*

mánudagur, 25. október 2021
Óðinn
23. september 2021 10:27

Tæki­færis­sinninn og stór­kapítal­istinn Gunnar Smári

Óðinn ber virðingu fyrir skoðun þeirra sem í einlægni trúa á hugsjónir sínar, hversu vitlausar sem þær eru.

Gunnar Smári Egilsson.
Sverrir Vilhelmsson

Kapítalisti hlýtur að þurfa að eiga kapítal og ég átti ekki kapítal.

Gunnar Smári Egilsson í Dagmálum 13. september 2021

Gunnar Smári Egilsson útskýrði fyrir áhorfendum Dagmála Morgunblaðsins í síðustu viku muninn á því að vera kapítalisti og starfsmaður. Gunnar var að eigin sögn bara starfsmaður með valrétti hjá fjarskipta- og fjölmiðlarisanum Dagsbrún, sem meðal annars átti Vodafone og 365 miðla, Stöð 2, Fréttablaðið, DV og prentsmiðjur erlendis svo eitthvað sé nefnt.

Reyndar var það svo að hann fékk þessi réttindi, valréttina, þegar hann var forstjóri því að sá sem gegndi stöðunni í stórfyrirtækinu á undan honum hafði haft þessi réttindi. Hann hafi því í raun verið fórnarlamb aðstæðna sinna.

Valréttina fékk hann til viðbótar forstjóralaununum. Launin námu 5,1 milljón á mánuði árið 2005, á núverandi verðlagi. Árið 2006 námu launin rúmum 7 milljónum króna á mánuði.

* * *

En stenst þetta skoðun?

Þann 14. febrúar 2006 sendi fjarskipta- og fjölmiðlarisinn Dagsbrún tilkynningu til Kauphallar Íslands um kaup Gunnars Smára á 30,8 milljónum bréfa í félaginu. Samkvæmt tilkynningunni átti Gunnar Smári 50,6 milljónir hluta í félaginu eftir kaupin á genginu 5,54. Á núvirði nemur þessi fjárhæð 568,2 milljónum króna.

Þá er Dagsbrúnarsagan ekki alveg sögð. Til viðbótar hlutnum í einkaeigu átti Gunnar Smári á þessum degi 35% hlut í Fjárfestingafélaginu Selsvör ásamt Árna Haukssyni og Þórdísi Sigurðardóttur. Það félag átti 29 milljónir hluta í Dagsbrún og var hlutur Gunnars Smára óbeint í félaginu 114 milljóna króna virði. Samtals átti hann því hluti í Dagsbrún, beint og óbeint, fyrir 682 milljónir króna á núverandi verðlagi.

Í pallborðsumræðum Dagmála í gær var Gunnar Smári spurður út í téða tilkynningu og fullyrti hann þá, ranglega, að um væri að ræða kauprétt sem fylgdi starfinu og „varð aldrei að hlutabréfum“. Þegar nánar var gengið á hann játti hann því að hafa átt „smá hlut“ í Dagsbrún á „einum tímapunkti“.

„Ég átti bara lítinn ævisparnað þarna inni,“ sagði sósíalistaforinginn um hundruð milljóna króna hlut sinn.

* * *

En þá er ekki sagan öll. Á þessum árum átti Gunnar Smári Egilsson félagið Bókaforlagið Dægradvöl ehf., ásamt eiginkonu sinni.

Samkvæmt ársreikningum þess félags átti Gunnar óbeint verulega hlutabréfaeign og eru allar tölur á núverandi verðlagi.

Í árslok 2005 átti félagið hlutabréf í Kaupþingi banka fyrir 31 milljón króna og 4,2 milljónir króna í Landsbanka Íslands.

Í árslok 2006 átti félagið hlutabréf í Kaupþingi banka fyrir 30 milljónir króna og 4,1 milljón króna í Landsbanka Íslands, í Bakkavör fyrir 10,3 milljónir króna, í Eimskipafélaginu fyrir 500 þúsund krónur og í Exista fyrir 1,8 milljónir króna.

Það er því haugalygi þegar Gunnar Smári Egilsson segist ekki hafa átt kapítal. En staðreyndin er sú að Gunnar Smári átti hlutabréf fyrir um 700 milljónir króna þegar mest lét. Ef maður er ekki kapítalisti þá, hvenær verður maður þá kapítalisti?

