*

fimmtudagur, 5. desember 2019
Óðinn
14. mars 2018 17:48

Sykurskattar sem virka ekki

Svandís og Katrín eiga að segja það beint út ef eini hvati þeirra sé að færa fé frá almenningi til ríkissjóðs.

Haraldur Guðjónsson

Sykurskatturinn svokallaði, sem lagður var á 1. mars 2013 og afnuminn 21 mánuði síðar, er farinn að krafsa sig upp á yfirborðið aftur.

                                               ***

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði til að mynda í desember í fyrra að hún væri opin fyrir því að taka slíkan skatt upp á ný og flokkssystir hennar, forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir, hefur einnig lagt fram slíkar tillögur.

                                               ***

Sérfræðingar hafa verið duglegir að berjast fyrir endurvakningu sykurskattsins, en í frétt Fréttablaðsins frá 4. desember er vitnað í formann Félags lýðheilsufræðinga.

                                               ***

„Sykursýki 2 er lífsstílstengdur sjúkdómur og sú mikla sykurneysla sem á sér stað hér á landi er ekki ákjósanleg. Með einhverjum ráðum þurfum við að minnka þessa neyslu því kostnaður heilbrigðiskerfisins af þessari neyslu er orðinn töluverður,“ sagði formaðurinn, Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir.

                                               ***
Ríkið á þig og líkama þinn

Það kemur eflaust fáum það á óvart sem til Óðins þekkja að hann er mótfallinn sykurskatti eins og flestum sköttum öðrum. Fyrst ber samt að nefna rök Sigríðar um að skatturinn sé nauðsynlegur vegna þess að kostnaður hins opinbera af sykurneyslu sé orðinn svo hár.

                                               ***

Þarna endurspeglast hugsun, hversu vel meint hún er, sem byggir á því að við eigum okkur ekki alveg sjálf. Ríkið hljóti að hafa rétt á því að hlutast til um það hvernig við lifum lífi okkar. Réttlætingin er sú að ríkið ber stóran hluta heilbrigðiskostnaðar í landinu og því hafi ríkið rétt á því að ákveða fyrir okkur hvaða lífsstíl við tileinkum okkur.

                                               ***

Enginn hefur þann möguleika að taka ekki þátt í velferðarkerfinu. Við erum nauðug viljug sett öll undir sama heilbrigðishattinn. Það er ansi hart að neyða mann til þátttöku í kerfi og segja honum svo hvernig honum beri að hegða sér til að lágmarka þann kostnað sem þetta sama kerfi ber af honum.

                                               ***

En þetta er í raun aukaatriði þegar kemur að umræðunni um sykurskatt, því fyrsta spurningin sem svara ber er sú hvort sykurskattur hefur yfirhöfuð þau áhrif sem til er ætlast. Ef sykurskattur hefur ekki áhrif á almenna heilsu þjóðarinnar er borðleggjandi að honum beri strax að hafna á þeim forsendum.

                                               ***

Fjöldi rannsókna hefur verið gerður á áhrifamátt sykurskatta, en tölfræðileg tengsl á milli sykurskatta annars vegar og sykurneyslu og ofþyngdar hins vegar eru hins vegar veik.

                                               ***

Hlekkirnir og keðjan

Kemur þetta berlega fram í skýrslu sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneyti Nýja-Sjálands og birt var síðastliðið haust. Skýrsluhöfundar tóku saman niðurstöður úr 47 ritrýndum fræðigreinum og opinberum skýrslum um áhrif sykurskatta, með áherslu á skattlagningu sykraðra drykkja.

                                               ***

Skýrsluhöfundar taka málefnið fyrir á mjög skýran hátt. Byrja þeir á að benda á keðju orsaka og afleiðinga sem verður að vera til staðar til að hægt sé að segja að sykurskattar virki.

                                               ***

  1. Skattar verða að skila sér í hærra vöruverði.
  2. Hærra vöruverð verður að skila sér í minni neyslu sykraðra drykkja. 
  3. Minni neysla sykraðra drykkja verður að skila sér í minni neyslu hitaeininga. 
  4. Minni neysla hitaeininga verður að skila sér í minni áhrifum áhættuþátta á heilsufar. 
  5. Að lokum verður þetta að hafa áhrif til fækkunar dauðsfalla og veikinda.

                                               ***

Allir hlekkir þessarar keðju verða að virka svo sykurskattarnir virki sem skyldi, en niðurstaða skýrslunnar er sú að mjög fátt bendi til þess að svo sé í raun og veru.

                                               ***

Fyrst ber að viðurkenna að almennt virðast sykurskattar skila sér út í verðlag. Verð á sykruðum drykkjum hækkar eftir álagningu skattsins. Með því er hins vegar alls ekki sagt að orrustan sé unnin, því bæði er ástæða til að efast um að hærra verð leiði til umtalsverðs samdráttar í neyslu sykraðra drykkja annars vegar eða á hitaeiningaríkum matvælum almennt.

                                               ***

Lögmál hagfræðinnar í sinni einföldustu mynd segja okkur að hærra verð eigi að draga úr eftirspurn eftir viðkomandi vöru. Ef við hækkum verð á sykruðum drykkjum ætti eftirspurn eftir drykkjunum að minnka.

                                               ***
Verðteygni skiptir máli

Raunveruleikinn er hins vegar flóknari og það fer eftir eðli vörunnar, samhengi við aðrar svipaðar vörur og löngun neytenda í vöruna hversu mikil áhrif verðbreytingar hafa á neyslu.

                                               ***

Samhengi verðs og eftirspurnar, verðteygni, getur verið ýmiss konar. Fyrst ber að nefna eiginverðteygni – þ.e. áhrif breytinga á verði vöru á eftirspurn eftir sömu vöru. Vörur sem kalla má (eigin)verðteygnar eru lúxusvörur og vörur þar sem auðvelt er að skipta yfir í staðkvæma vöru. Ef MS hækkar verð á nýmjólk er auðvelt fyrir neytendur að drekka mjólk frá Örnu í staðinn, svo dæmi sé tekið.

                                               ***

Vörur sem ekki eru verðteygnar eru nauðsynjavörur eins og einfaldar matvörur, vörur sem ekki er auðvelt að skipta út fyrir aðrar og vörur sem eru ávanabindandi.

                                               ***

Krossverðteygni er svo hugtak yfir áhrif verðbreytinga á einni vöru á eftirspurn eftir annarri. Þannig geta verðbreytingar á mjólk frá MS haft áhrif á eftirspurn eftir Örnumjólk, eins og áður segir. Þá eru sumar vörur svo nátengdar að verðbreyting á annarri þeirra hefur áhrif á eftirspurn eftir báðum.

                                               ***

Þrátt fyrir að hér sé töluvert flóknari mynd dregin upp þá er raunveruleikinn enn flóknari, því öll erum við misjöfn og höfum mismunandi langanir og þarfir. Einstaklingar eru misnæmir fyrir verðbreytingum á ákveðnum vörum og rannsóknir sem skoða bara breytingu á heildareftirspurn eftir sykruðum drykkjum missa af þessari staðreynd.

                                               ***

Ímyndum okkur að settur sé á „hóflegur“ sykurskattur og að hann hafi áhrif til hækkunar á sykruðum drykkjum. Ímyndum okkur jafnframt að heildareftirspurn eftir slíkum drykkjum hafi minnkað í kjölfarið. Það segir okkur ekki hverjir hafa minnkað neyslu sína eða hversu mikið. Raunin er sú að þeir sem eru næmastir fyrir verðbreytingum á sykruðum drykkjum hafa líklega dregið mest úr neyslu sinni. Þeir eru hins vegar ekki endilega þeir sem mest neyta af sykruðum drykkjum, eða þeir sem ættu, heilsu sinnar vegna, að minnka neysluna.

                                               ***

Ávanabindandi vörur eru sérstakt dæmi

Málið er nefnilega að sykur er ávanabindandi. Reynslan sýnir að verðhækkanir á ávanabindandi vörum hafa takmörkuð áhrif, eða engin áhrif, á hluta neytenda.

                                               ***

Þá er verð ekki það eina sem hefur áhrif á neyslu fólks. Tíðarandi, tíska, almenningsálit og fleira slíkt hefur áhrif á neyslu til lengri tíma. Það sem eitt sinn þótti hættulaust og „kúl“, þykir nú stórhættulegt og hallærislegt. Skýrasta dæmið um þetta eru sígarettureykingar. Mjög hefur dregið úr sígarettureykingum á Íslandi, sem og á Nýja Sjálandi, og hefur háu verðlagi verið þökkuð sú þróun. Staðreyndin er hins vegar sú að dæmi eru um umtalsverða fækkun reykingafólks án slíkra verðhækkana. Þannig hefur reykjandi karlmönnum í Bandaríkjunum fækkað um 50% frá 1965 þótt skattar á tóbak séu þar mun lægri en annars staðar í OECD.

                                               ***

Niðurstöður höfunda nýsjálensku skýrslunnar eru þær að í þeim rannsóknum, þar sem aðferðafræði var ekki ábótavant, má merkja nokkurn, en ekki mikinn samdrátt í neyslu sykraðra drykkja eftir álagningu sykurskatts.

                                               ***

Hins vegar er ekki að finna í fyrirliggjandi rannsóknum og ritgerðum gögn sem sýna það hvort, eða í hve miklu magni, neytendur skiptu sykruðum drykkjum út fyrir aðrar vörur sem innihalda sykur, eða fóru að drekka frekar drykki sem innihalda fitu í stað sykurs.

                                               ***

Skattur sem ekki skilar árangri

Það sem mikilvægast er hins vegar er að engin rannsókn, byggð á raunverulegum dæmum, rennir stoðum undir þá kenningu að sykurskattar hafi áhrif á almennt heilbrigði.

                                               ***

Þetta er aðeins stutt yfirferð yfir niðurstöður skýrslunnar, en hún nægir vonandi til að varpa ljósi á það að málið er flóknara en skattleggjendur vilja meina. Það er ekki nóg að sýna fram á að skattur leiði til hærra vöruverðs, eða að hærra vöruverð leiði til minni heildarneyslu á hinum skattlögðu vörum. Nauðsynlegt er að sýna fram á að skattlagningin og verðhækkunin leiði til þess að þeir sem þurfa að draga úr sykurneyslu dragi raunverulega úr henni og dragi almennt úr neyslu hitaeininga. Þetta hefur ekki verið gert með sannfærandi hætti.

                                               ***

Ef sykurskatturinn hefur þau áhrif ein að gera sykraða drykki dýrari fyrir fólk, sem ekki hættir að drekka þá, en fælir frá fólk sem ekki er sérstaklega hrifið af sykruðum drykkjum til að byrja með, þá er árangurinn enginn annar en að færa fé frá almenningi til ríkissjóðs.

                                               ***

Það er e.t.v. nægilegur hvati fyrir Svandísi og Katrínu, en þær eiga þá bara að koma fram og segja það beint út.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.