Mér finnst mjög skemmtilegt að leika golf með fólki sem ég þekki ekki neitt. Það felst skemmtileg tilbreyting í því að skrá sig á rástíma með bláókunnugu fólki og kynnast því í rúmar fjórar klukkustundir. Annað er ekki hægt enda kemst fólk ekki upp með að þegja í svo langan tíma. Auk þess er virkilega gaman að verja tíma með fólki við að gera það sem því finnst skemmtilegt. Í ofanálag spila ég oftar en ekki betur með ókunnugum heldur en þegar ég leik golf með vinum mínum. Ég virðist vanda mig meira og næ betri einbeitingu heldur en í fíflaskapnum sem oft fylgir því að spila með vinum. Vegna þessa þá hef ég á lífsleiðinni leikið golf með alls konar fólki. Konum, körlum, gömlum, ungum, góðum og ekki svo góðum. Flestir ef ekki allir þessir kylfingar hafa átt eitt sameiginlegt – þeir þekkja systurnar Ef og Hefði mjög vel. Á að giska eru þetta algengustu orðin í íslensku golfi á eftir „bógí“ og „dobbúl bógí“.

Að golfhring loknum er nauðsynlegt að setjast inn í skála og fara yfir hringinn yfir kaffibolla eða köldum bjór. Við uppgjörið gefast tækifæri til að segja frá pörunum eða þrípúttunum og hlusta á einhvern annan segja frá púttinu sínu sem krækti á fjórðu holu. Maður þarf yfirleitt ekki að bíða lengi eftir orðunum frægu. „Ef ég hefði ekki fengið dobbúl á sautjándu þá hefði ég breikað 90.“ „Ef ég hefði ekki sett í vatnið á elleftu þá hefði ég verið í lækkun“. Það þekkja allir kylfingar þessar sögur. Mér finnst þær oft vera skemmtilegustu golfsögurnar – sögurnar af því sem hefði getað orðið.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu 22. maí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu hér að ofan undir liðnum tölublöð .