*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Týr
7. nóvember 2021 14:24

Sýndarveruleiki borgarstjórans

„Pólítík snýst ekki bara um verkefni dagsins heldur líka um að skapa raunveruleika, jafnvel þótt hann sé falskur“

Dagur B. Eggertsson hefur verið borgarstjóri Reykjavíkur frá árinu 2014.
Haraldur Guðjónsson

Þótt liðnar séu tæpar sex vikur frá alþingiskosningum og ekki enn búið að mynda ríkisstjórn, þá eru þeir sem hvað mestan áhuga hafa á stjórnmálum farnir að horfa til næstu kosninga – sveitarstjórnarkosninga sem fram fara næsta vor.

Fyrir þær munum við sjá prófkjör eða aðrar misundarlegar aðferðir við val á listum flokkanna, en það er ljóst að stór hluti sveitarstjórnarmanna er farinn að huga að kosningum.

* * *

Það á ekki síst við í Reykjavík. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur á ferli sínum að mestu komist hjá því að svara erfiðum spurningum um rekstur borgarinnar. Á kosningavetri er þó ekki bara hægt að koma fram á skemmtilegum viðburðum með ljósmyndurum, heldur þarf líka að svara erfiðu spurningunum. Þegar litið er yfir fjárhagsstöðu borgarinnar, sem er vægast sagt slæm, vakna til að mynda fjölmargar spurningar sem áhugavert væri að fá raunveruleg svör við.

* * *

Og það eru fleiri viðkvæm mál. Nú fer fram sama umræða og við höfum heyrt fyrir kosningar í Reykjavík í um 20 ár, um íbúðaskort í borginni. Það er alveg sama hversu fjölbreyttar skýringar vinstri meirihlutinn í borginni gefur, það er skortur á framboði lóða og það sem þó er byggt eru rándýrar íbúðir miðsvæðis í Reykjavík sem fáir hafa efni á.

Borgarstjóri fór nýlega frjálslega með sannleikann þegar hann rakti lóðaskortinn til þess að bankarnir hefðu skrúfað fyrir fjármögnun til fasteignaverkefna og að minna sé byggt af þeirri ástæðu. Þetta er þó ekki satt, bara alls ekki.

* * *

Nú hefur Dagur ekki gefið upp hvort hann hyggist gefa kost á sér á ný og væntanlega bíður hann eftir hvatningu þess efnis. Hvað sem því líður þá hefur hann hag af því að vel sé talað um fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar, um þéttingu byggðar, framboð á íbúðum og svo framvegis.

Pólítík snýst ekki bara um verkefni dagsins heldur líka um að skapa raunveruleika, jafnvel þótt hann sé falskur, eða draga upp mynd af því sem gæti verið raunverulegt.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: B. Dagur Eggertsson
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.