*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Týr
24. nóvember 2016 15:28

Sýnishorn af vinstri stjórn

Ályktun um aukin framlög til samgöngumála var samþykkt af vinstriflokkunum, sem svo létu eins og þeir þekktu ekki til málsins.

Landsmenn fengu sýnishorn í gær af því hversu vænlegur kostur það er að fá vinstristjórn.

***

Í umræðum um myndun stjórnarinnar komu fram hugmyndir að auka útgjöld ríkissjóðs um 40-50 milljarða króna.

***

Í gær urðu formenn þeirra flokka sem unnu að myndun vinstristjórn svo hissa á stöðu ríkisfjármála. Hún var bara miklu verri en ein þeir gerðu ráð fyrir.

***

Enginn fréttamaður spurði hvers vegna.

***

Seinna kom svo í ljós að m.a. var samþykkt þingsályktun um samgönguáætlun þar sem gert var ráð fyrir að verja 11,5 milljörðum meira á árunum 2016-2018 en áður var gert ráð fyrir. Slík gjörningur bindur reyndar ekki nokkurn mann og allra síst nýkjörið alþingi. Útgjöld ríkisins verða aðeins ákveðin í fjárlögum. Allt tal um þrengri stöðu ber að skoða í þessu samhengi.

***

En hverjir samþykktu þessa þingsályktunartillögu um 11,5 milljarða aukin framlög til samgöngumála? Þar á meðal voru þau Birgitta Jónsdóttir Pírati, Óttarr Proppé frá Bjartri framtíð og Svandís Svavarsdóttir frá Vinstri-grænum. Katrín Jakobsdóttir formaður VG hafði ekki fyrir því að vera viðstödd atkvæðagreiðsluna frekar en Oddný Harðardóttir fyrrverandi formaður Samfylkingar. Enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn tillögunni.

***

Þar að auki kom minnihluti samgöngunefndar með tillögu um 5,8 milljarða viðbótarútgjöld á árunum 2017 og 2018 ofan á áðurnefnda 11,5 milljarða. Höfundar þeirrar tillögu voru þau Svandís Svavarsdóttir frá Vinstri grænum, Ásta Guðrún Helgadóttir Pírati, Róbert Marshall frá Bjartri framtíð og Katrín Júlíusdóttir Samfylkingunni.

***

Útgjöld, sem samþykkt voru af fjórum flokkum af þeim fimm, sem ræddu myndun hugsanlegrar ríkisstjórnar, komu öllum fimm á óvart. Og auðvitað var svarið hærri skattar hjá fjórmenningum. Ekki datt nokkrum manni í hug að hugsanlega væri hægt að hagræða hjá ríkissjóði, sem eyðir 695 milljörðum króna á þessu ári - þar af um 72,6 milljörðum í vaxtagjöld.

***

Nei, svarið er alltaf hærri skattar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.