því að koma Alcoa Fjarðaáli einnig á „nýja verðið“.  Í skýrslu Fraunhofer er hins vegar ekkert um „nýja verðið“ fjallað sem Landsvirkjun vill semja um við stórnotendur. Þar er miðað við meðalraforkuverð Landsvirkjunar árið 2019 – verð sem ekki er í boði hjá Landsvirkjun í dag. 

                                                              ***

Eins og fram kemur í ágætri fréttaskýringu í Fréttablaðinu sem birtist á laugardag þá bendir margt til þess að skýrslan sé á köflum villandi. Þar er bent á að í skýrslu Fraunhofer er meðalverð til stórnotenda á Íslandi sagt vera tæplega 26 dalir á megavattstund en ekki sé skýrt að þar vegi langþyngst mjög lágt raforkuverð til álvera vegna gamalla samninga og að slíkt verð er langt frá því verði sem býðst á Íslandi í dag. Til samanburðar er síðan talað um verð í Noregi og það metið á bilinu 36 til 44 dalir á megavattstund árið 2019. Hins vegar er einungis bent á, í neðanmálsgrein, að raforkuverð í Noregi hafi að vísu hríðlækkað á árinu 2020, eða um allt að 67 prósent.

                                                              ***

Að lokum er greinarhöfundi ljúft og skylt að leiðrétta mistök sem rekja má til fljótfærni í síðasta pistli. Þar sagði: „Enginn fjölmiðill að Morgunblaðinu undanskildu hefur gert skýrslunni skil, en í henni kemur skýrt fram að ríkismiðillinn hafi þverbrotið þjónustusamning sinn við stjórnvöld með því að flokka verktakagreiðslur til starfsmanna sinna sem kaup á dagskrárefni frá sjálfstæðum og óskyldum framleiðendum.“ Hið rétta er að Ari Brynjólfsson, blaðamaður Fréttablaðsins, er búinn að fjalla um málið um margra mánaða skeið og hefur verið í fararbroddi um að kalla eftir mikilvægum gögnum í málinu sem meðal annars eru tekin upp í skýrslu Fjölmiðlanefndar. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.