*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Huginn og muninn
29. maí 2020 07:01

Svolítið eins og íslenska veðrið

Mikið fát varð í vikunni þegar forstjóri ÍE gagnrýndi heilbrigðisráðherra og sakaði hann um hroka.

Kári Stefánsson, forstjóri ÍE.
Valgarður Gíslason

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er svolítið eins og íslenska veðrið — það skiptast á skin og skúrir. Fyrir rúmum mánuði mærði hann þríeykið og bað fólk að standa upp og klappa fyrir því en tónninn var annar á miðvikudaginn.

Augljóst er að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra nýtur ekki alveg sömu hylli hjá forstjóranum í Vatnsmýrinni því í Viðskiptablaðinu í dag sakar hann ráðherrann um hroka. Í sömu andrá segist hann þó almennt ánægður með störf Svandísar. Ástæðan fyrir óánægju Kára er sú að Svandís sagði í Kastljósi RÚV á þriðjudaginn að hugsanlega þyrfti að ná samkomulagi við Íslenska erfðagreiningu vegna skimunar á ferðamönnum sem til landsins koma. Kári segir að ekkert hafi verið rætt við hann í tengslum við þessar skimanir og í raun hefði hann fyrst heyrt af málinu í Kastljósinu.

Hrafnarnir eru reyndar sammála Kára. Hvernig stendur á því að Svandís og hennar fólk hefur ekki samband við eina aðilann í landinu, sem hefur getu og kunnáttu til að standa í þessari framkvæmd?

Þetta var á miðvikudaginn. Í gær var Kári síðan boðaður á fund forsætisráðherra, sem greinilega hefur náð að lægja öldurnar því nú hyggjast Kári og hans fólk skima fólk, sem kemur til landsins þegar það opnar 15. júní.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.