Árið 2015 gerðu ríki heims með sér magnað samkomulag – Parísarsáttmálann – sem er nátengdur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Aðdragandinn var langur. Margar tilraunir, alþjóðlegar ráðstefnur og sáttmálar. En það tókst. Markmiðið er að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5 til 2 gráður, miðað við upphaf iðnbyltingar. Mikið er í húfi.

Á síðustu 10.000 árum hafa hitabreytingar á jörðinni verið á um einnar gráðu bili. Á þeim tíma náði nútíma samfélag eins og við þekkjum það að þróast. Ef vikið er frá því jafnvægi hefur það gríðarleg áhrif á hag okkar allra. Hamfarahlýnun vegna gróðurhúsalofttegunda er staðreynd. Sama gildir um ógnun vegna skógareyðingar, minnkunar líffræðilegs fjölbreytileika og áburðarmengunar.

Í vegferðinni felast tækifæri

En við erum heppin! Við höfum upplýsingar um stöðuna, tækni til að bregðast við og þekkingu til að beita tækninni. En til þess þurfum við að fylgja plani og allir þurfa að leggjast á árarnar. Þótt bjöllunni hafi verið hringt hátt í París árið 2015 höfum við ekki lagt nægjanlega við hlustir. Enn hefur maðurinn ekki brugðist við með þeim hætti sem þarf til að snúa öfugþróuninni við. Til að ná 1,5 gráðu markinu þarf að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. koltvísýring, um nær helming fyrir árið 2030. Endamarkið er svo 100% kolefnishlutleysi árið 2050.

Íslendingar eru lítið peð í því tafli en við berum sömu ábyrgð sem einstaklingar og íbúar fjölmennari ríkja. Við getum líka verið snögg að bregðast við og sýnt fordæmi sem getur verið stærri samfélögum innblástur. Í þeirri vegferð gefast tækifæri til að skapa ný störf, efla nýsköpun og bjóða ný fjárfestingartækifæri.

Höfum við annað plan?

Alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey segir í nýlegri skýrslu, „Climate math: What a 1.5-degree pathway would take“, að til þess að ná helmings minnkun kolefnislosunar fyrir árið 2030 verði að beita fimm taktískum leiðum sem eru í stuttu máli að;

  • i) stórbæta matvælaframleiðslu, vernda skóga og vinna gegn matarsóun en áætlað er að um 1/3 af matarframleiðslu fari forgörðum við framleiðslu og neyslu
  • ii) rafvæða líf okkar, t.d. samgöngur og húshitun
  • iii) laga alla iðnaðarferla, hámarka notkun endurnýjanlegrar orku og færa framleiðslu úr línulegri (búa til – nota – henda) yfir í hringrásarhagkerfið
  • iv) skipta að mestu út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orku
  • v) fanga koltvísýring úr andrúmsloftinu og stórauka skógrækt

Þetta er mjög róttækt plan, en höfum við annað plan? Í umbreytingunni felast ógnanir en líka gríðarleg tækifæri.

Til að ná árangri þarf að stórauka framleiðslu endurnýjanlegrar orku, bæði sólarorku og vindorku. Fanga þarf koltvísýring úr andrúmsloftinu og þar sem það fellur til við iðnaðarframleiðslu, sem er áhugavert m.t.t. innlendrar umræðu undanfarið. Þá er lögð áhersla á kröftuga endurheimt og uppbyggingu skóga. Nefnt er í því sambandi að það þurfi að rækta svæði sem svarar til flatarmáls Íslands, árlega fram til ársins 2030.

Þessar umbreytingar kalla á mjög umfangsmiklar sjálfbærar fjárfestingar. Í því felast tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að laða að sér innlent og erlent fjármagn. Slíkar fjárfestingar eru í takt við Viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar sem undirrituð var í september sl. af forsætisráðherra f.h. ríkisstjórnarinnar og aðilum sem fara fyrir hátt í 80% af eigum á íslenskum fjármálamarkaði. Hér fara því tækifæri og hagsmunir saman.

Það getur verið gagnlegt að spegla okkur í þeirri mynd sem hér er dregin upp. Hvað gætum við lagt af mörkum? Hvaða tækifæri gætum við nýtt okkur? Íslendingar eiga mikið undir því sem eyþjóð að vel takist til, því við erum háð veðrum, harðri náttúru og gjöfulum fiskimiðum. Við eigum líka mannauð og náttúruauðlindir til að nýta og miðla.

Skoðanaskipti, samstarf og leiðir

Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni vinnur ötullega að þessum málum sem brúarsmiður, fræðslumiðstöð og umræðuvettvangur.

Loftslagsáskorunin er til umræðu á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar 27. nóvember nk. Fundurinn er haldinn á fimm ára afmæli Loftslagsyfirlýsingar Festu og Reykjavíkurborgar. Að yfirlýsingunni, og loftslagsyfirlýsingu í samstarfi við Akureyrarbæ, standa nú rúmlega 140 fyrirtæki. Fyrirtæki sem hafa skuldbundið sig til að vinna að markmiðum Parísarsamkomulagsins. Það væri fengur að því að fá enn fleiri fyrirtæki að yfirlýsingunni.

Á loftslagsfundinum verða erindi umhverfisráðherra, borgarstjóra, fulltrúa fyrirtækja, verkefnastjóra hjá Grænvangi, loftslagsaktívista, formanns Loftslagsráðs og formanns Festu. Þá verður Michael Nevin, sendiherra Breta á Íslandi, með erindi en Bretland heldur, ásamt Ítalíu, 26. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – COP26 – í Glasgow á næsta ári. Þar verður lögð rík áhersla á lykilhlutverk fjárfesta í að koma böndum á lofslagsþróunina. Það kom glöggt fram í ræðu fyrrverandi bankastjóra Englandsbanka og ráðgjafa breska forsætisráðherrans vegna COP26, þegar hann lagði áherslu á að hlutverk fjármálageirans væri einfalt; að tryggja að við sérhverja fjárfestingarákvörðun væru loftslagsbreytingar teknar með í reikninginn.

Eitt er víst – við leysum ekki aðsteðjandi vanda með sömu leiðum og við skópum hann. Festa hvetur því alla til að leita leiða og taka þátt í umræðu um loftslagsmálin. Þar munar um framlag þitt!

Höfundur er stjórnarformaður Festu miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, og yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.