Fyrir nokkrum vikum stefndi Ragnar Þór Ingólfsson verkalýðsleiðtogi almenningi á Austurvöll. Herkall Ragnars var til allra þeirra sem hafa fengið nóg af einhverju í íslensku samfélagi. Skemmst er frá því að segja að tæplega 300 manns svöruðu kallinu.

Djörf hækkun peningastefnunefndar Seðlabankans á stýrivöxtum í vikunni verður vafalaust til þess að Ragnar boði til fleiri mótmæla. Og vafalaust verður hún til þess að Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, fullkomni þá vandasömu list að tala í hástöfum um efnahags- ástandið.

En það er ástæða fyrir því að þessi málflutningur á sér ekki mikinn hljómgrunn. Hún er fyrst og fremst sú að málflutningurinn endurspeglar ekki hinn efnahagslega raunveruleika. Peningamálaskýrsla Seðlabankans var birt samhliða vaxtahækkuninni. Þar segir:

Skuldir heimila í hlutfalli við landsfram- leiðslu hafa lítið breyst á undanförnum árum. Þá eru vanskil þeirra enn lítil í sögulegu samhengi þrátt fyrir hækkandi greiðslu- byrði sökum hærra vaxtastigs. Vextir nýrra óverðtryggðra útlána heimila hafa hækkað samhliða vaxtahækkunum Seðlabankans en vextir innlána þeirra hafa hækkað hraðar undanfarna mánuði, líklega vegna aukinnar samkeppni um innlán heimila. Vextir verð- tryggðra íbúðalána hafa einnig hækkað í takt við almennt hækkandi raunvexti.“

Með öðrum orðum eru engar handbærar vísbendingar um að heimilum landsins sé að blæða út þrátt fyrir að öðru sé haldið fram. Sérstaka athygli vekur að vaxtamunurinn og útlána heimila hefur lækkað skart að undanförnu og rekur Seðlabankinn það til mikillar samkeppni um innlánin.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að vextir eru nánast óþolandi háir. Og því mið-
ur er ekki útséð með að þeir komi til með að hækka enn frekar til að koma böndum á verðbólguna. Framganga stjórnmálamanna þvert á flokka á Alþingi mun sjá til þess. Stjórnmálamenn hafa til þessa sett sjónaukann að blinda auganu þegar kemur að verðbólgu. Þeir eru ófærir um að sjá áhrif óheftrar aukningar ríkisútgjalda frá ári til árs á verðbólgu og þenslu.

Í raun og veru verður ekki séð að stjórnmálamönnum á Íslandi í dag detti aðrar lausnir í hug á efnahagslegum vandamálum en að auka ríkisútgjöld. Framlag þeirra til lausnar á þeim vandamálum sem stafa af viðvarandi verðbólgu einskorðast þannig við hækkun skatta og enn meiri ríkisútgjalda. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði þannig í viðtali við Morgunblaðið um liðna helgi að hennar pólitíska erindi væri efnislega að halda léttar um pyngjuna en Bjarni Benediktsson, núverandi fjármálaráðherra, gerir og þykir þó mörgum nóg um.

Það blasir við að núverandi stefna við stjórn ríkisfjármála mun ekki leiða til neins annars en að festa verðlagshækkanir og háa vexti í sessi til frambúðar. Ríkið dreg- ur vagninn í þeirri þenslu sem nú einkennir efnahagslífið. Í því ljósi er hjákátlegt að fylgjast með sumum stjórnmálamönnum sem tala fyrir óheftri útgjaldaaukningu segja að nú sé lag að skipta um gjaldmiðil. Þeirra er að svara hvernig ástandið væri með sömu stjórn ríkisfjármála við ígildi fastgengisstefnu.

Í peningamálaskýrslu Seðlabankans kemur skýrt fram hversu mikið lykilhlut- verk ríkisfjármálin geta reynst í baráttunni við verðbólguna. Núgildandi fjármálaáætl- un ríkisstjórnarinnar gerir ekki ráð fyrir hallalausum fjárlögum fyrr en árið 2028. Í rammagrein í skýrslunni sést með greinargóðum hætti hversu miklu myndi muna ef ráðamenn settu sér metnaðarfyllri markmið og drægju úr útgjöldum með skilvirkari og skjótari hætti. Þá er sérstaklega tekið fram að samdráttur í ríkisútgjöldum skili skjótari ávinningi í þessum efnum
en skattahækkanir ólíkt því sem haldið er fram af þorra stjórnmálamanna.

Á meðan heimsfaraldurinn stóð yfir mæltu margir fyrir því að réttast væri að hlusta á ráð sérfræðinga í baráttunni gegn hinni brellnu og brögðóttu veiru. Hafi reynst sannleikskorn í þeim ráðleggingum ætti að blasa við að réttast sé að hlusta á ráð sérfróðra þegar kemur að baráttunni fyrir verðstöðugleika.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði