*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Týr
6. desember 2019 13:03

Takk fyrir matinn!

Af hverju ættu útsvarsgreiðendur í Reykjavík að vera með borgarfulltrúana í fæði?

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Haraldur Guðjónsson

Það er sennilega varla hægt að hugsa sér leiðinlegri stjórnmálaumræðu en þref um mötuneytið. Í þessari viku máttum við þó þola það, þegar fram komu upplýsingar um kostnað Reykjavíkurborgar af því að næra borgarfulltrúa meðan á fundum borgarstjórnar stendur. Jú, það er sennilega æskilegra að borgarfulltrúarnir hnígi ekki niður á fundum af næringarskorti og fundirnir í Ráðhúsinu eru alræmdir fyrir að ætla engan enda að taka, en það er óhætt að segja að tölurnar hafi verið svimandi háar, svona fyrir hinn venjulega borgara, sem er vanur að borga fyrir matinn sinn sjálfur.

                                                                       ***

Samkvæmt svari fjármála- og áhættustýringasviðs borgarinnar var að jafnaði borðað og drukkið fyrir 360 þúsund krónur á hverjum fundi borgarstjórnar, en þar væru hátt í 50 manns kostgangarar. Um 80% væri fyrir mat, en ótaldar aðrar veitingar fyrir afganginn. Af því tilefni er sjálfsagt rétt að fá svar við því hvort vínseðillinn sé góður.

                                                                       ***

Hið sorglega er þó að þessar tölur virtust engum koma á óvart. Þær voru nefnilega algerlega í stíl við allar hinar fréttirnar um fjármálaóstjórn, sóun og flottræfilshátt, sem borist hafa úr Ráðhúsinu undanfarin ár.

                                                                       ***

Eftir að fólk hafði hneykslast á þessu drykklanga stund kom þó á daginn að útreikningar fjármála- og áhættustýringasviðs voru rangir. Að meðaltali kostaði hver fundur víst aðeins 208.000 krónur. Það var auðvitað gleðiefni að þar hafði kostnaðurinn verið ríflega ofætlaður, en hitt sorglegra að það kom engum, nákvæmlega engum, á óvart að fjármálasvið Ráðhússins kynni ekki að reikna.

                                                                       ***

Þetta gerist einmitt þá daga sem borgarstjórn er að ganga frá fjárhagsáætlun. Við skulum vona að þar skeiki minna en 42%.

                                                                       ***

En svo er hitt: Af hverju ættu útsvarsgreiðendur í Reykjavík að vera með borgarfulltrúana í fæði? Væri ekki nær að gera einfaldlega matarhlé á fundum borgarstjórnar, en það væri þeirra sjálfra að huga að kaloríunum? Þeir gætu komið með eitthvað heimasmurt með sér, nú eða brugðið sér á einhvern af fjölmörgum og frábærum veitingastöðum Miðbæjarins, þar sem hver og einn getur fundið mat við sitt hæfi og við hæfi fjárhags hvers og eins. En í þessu eiga borgarfulltrúarnir veskú að taka upp eigið veski.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.