* * *

En þetta finnst Óðni ekki vera alvarlegast í eignarhaldi Gunnars Smára á hlutabréfum. Árið 2009 skilaði Bókaforlagið Dægradvöl ehf. síðast ársreikningi og nefndist þá Dægradvöl ehf. Félagið greiddi eigendum sínum 15 milljónir króna í arðgreiðslu. Með þeirri arðgreiðslu tæmdu eigendur í raun félagið og skilaði Gunnar Smári aldrei ársreikningi fyrir félagið sem er brot á lögum um ársreikninga.

Í apríl 2012 var félagið tekið til gjaldþrotaskipta. Engar eignir fundust í búinu og lýstar kröfur í búið námu 8,7 milljónum króna. Kröfuhafarnir töpuðu því öllu sínu en eigendurnir töpuðu ekki 15 milljóna króna arðinum sem þau greiddu sér út árið 2009.

* * *

Á árinu 2004 átti Bókaforlagið Dægradvöl ehf. hlutabréf í einkavæddu ríkisbönkunum tveimur, í Kaupþingi banka fyrir 36,4 milljónir króna á núverandi verðlagi og 4,3 milljónir króna í Landsbanka Íslands.

Í byrjun árs 2004 skrifaði Gunnar Smári leiðara í Fréttablaðið og þar sagði:

Þótt enn sé ekki liðið heilt ár frá því að ríkisviðskiptabankarnir tveir voru einkavæddir er afrakstur þess að koma í ljós. Bankarnir eru reknir með miklum hagnaði og hafa aukið mjög við eign hluthafa sinna. Reynslan hefur sýnt að stjórnvöld hafa stórlega vanmetið jákvæð áhrif einkavæðingarinnar á bankana og því selt þá allt of ódýrt. Það er eins og ráðherrarnir hafi ekki trúað að rekstur ríkisins á bönkunum væri jafn hamlandi og getulítill og sagan hefur leitt í ljós.

Á sama tíma og einkavæðing bankanna hefur hleypt lífi í atvinnulífið bendir fátt til að sá rekstur sem enn er hjá ríkinu sé að skána. Heilbrigðiskerfið er þar líklega besta dæmið. Þar er allt í hnút.  Kostnaðurinn vex látlaust en samt þarf sífellt að skera niður þjónustu. Allir sem koma að þessum vanda eru samstiga um að vera jafn ráðalausir – svo sammála að mann grunar að starfsfólk heilbrigðisráðuneytisins og spítalanna, ráðherrarnir og stjórnendur spítalanna hafi haft samráð um að leggja aldrei til neinar vitlegar lausnir.

Ef það eitt að einkavæða bankana gat leyst slíka orku úr læðingi sem við höfum séð á undanförnum mánuðum, hversu mikil afrek gætum við ekki unnið í heilbrigðiskerfinu ef við frelsuðum það undan stefnulausum og orkusóandi ríkisrekstri? Og ef það er okkur trúarsetning að ríkið fari best með viðkvæman rekstur, hvers vegna hvarflar það ekki að okkur að flytja nokkuð til ríkisins sem einu sinni hefur sloppið þaðan? Það myndi flýta lausn á vanda heilbrigðisþjónustunnar ef við lærðum af reynslunni af öðrum rekstri, einkavæddum sem flesta þætti hennar til að fá betri þjónustu fyrir lægra verð.

Var Gunnar Smári að tala þetta með stöðu sinni í fyrrum ríkisbönkunum?

Gunnar Smári er að jafnaði kallaður Gunnar Fimmblaðasmári íslenskrar blaðaútgáfu eftir að hann setti Fréttatímann á hausinn. Áður kom hann Pressunni, DV, Eintaki og Fréttablaðinu öllum í gjaldþrot. Margir starfsmenn Fréttatímans töpuðu launum á gjaldþroti blaðsins.

* * *

Getur verið að Gunnar Smári tali bara með sínum hagsmunum og engum öðrum? Að hann sé tækifærissinni í versta skilningi þess orðs, hugsjónalaus með öllu og hugsi bara um sjálfan sig?

Óðinn telur sósíalismann mikið skaðræði fyrir menn og börn. En Óðinn ber virðingu fyrir skoðun þeirra sem í einlægni trúa á hugsjónir sínar, hversu vitlausar sem þær eru. En gæti verið að Gunnar Smári trúi ekki á sósíalismann nú frekar en kapítalismann þá?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.