*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Andrés Magnússon
24. nóvember 2019 13:32

Svört skýrsla um RÚV

Óhætt er að segja að skýrsla ríkisendurskoðunar um RÚV sé verulegur áfellisdómur yfir stjórnendum RÚV og umgjörð þess.

Haraldur Guðjónsson

Ríkisendurskoðun birti í vikunni skýrslu um Ríkisútvarpið (RÚV) og rekstur þess. Óhætt er að segja að þetta sé svört skýrsla, verulegur áfellisdómur bæði yfir stjórnendum RÚV og umgerð þess að lögum. Það er því nánast grátbroslegt að lesa þau viðbrögð stjórnar RÚV að skýrslan staðfesti stórfenglegan árangur liðinna ára. Rúmt ár er síðan menningarmálaráðherra óskaði eftir því að ríkisendurskoðandi athugaði hvort bókhald RÚV ohf. uppfyllti tiltekin skilyrði. Ríkisendurskoðun féllst á þá beiðni en ákvað að taka fleiri þætti í rekstrinum til skoðunar að eigin frumkvæði. Ríkisendurskoðandi ákvað að leitast við að svara þremur meginspurningum. Í fyrsta lagi hvort starfsemi RÚV, önnur en fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu, samræmdist lögum, þá hvort reikningsskil RÚV stæðust ákvæði Evróputilskipunar og loks hvort rekstur RÚV væri sjálfbær. Svörin eru mikið áhyggjuefni. 

 *** 

 Það sem mest stingur í augu er sjálfsagt sú staðreynd að Ríkisúrvarpið hefði orðið ógjaldfært ef ekki hefði komið til lóðabrasks í Efstaleiti. Heildarafkoman 2013- 2018 var þannig jákvæð um 1.527 milljónir króna, en svo hefði ekki verið nema fyrir söluhagnað af byggingarétti fyrir íbúðir við Efstaleiti, en á sínum tíma fékk RÚV úthlutað mjög ríflegri lóð þar, enda uppi hugmyndir um síðari byggingaráfanga útvarpshússins. Söluhagnaðurinn af lóðunum nam alls 1.738 milljónum króna árin 2016, 2017 og 2018, svo við blasir að án lóðasölunnar hefði RÚV orðið ógjaldfært og heildarafkoman neikvæð um 61 milljón. Í skýrslunni segir að Evrópulöggjöf og aðkoma Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) að fjármögnun og starfsemi RÚV hafi haft mikil áhrif á þróun rekstrarformsins og hlutverks RÚV eins og það er skilgreint í lögum, en af þeim sökum sé RÚV rekið sem opinbert hlutafélag (ohf.).

ESA taldi að ótakmörkuð ríkisábyrgð á skuldbindingum félagsins fæli í sér ólögmæta ríkisaðstoð og að fjármögnun RÚV, fyrir breytinguna, veitti því efnahagslegt forskot. Eins og áður hefur verið rætt í þessum dálkum skiptir öllu að rekstrarþáttum sé haldið aðskildum, svo að ríkisstyrkir séu eingöngu nýttir í almannaþjónustu fjölmiðilsins en ekki til að fjármagna samkeppnisrekstur, en þar er auglýsingamarkaður sennilega augljósasta dæmið. Ríkisendurskoðun telur að bókhald RÚV ohf. mæti kröfum ESA um aðgreiningu á tekjum af samkeppnisrekstri, beinum kostnaði og hlutdeild í sameiginlegum kostnaði. Hins vegar hafi Ríkisútvarpið ekki farið að lögum og stofnað dótturfélög um annan rekstur en fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Það er auðvitað þeim mun einkennilegra fyrir það að það hefur margsinnis verið fundið að þessari ólöghlýðni RÚV, sem samt hefur ekki viljað láta sig og haldið áfram að beita sér með ólögmætum hætti á samkeppnismarkaði af fádæma þrákelkni að ekki sé sagt eindregnum brotavilja.

Í skýrslunni er greint frá þeirri afstöðu stjórnenda RÚV að það sé nú óþarfi vegna þess hvað aðgreiningin í bókhaldinu sé skýr og að íslensku lögin gangi lengra en evrópsku reglurnar geri ráð fyrir. Þetta þykja ríkisendurskoðanda fáfengilegar viðbárur og bendir embættið þurrlega á að það sé ekki valkvætt að fara að lögum, RÚV beri sem öðrum að fara að lögum. Fundið er að því að rekstrarlíkan RÚV hafi sennilega aldrei verið sjálfbært. Miðað við umfangið hafi það legið fyrir þegar við stofnun ohf. að aukið fjármagn þyrfti til þess að óbreyttur rekstur stæði undir sér, en engar áætlanir hafi legið fyrir um það. RÚV ohf. hafi því allt frá stofnun verið ákaflega skuldsett og rekstrarafkoma almennt neikvæð. Í lok árs 2008 hafi handbært fé verið 184 milljónir króna, en hafi frá 2012 verið nánast ekki neitt. Eins hafi eigið fé dregist mikið saman.

Við stofnun RÚV ohf. var það 879 milljónir, en var orðið neikvætt um 300 milljónir í upphafi árs 2009. Þá breytti ríkissjóður 563 milljóna króna skuld í hlutafé, en lóðasalan frá 2015 hafi enn styrkt eiginfjárhlutfallið, sem var 28,5% í árslok 2018. Í þessu samhengi er svo fundið að því að ekki hafi verið gripið til viðeigandi langtímaaðgerða fyrr en allt var komið í óefni og það hafi verið gert með fyrrgreindum einskiptisaðgerðum, skuldaniðurfellingu, lóðasölu og lengingu í láni félagsins vegna lífeyrisskuldbindinga hjá LSR. Í skýrslunni segir að eigi félagið ekki að lenda aftur í alvarlegum greiðsluerfiðleikum sé afar mikilvægt að tryggja ráðdeild í rekstri og öflugt fjárhagslegt eftirlit, sem bendir óneitanlega til þess að ríkisendurskoðanda þyki því ábótavant. Bendir embættið á að ólíkt því sem almennt gerist með opinber hlutafélög fari Fjármálaráðuneytið ekki með eignarhlut ríkisins í RÚV. Því sé fjárhagslegt eftirlit og aðhald í rekstri minna en almennt gerist, sem hlýtur að teljast fast en lúmskt skot á menningarmálaráðuneytið. Í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu segir samt að skýrslan sé jákvæð og að stjórn RÚV fagni henni.

 *** 

 Í skýrslunni er þó ekki aðeins að finna aðfinnslur, því þar eru einnig lagðar fram fjórar tillögur til úrbóta í rekstrinum. Í fyrsta lagi verði RÚV að fara að lögum (!) og stofna dótturfélög fyrir aðra starfsemi en fjölmiðlun í almannaþágu. Eyða verði allri óvissu um bókhald Ríkisútvarpsins og fjárhagslegan aðskilnað almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar. Lagaleg skylda gangi augljóslega framar því óhagræði sem kunni að hljótast af því á skrifstofu RÚV í Efstaleiti.

Í öðru lagi þurfi að verðmeta rými á milli dagskrárliða, sem nýtt eru undir auglýsingar. Það þurfi að gera til að auka gagnsæi um aðskilnað almannaþjónustu og samkeppnisreksturs.

Í þriðja lagi eigi fjármálaráðuneytið að varðveita hlutabréfið í RÚV ohf. líkt og tíðkist með önnur félög í ríkiseigu. Í ljósi sérstöðu RÚV sé æskilegt að skilja á milli eigendaábyrgðar og faglegrar ábyrgðar, en eins verði að skipa í stjórn félagsins á forsendum hæfisskilyrða um hlutafélög og tryggja að hluti stjórnarmanna ef ekki allir hafi sérþekkingu á fjármálum. Í fjórða lagi að efla verði fjárhagslegt eftirlit stjórnarinnar til að tryggja sjálfbæran rekstur. Stjórnin þurfi líkt og í öðrum rekstrarfélögum að fá reglulega kynningu á heildarfjárhagsáætlun félagsins og fjalla um áætlaðar fjárfestingar, fjárstreymi og fjárhagsstöðu til viðbótar við rekstraráætlanir.

 *** 

 Hvað sem líður fagnaðarlátunum í Efstaleiti, þá blasir við öllum öðrum að þessi kolsvarta skýrsla felur ekki aðeins í sér mikinn áfellisdóm yfir stjórnendum þar, heldur einnig löggjafanum. Við blasir að sú ráðstöfun að breyta Ríkisútvarpinu í ohf. á sínum tíma var nauðsynleg, en eins að þar var stórkostlega kastað til höndunum. Tillögur ríkisendurskoðanda eru skynsamlegar og góðra gjalda verðar. Eiginlega svo sjálfsagðar að furðu vekur að hafa þurfi orð á þeim. Nema kannski þetta með lagaskylduna um stofnun dótturfélaga. Það er ekkert minna er snargalið að það þurfi að benda ríkisfyrirtæki á það og alveg jafngalið að menningarmálaráðherrann hafi ekki skakkað leikinn fyrir löngu. Auðvitað væri réttast að hlutaðeigandi starfsmenn væru allir látnir sæta ábyrgð, en það er víst ekki hægt að losa fleiri störf hjá Þjóðleikhúsinu, svo það er tómt mál að tala um. 

 *** 

 Hitt er annað mál að rekstrarvandræðin hljótast að miklu leyti af kostnaðinum og umfangi RÚV. Þar er margt gert sem er langt utan við lagaskyldurnar, þó ekki sé það allt ólöglegt. Eða ekki lengur ólöglegt, því ýmis verkefni í Efstaleiti stönguðust beinlínis á við lög árum saman, eins og var viðurkennt í ársskýrslum með þeirri athugasemd að af þeim sökum yrði að breyta lögunum. Sem síðan var gert. En er þessi svarta skýrsla nú ekki einmitt tækifæri til þess að taka hlutverk og umfang RÚV til hreinskilnislegrar umræðu? Að það sinni afmörkuðum og nauðsynlegum hlutverkum, fyrst og fremst á menningarsviðinu, en láti samkeppnisrekstur eiga sig og fari að almennum rekstrarviðmiðum. Það er löngu tímabært, en þessi skýrsla sýnir að það má ekki bíða mikið lengur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.