*

laugardagur, 20. júlí 2019
Símon Þór Jónsson
9. september 2017 10:10

Tekjuskattur eða virðisaukaskattur?

Tekjuskattur er stighækkandi og beinn skattur, meðan virðisaukaskattinn má kalla stiglækkandi en hann er mun skilvirkar og þægilegri.

Nordic photos

Reglulega á sér stað samanburður á kostum og göllum tekjuskatts annars vegar og virðisaukaskatts hins vegar og sitt sýnist hverjum. Um miðjan síðasta áratug spurði Þjóðarpúls Gallup hvort fólk teldi mikilvægt að tekjuskattur eða virðisaukaskattur væri lækkaður. Niðurstaðan var alls ekki afgerandi því rétt rúmlega helmingur eða um 57% taldi mikilvægara að virðisaukaskattur væri lækkaður.

Við samanburð á kostum og göllum tekjuskatts og virðisaukaskatts þarf að hafa í huga þann eðlismun sem er á milli þessara skatta. Tekjuskattur er beinn skattur en virðisaukaskattur er óbeinn skattur. Flokkun skatta í beina og óbeina tengist hugtakinu skattbyrði (e. tax incidence). Skattbyrði getur ýmist verið formleg eða raunveruleg.

Formleg skattbyrði hvílir á þeim sem ber lagalega skyldu til að greiða skattinn til skattyfirvalda, en raunveruleg skattbyrði hvílir á þeim sem raunverulega ber skattinn. Þegar formleg og raunveruleg skattbyrði hvílir á sama aðila er skatturinn beinn. Þegar formleg og raunveruleg skattbyrði er aðskilin er skatturinn óbeinn.

Í Auðlegð þjóðanna (1776) fjallaði Adam Smith m.a. um þau markmið sem skattar og skattkerfi þyrftu að leitast við að ná. Taldi hann að

  1. Skattar þyrftu að vera sanngjarnir þannig að fólk væri látið greiða skatta í samræmi við getu sína.
  2. Skattar þyrftu að vera skilvirkir m.t.t. þess kostnaðar sem til félli vegna skattskila, álagningar og innheimtu, þ.m.t. tapaðra tekna vegna sniðgöngu og svika
  3. Skatta þyrfti að leggja á skattgreiðendur á sem þægilegastan máta fyrir þá, eins og m.t.t. tímamarks álagningar og byrðar af útreikningum og skattskilum og
  4. Skattar þyrftu að vera skýrir, vissir og fyrirsjáanlegir, ekki handahófskenndir. Markmiðin eru talin eiga fullan rétt á sér í nútímaskattkerfum, enda þótt viðurkennt sé að erfitt geti verið í framkvæmd að ná jafnvægi á milli þeirra allra, þar sem styrking eins þeirra leiðir yfirleitt til veikingar annars. Athyglisvert er að skoða þessi markmið í samhengi við tekjuskatt og virðisaukaskatt.

Tekjuskattur sanngjarnari

Tekjuskattur er almennt talinn vera sanngjarnari en virðisaukaskattur. Það er af því að hann er stighækkandi (e. progressive) þ.e. skatturinn hækkar eftir því sem tekjur hækka. Persónuafsláttur, þrepaskipting, barnabætur og vaxtabætur leiða til þess að tekjuhærri greiða hlutfallslega hærri tekjuskatt en þeir tekjulægri.

Þessu er öfugt farið með virðisaukaskatt. Það má segja að virðisaukaskattur sé stiglækkandi (e. regressive) þ.e. lækki eftir því sem tekjur hækka, því hlutfallið af tekjum einstaklings sem fer í virðisaukaskatt lækkar eftir því sem tekjur aukast. Við óbeina skattlagningu eins og í tilviki virðisaukaskatts er erfitt að koma við stighækkandi skattlagningu.

Virðisaukaskattur skilvirkari

Virðisaukaskattur hlýtur því óhjákvæmilega að teljast ósanngjarn skattur. En hann er bæði skilvirkari og þægilegri fyrir skattgreiðendur en tekjuskattur. Skilvirknin liggur annars vegar í því að formlega skattbyrðin er bundin við auðrekjanlegan atburð, sem er salan á skattskyldri vöru eða þjónustu, og hins vegar í því að til staðar er aðili, atvinnureksturinn, sem einfalt er að heimta skattinn hjá. Þægindin fyrir greiðendur skattsins, neytendur, eru augljós, en þeir greiða virðisaukaskattinn jafnóðum og þurfa ekki að reikna sinn virðisaukaskatt og skila virðisaukaskattsskýrslum.

Að lokum er rétt að benda á mikilvægi beggja skatta við hagstjórn. Skattkerfi sem leggur háa skatta á neyslu, samanborið við skatta á tekjur (þ.m.t. fjármagnstekjur), hvetur til sparnaðar. Skattkerfi sem leggur háa skatta á tekjur, samanborið við skatta á neyslu, hvetur til neyslu. Í efnahagslægð getur verið rétt fyrir ríki að taka tekjur sínar frekar í gegnum tekjuskattskerfið, eins og mörg ríki reyndar gerðu í kjölfarið á hruninu 2008 þ.e. m.a. með því að lækka virðisaukaskatt. Uppsveifla kann að kalla á andstæðar skattabreytingar. Jafnvægi er almennt eftirsóknarvert og í því samhengi eru báðir skattar mikilvægir.

Af framansögðu má álykta að tekjuskattur sé sanngjarnari en virðisaukaskattur, en virðisaukaskattur er aftur skilvirkari og þægilegri fyrir skattgreiðendur. Þannig uppfylla báðir skattar að nokkru þau markmið sem Adam Smith setti fram 1776, þótt með ólíkum hætti sé. Þá eru báðir skattar mikilvægir m.t.t. hagstjórnar. Það er því erfitt að segja að annar skatturinn sé betri en hinn, en vissulega hægt að hafa skoðun á því á hverjum tíma hvorn skattinn beri að lækka eða eftir atvikum hækka.

Höfundur er lögfræðingur hjá EY, endurskoðun og ráðgjöf

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.