Ég er ansi hræddur um að þetta hafi verið minn síðasti landsleikur,” glumdi í sjónvarpinu um leið og ég hugðist byrja að skrifa pistil um konur og pólitík. Það verður þó að bíða betri tíma. Eiður Smári Guðjohnsen átti virkilega einlæga og fallega stund í viðtali hjá Hauki Harðarsyni á RÚV þar sem hann sagði leikinn við Króata hafa verið sinn síðasta fyrir landsliðið.

Það þarf ekkert að tíunda það hversu margir urðu svekktir með þetta tap enda flestir komnir í baðfötin fyrir Brasilíuferð. Hins vegar gátu allir staðið stoltir upp úr sófanum og fagnað þessum árangri strákanna, sannarlega strákanna okkar.Það verður að segjast að Eiður Smári hefur fengið sinn skerf af gagnrýni í gegnum tíðina. Eftir góð ár hjá Chelsea tók við spennandi tími hjá Barcelona.

Það verður að viðurkennast að ég er ekki alveg hlutlaus. Á milli þess sem ég passaði Guðjohnsen-börnin í Barcelona hljóp ég út í sjoppu til að kaupa öll spænsku blöðin sem sýndu spænskan blóðhita. Goal-Johnsen birtist framan á blöðunum og allir fögnuðu þessari nýju hetju. Vissulega var þetta súrt og sætt tímabil. Harkan og ósvífin gagnrýni var samt ekki langt undan, eins og oft er í þessum bransa, þrátt fyrir að eiga farsælan feril með Barcelona í heildina. Ævintýrin héldu síðan áfram á nýjum slóðum.

Leikmenn flytja landanna á milli til þess að freista gæfunnar í von um að allt muni ganga upp í samvinnu við þjálfara og leikmenn. Já og fjölskyldunni er auðvitað rúllað með, það er partur af þessu. Stuðningsmennirnir eru hverfulir í þessum fótboltaheimi. Sem er auðvitað eðlilegt, þetta er víst leikur eftir allt saman. Eða svo segja þeir.

Það hefur verið virkilega ánægjulegt að fylgjast með Eiði í síðustu landsliðsleikjum og gaman að sjá hvað hann hefur gert fyrir liðið. Það leikur enginn vafi á því að hann hefur hjálpað og kennt yngri fótboltamönnum mikið. Fyrir utan hvað hann skilur mikið eftir hjá íslenskum stuðningsmönnum. Nú lýkur þessum tíma hans fyrir landsliðið. Súrt og sætt var það, þó töluvert meira sætt. Takk, Eiður.