*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Huginn og muninn
29. júní 2019 07:30

Sykurskattur fyrir hvern?

Hröfnunum er fyrirmunað að skilja fyrir hvern og af hverju ríkisstjórninni datt í hug að leggja á sykurskatt.

Sykurskattur fyrir hvern, spyrja hrafnarnir sig eftir að hafa fylgst með umræðunni um síðustu tilraun stjórnvalda til að stýra neyslu og hegðun þegna sinna. Þeim fallast vængir yfir vitleysunni enda séð ótal velmeinandi bjargvætti renna á rass með slík áform. Marga vitleysu má þó skýra, jafnvel réttlæta, með vísun til hámörkunar á hagnaði, sér í lag þegar spilað er í eigin þágu. Vitleysa er síður vitlaus ef hún skilar vitleysingunum t.d. slatta af atkvæðum. Vitleysan á bakvið sykurskattinn á sér engar slíkar málsbætur. Þvert á móti kemur hún við kaunin á kjarnafylgi allra stjórnarflokkanna. Skerðing kaupmáttar þeirra sem minnst hafa milli handanna er ekki gleðiefni kjósenda Vg sem enn bera hag lítilmagnans fyrir brjósti. Á eftir gosi og nammi má leiða líkum að því að dísætar mjólkurvörur verði skattlagðar næst og því fagna tæplega bændur Framsóknarflokksins. Þá er forræðishyggjan á bak við skattinn augljóslega eitur í beinum allra Sjálfstæðismanna með vott af sjálfsvirðingu. 

Já, fyrir hvern, spyrja Hrafnarnir og taka ekki eftir óþekkta embættismanninum sem gengur flissandi framhjá.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.