Nýlega birtist grein með titlinum „Viljandi misskilningur“ eftir tvo talsmenn Viðskiptaráðs í Viðskiptablaðinu. Í greininni var gerður samanburður á fjármagnstekjusköttum og almennum tekjuskatti sem svari við annarri grein eftir Oddnýju G. Harðardóttur, en Viðskiptaráð eyddi talsverðu púðri í að draga fram skakka mynd af raunveruleikanum. Þar sem Oddný hafði talsvert til síns máls er rétt að afrugla þá mynd sem Viðskiptaráð dregur fram, en fyrst má ég til með að hrósa Viðskiptaráði fyrir að velja titil sem lýsti vel því sem þau ætluðu sér að gera. Förum nú yfir grein Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð kemst að þeirri niðurstöðu að skattur á fjármagnstekjur séu hærri en á launamenn með talsverðri hugarleikfimi. Viðskiptaráð segir fyrst réttilega frá að hagnaður í fyrirtæki sem greitt er af tekjuskatt fyrirtækja (20%) og er í framhaldi strax greiddur út sem arður, sem leiðir til fjármagnstekjuskatts á einstaklingsstiginu (22%), ber í heildina 38% skatt. Í stað þess að bera þá tölu við efsta þrep almenns tekjuskatts launamanna, sem er um 46%, þá þykir Viðskiptaráði betri samanburður vera að horfa á hver virk skattbyrði meðal íslenskra para á aldrinum 25-64 ára með 1-2 börn hafi verið árið 2020, sem var 37%. Sem sagt að ekki sé rétt að horfa beint á almenna tekjuskattinn. Ekki sé heldur rétt að reikna hver skattbyrði ríkasta prósents þjóðarinnar (sem Oddný ræðir í sinni grein) hefði verið ef fjármagnstekjurnar hefðu verið launatekjur. Nei rétt sé að bera skattbyrði þessa hóps við virka skattbyrði afmarkaðs hóps launamanna, sem þó myndu greiða skatt miðað við almennu tekjuskattþrepin þannig að virka skattbyrðin myndi hratt nálgast 46% þegar tekjurnar væru komnar í tugi, hundruð og milljarða króna. Hér eru því epli borin við appelsínur og svo hent í stórar fullyrðingar.

Annað sem Viðskiptaráð gleymir í umfjöllun sinni, eflaust alveg óvart, er að það er engin kvöð á fyrirtækjum að greiða hagnað sinn út sem arð strax (né nokkurn tímann). Með því að fresta fjármagnstekjuskattinum myndast skattahagræði þar sem fjármunirnir sem hefðu farið í skatta geta nú farið í aðra þætti, svo sem fjárfestingar sem sjálfar bera ávöxtun. Vitanlega kemur að því að greiða þarf fjármagnstekjuskattinn ef greiða á fjármunina út sem arð, en þá hefur fjárfestirinn náð að fá ávöxtun af fjármunum sem hann hefði aldrei fengið ef hann hefði þurft að greiða skatta strax eins og launamaður. Því er 38% skattur á fjármagn alveg í toppi þess sem hann getur orðið, en raunin er að hann er oftast nær lægri í reynd. Sér í lagi þegar horft er til allra þeirra tækja sem standa fyrirtækjum til boða til að eyða skattgrunni sínum, sem er raunar eitt stærsta skattavandamál samtímans og færir skattbyrði yfir á launamenn í slíkum mæli að OECD og Evrópusambandið hafa séð sig knúin til að reyna koma á sameiginlegum fjölþjóðlegum skattkerfum til að vinna á því bug.

Til að hamra á því hvað skattlagning á fjármagnstekjur sé nú mikil fer Viðskiptaráð svo að ræða skatt á raunávöxtun, en raunávöxtun er ávöxtun umfram hækkun verðlags. Til að fá rétta niðurstöðu handvelur Viðskiptaráð svo inn forsendur að vanda. Viðskiptaráð leggur upp með fjárfestingu í ríkisskuldabréfum sem bera 5,1% ávöxtun og að verðbólga sé 3,2%. Þannig sé raunávöxtun um 1,9%, en þar sem skatturinn (22%) sé greiddur af nafnávöxtun sé skatturinn af raunávöxtun nærri 60%! Vitanlega væri raunávöxtunin þó mun hærri og raunskattbyrðin þar með mun lægri ef horft væri á eitthvað annað en þær fjármagnsvörur sem veita allra lægstu ávöxtunina. En gott og vel, þarna fundu þau dæmi sem hentar þeim.

Einkennilega ræðir Viðskiptaráð þó ekkert um að skattar af launum sé líka greiddir af nafnlaunum, en vitanlega verður vinnumaður líka fyrir raunskatta hækkun ef hann innir af hendi vinnu í byrjun mánaðar en fær ekki greitt fyrr en í lok mánaðar. Nær er þó kannski að nefna að mælingar á íslenskri verðbólgu geta ekki verið notaðir fyrir slíka útreikninga þar sem sú verðbólga er keyrð áfram að stóra leiti á hækkun fasteignaverðs, sem er ekki neysluvara heldur fjárfesting. Þá mætti allt eins bæta inn í reikninginn hækkun á öðrum fjárfestingum eins og hlutabréfum. Þá fyrst væri „raunskattlagning“ fjármuna komin hátt!

Annað sem má nefna er að íslenskir launamenn fá ekki að draga frá skattgrunni sínum útgjöld líkt og fyrirtæki fá. Þ.e.a.s. launamenn fá ekki að lækka skattgrunn sinn um hluti sem þeir verða að neyta til þess að geta stundað vinnu, t.d. matarkostnað eða kostnað vegna húsnæðis. Því má allt eins segja að skattgrunnur launamanna sé stórlega ýktur og raunskattbyrði þeirra ofsafengin. Í öllu falli eru það slæm vinnubrögð og slæm hagfræði að bera sífellt saman epli og appelsínur.

Annars er mjög auðveld leið til þess að útkljá þessa umræðu: Hvort standa skattayfirvöld í vanda vegna þess að margir greiða sér lág laun til þess að ná fram meiri fjármagnstekjum eða er vandinn sá að margir reyna fremur að greiða sér há laun til þess að lágmarka fjármagnstekjur? Svarið er vitanlega það fyrra og það er gert vegna skattahagræðis.

Höfundur er doktorsnemi í skattahagfræði.