*

föstudagur, 24. janúar 2020
Týr
4. október 2019 09:08

Á tánum í Evrópu

Það hafa íslensk stjórnvöld vanrækt allt frá því að EES-samningurinn tók gildi fyrir aldarfjórðungi árið 1994.

Aðsend mynd

Á þriðjudag var birt skýrsla um EES-samstarfið á vegum utanríkisráðuneytisins. Niðurstaðan var eindregin, að EES-samningurinn lifði góðu lífi. Hann væri til verulegs gagns og ávinnings aðildarríkja hans; en án samningsins væri veruleg hætta á einangrun, stöðnun og afturför í íslensku þjóðlífi. Hins vegar væri samningurinn ekki gallalaus og að Íslendingar mættu gjarnan herða sig í EESsamstarfinu.

                                                                  * * *

Bent var á að á samningnum léki stjórnskipulegur vafi, sem rétt væri að eyða með breytingu á stjórnarskrá eða með viðurkenningu á að samningurinn hafi öðlast stjórnlagasess líkt og og ýmsar óskráðar reglur aðrar. Þá var lagt til að komið yrði á fót stjórnstöð EES-mála innan stjórnsýslunnar, með starfsliði, sem fylgdist með bæði á mótunar- og framkvæmdastigi þess regluverks á vettvangi Evrópusambandsins, sem Ísland svo gengst undir.

                                                                  * * *

Týr telur rétt að fara fram með ýtrustu gát varðandi hinn stjórnskipulega vafa. Það er auðveldara um að tala en úr að komast, eins og Bretar hafa verið að komast að fullkeyptu undanfarna mánuði og misseri. Hins vegar er rétt og brýnt að Íslendingar neyti réttar síns og skyldu til þess að fylgjast vel með því hvernig regluverkið verður til suður í Brussel og geri athugasemdir við þegar ástæða er til eða málin varða íslenska hagsmuni með sérstökum hætti. Það hafa íslensk stjórnvöld vanrækt allt frá því að EES-samningurinn tók gildi fyrir aldarfjórðungi árið 1994.

                                                                  * * *

Það er enn nauðsynlegra nú en fyrr. Bæði í ljósi þess að Ísland er loksins farið að rjúfa margvíslega einangrun landsins gagnvart umheiminum, sem á komst við hrunið. Ekki vegna þess að heimurinn lokaði á Ísland, heldur fremur vegna þess að Ísland lokaði að sér í mörgum skilningi. Kannski þó ekki síður vegna þess að Evrópusambandið stendur á margvíslegum tímamótum. Þar tekur ný framkvæmdastjórn við völdum eftir mánuð, degi eftir að Bretar eiga að ganga úr ESB, djúp efnahagsniðursveifla virðist vera í aðsigi og ótti við evrukreppu hefur enn gripið um sig. Það er ekki óvarlegt að gera ráð fyrir því að ýmsar breytingar verði á vettvangi Evrópusambandsins á næstu árum og eins gott að Ísland verði á tánum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.