Hjá Deloitte Legal er haldið utan um gagnagrunn yfir öll ágreiningsmál á sviði skatta sem hafa ratað fyrir dómstóla og nær sá grunnur aftur til ársins 2005. Um er að ræða ríflega 200 dóma sem skiptast í sakamál annars vegar og einkamál hins vegar. Hlutfallið á vinningslíkum aðila gegn ríkinu eru aðeins 34% meðan ríkið hefur betur í um 62% tilvika. Þau 4% sem upp á vantar er vísað frá dómi.

Mögulega telja sumir þetta eðlilegt hlutfall, enda ætlunin að opinberar eftirlitsstofnanir fari ekki af stað með mál nema þær telji grundvöll fyrir því. Hér þarf þó að hafa í huga að aðeins brot af þeim málum er varða ágreining vegna skattamála rata fyrir dómstóla. En er þetta hlutfall komið til með að vera?

Lög og reglur á sviði skattamála eru síður en svo klippt og skorin og umtalsvert rými er á stundum til túlkunar, sem stundum eru mjög skapandi og eitthvað sem menn gátu ekki séð fyrir. Sú meginregla um réttaröryggi sem sett hefur verið fram „…að lög eigi að vera almenn, birt, skiljanleg, stöðug, ekki afturvirk, ekki í innbyrðis mótsögn við sjálf sig, ekki krefjast hegðunar sem er ómöguleg og að það eigi að gæta samræmis milli laganna eins og þau eru birt og beitingar þeirra.“[1]

Þó er það þannig að skattframkvæmd er á mörgum sviðum ekki nægilega gagnsæ. Aðeins hluti bindandi álita og ákvarðandi bréfa er birtur og sömuleiðis ekki allir úrskurðir yfirskattanefndar, þótt bætt hafi verið úr að hluta síðustu ár. Leiðbeiningar skattyfirvalda eru þannig af skornum skammti, þrátt fyrir lagaboð stjórnsýslulaga og meginreglur réttarsviðsins.

Sem dæmi gefur ríkisskattastjóri út reglur á hverju ári um m.a. bifreiðahlunnindi. Þar er megininntakið að „[e]igendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnarmenn félaga teljast ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim eru látnar í té og þeir hafa til einkanota, þ.m.t. skutbifreiðum, jeppabifreiðum, eða öðrum þeim bifreiðum sem hægt er að hafa sambærileg not af“.

Hér verður að staldra við orðin, „látnar í té og þeir hafa til einkanota“. Samkvæmt orðanna hljóðan þýðir þetta að ef bifreið er í eigu félags og er notuð í þágu þess liggur ekki alveg skýrt fyrir hvort bifreiðin hafi verið látin í té. Mörg dæmi eru um að fyrirtæki séu með fjölda bifreiða en þá hefur RSK litið til þess að ef ein bifreið virðist vera betri en aðrar bifreiðar félagsins sé komið tilefni til að túlka að sú hefur verið látin í té eiganda, án þess að svo hafi verið.

Litið framhjá akstursbókum

Tökum dæmi af félagi í sérhæfðri ferðaþjónustu og framkvæmdastjóra, þar sem eru 3-6 starfsmenn eru starfandi eftir árstíma, tekjur félagsins koma til vegna sérhæfingar og þeirrar bifreiðar sem notuð er í félaginu og skapar um 600 milljónir króna í tekjur á ári. Á fyrirspurnartímabilinu sem spannaði 3 ár voru eknir yfir 70 þúsund kílómetrar og hver einasti km skráður öll árin, með dagsetningu, upphafsstöðu kílómetra við upphaf ferðar, lokastaða kílómetra við lok ferðar, hver ók bifreiðinni og af hvaða tilefni. Þannig var gerð grein fyrir öllum eknum kílómetrum í þau þrjú ár sem spurt var um. Ákvörðun stjórnar um bann starfsmanna við notkun á bifreiðinni í eigin þágu lá fyrir. Hluthafi félagsins átti og hafði óheftan aðgang að eigin bifreiðum. Þrátt fyrir þetta var endurákvarðað á hluthafann háum fjárhæðum í skatt. Rökstuðningurinn var að notkun skipti engu máli, aðeins að hluthafinn hefði mögulega aðgang að bifreið félagsins.

Í öðru máli var staðan sú að eigandi félagsins var almennur starfsmaður þess og sat sem óbreyttur stjórnarmaður í þriggja manna stjórn. Félagi var með 11 bifreiðar í notkun og starfsmannafjöldi var um 40. Vikulega hélt framkvæmdastóri félagsins verkefnafundi þar sem bifreiðum var raðað niður á starfsmenn eftir verkefnum þeirra. RSK taldi ástæðu til að draga út fyrir sviga eina bifreið og segja að hún hafi verið látin eiganda félagsins í té, þrátt fyrir að hlunnindi væru greidd af öðrum bíl sem eigandinn hafði hjá öðru félagi sem hann átti. Þannig mátti eigandi félagsins þola endurákvörðun RSK fyrir notkun á bifreið sem ekki var notuð í þágu eiganda, heldur félagsins og gerð hafði verið grein fyrir öllum eknum kílómetrum.

Í framangreindum dæmum er í báðum tilvikum endurákvarðað á hluthafa í félögum hlunnindum, þótt grein hafi verið gerð fyrir notkun bifreiðanna í þágu félaganna. Samhengi RSK er hluthafi sem vinnur í félagi sem á bifreið, sem RSK metur að eigi að vera í umsjón hluthafa, skal greiða hlunnindaskatt, án tillits til notkunar bifreiðarinnar.

Með framangreindar tölum um vinningshlutfall ríkisins í skattamálum þarf að spyrja sig hvort þetta hlutfall sé eðlilegt?

Höfundur er lögmaður hjá Deloitte Legal.

[1] Skýrsla Fjármálaráðuneytisins frá desember 2013 Stjórnsýsla skattamála, bls.9

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 26. janúar 2023.