Fyrir hálfri öld síðan var áhugaverð tilraun gerð við Stanford háskóla. Walter Mischel notaðist við sykurpúða og sagði krökkunum að ef þau gætu setið á sér fengju þau tvöfaldan skammt seinna (e. delayed gratification). Síðan var fylgst með árangri krakkanna í lífinu, hvernig þau stóðu félagslega, efnahagslega og heilsulega. Niðurstaðan í þessari tilraun, og öðrum álíka sem á eftir fylgdu, var að þeim sem gátu setið á sér vegnaði marktækt betur í lífinu. Hagfræðingur gæti haldið því fram að þetta sé tilraun um vexti, þeir sem sátu á sér létu vextina vinna fyrir sig.

Í hagfræði er kenning Irving Fisher, við Yale háskóla, frá árinu 1930 margfræg (e. two period optimal consumption theory). Hún sýnir að það getur borgað sig fyrir einstakling að færa neyslu á milli tímabila, og þá ekki aftur í tímann eins og Mischel-tilraunin gefur til kynna, heldur fram. Við getum tekið dæmi af aðila sem er að stofna fjölskyldu. Í stað þess að hírast í allt of lítilli íbúð fram eftir öllum aldri, og svo loks þegar komið er á elliárin að búa í alltof stóru húsnæði miðað við fjölskyldustærð, þá getur borgað sig að taka lán og færa neysluna á milli tímabila. Íslendingar þekkja þetta vel í kringum 40 ára verðtryggð jafnborgunarlán sem hafa staðið til boða um langt skeið.

Efnahagsumræðan í dag ber keim af þessum tveimur viðhorfum sem reifuð eru hér að ofan. Margir segja að ríkinu beri að taka löng lán, enda vextir í sögulegu lágmarki, og koma fjármagninu til almennings enda er atvinnuleysi í sögulegu hámarki. Það muni borga sig því nægt fjármagn verði til í framtíðinni til að greiða af lánunum. Þannig sé verið að jafna út sveiflur og færa neyslu fram í tímann.

Þetta viðhorf finnst mér ábyrgðarlaust gagnvart komandi kynslóðum. Ástæðan er sú að ólíkt kenningu Fishers þar sem einn og sami aðilinn færir neyslu til í tíma þegar horft er á hagkerfið þá eru það ekki sömu aðilarnir sem fá neysluna í dag og þurfa að greiða fyrir hana í framtíðinni. Eins má ekki gleyma að skuldsetningu fylgir alltaf áhætta, forsendur lántökunnar geta hæglega breyst.

Ragnar Arnalds, þáverandi fjármálaráðherra, tók lán í Hambros bankanum árin 1981 og 1983. Vextir lánanna voru 14,5%, enda óðaverðbólga heimsins nálægt hámarki, og gjalddagi lánsins árið 2016. Þetta lán hefur fengið uppnefnið „barnalánið" enda voru það komandi kynslóðir sem greiddu það niður. Fjármagnið var hins vegar notað af ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen til að brúa halla á ríkisfjármálum þess tíma. Kúlulán með 14,5% vöxtum til 35 ára, þýðir að eingreiðslan í lok lánstímans er 114 sinnum hærri en upphaflega lánið.

En vextir í dag eru mun lægri. Ríkið gæti fjármagnað sig á 3% vöxtum til 35 ára í alþjóðlegri mynt og fjárhæðin væri bara 2,8 sinnum hærri en upphaflega lánið. Því ekki að slá til? Það er engan veginn réttlátt gagnvart komandi kynslóðum að taka slíkt lán nema því sé varið til uppbyggingar hagkerfisins, ekki til samtímaneyslu.

Fjárfesting í arðbærum verkefnum er alltaf skynsamleg, sama hvernig árar. Þá vinna vextirnir fyrir viðkomandi en ekki á móti. Það er kjörið tækifæri fyrir ríkið að slá lán á sögulega lágum vöxtum og nota til uppbyggingar innviða. Enn betra tækifæri felst í því að leyfa lífeyrissjóðum landsins að sinna þeirri uppbyggingu. Því hin hliðin á peningnum er sú að lífeyriskerfi landsmanna er gríðarlega stórt. Þar er miðað við að 3,5% verðtryggð ávöxtun náist næstu 35 árin. Ef sú forsenda stenst ekki er ljóst að það er verið að greiða út of háan lífeyri í dag á kostnað lífeyrisþega framtíðar.

Þetta er gríðarstórt hagsmunamál komandi kynslóða. Núverandi ellilífeyrisþegar eru að ganga á rétt þeirra ef forsendan um 3,5% ávöxtun til eilífðar reynist of há. Eins og áður sagði eru vextir á alþjóðlegum mörkuðum í sögulegu lágmarki og langt undir þeirra 6% nafnvaxtakröfu sem þarf að standa undir lífeyrisgreiðslum til framtíðar. Eins eru hlutabréfamarkaðir í hæstu hæðum og v/h gildi S&P500 hlutabréfavísitölunnar er í dag um 40, (1/40 gerir 2,5% vexti) en var 7 árið 1981 (1/7 gerir 14% vexti). Innviðaframkvæmdir gefa hæglega af sér meira en 3,5% verðtryggða ávöxtun eða 6% óverðtryggða.

Að hleypa lífeyrissjóðum, sem eru sameign allra landsmanna, í innviðauppbyggingu er því algerlega borðleggjandi. Með því er verið að láta vextina vinna fyrir komandi kynslóðir, ekki á móti.

Þeir sem hafa hæst um að ríkið auki bætur til almennings og fjármagni það með skuldsetningu eru oft á tíðum þeir sömu og tjá sig digurbarkalega um umhverfismál og segja „við þurfum að skila komandi kynslóðum landinu í jafn góðu eða betra ásigkomulagi og við tókum við því". Hvað með hagkerfið? Hvers vegna á það sama ekki við þar? Í mínum vinahóp er ákveðin tegund manna kölluð „sykurpúðarnir". Það eru ekki þeir aðilar sem þykja góðar fyrirmyndir, ekki þeir sem vinna mikið í allra þágu heldur hinir sem hugsa um það eitt að gera vel við sig.

Höfundur er forstjóri Sýnar.

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér .