Rauði krossinn hefur sl. ár lagt áherslu á að auka samstarf við íslenskt atvinnulíf í alþjóðlegu þróunarsamstarfi. Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar og stjórnvöld um allan heim, þar með talin íslensk stjórnvöld, kallað eftir þátttöku fyrirtækja enda ljóst að Heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun verður ekki náð í tæka tíð án aðkomu þeirra. Utanríkisráðuneytið hefur gert gangskör að þessu markmiði með því að setja á laggirnar sérstakan samstarfssjóð atvinnulífs og stjórnvalda til að virkja þekkingu, fjármagn og frumkvæði íslenskra fyrirtækja til að vinna að heimsmarkmiðunum.

En af hverju? Hvað hafa fyrirtæki fram að færa í þróunarsamvinnu?

Fyrirtæki búa yfir mikilli þekkingu og reynslu. Sum íslensk fyrirtæki hafa jafnvel skapað háþróaðar tæknilausnir sem geta verið svar við stórkostlegum vandamálum um heim allan, ekki síst á hinum fátækustu svæðum. Er það ekki samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja að vinna að því að lausnir þeirra nái til þeirra sem mest þurfa á að halda?

Sem dæmi má nefna að það segir sig sjálft að Rauði krossinn er ekki jafnfær um að smíða háþróuð stoðtæki fyrir fólk sem misst hefur útlimi og fyrirtæki sem sérhæfa sig í nákvæmlega því. Heimafólk á fátækum svæðum er oft úrræðagott og finnur einfaldar lausnir við stórum vandamálum. Þau geta lært að smíða ófullkominn gerviútlim úr viðarklumpi. Viðarklumpurinn endist að sjálfsögðu ekki að eilífu, en í þekkingunni til þess að smíða nýjan gerviútlim úr fáanlegum efnivið, þegar sá gamli er orðinn of lítill eða lélegur, felst sjálfbærni þessarar einföldu lausnar. Við vitum að þegar samfélög verða sjálfbær, þegar einstaklingar geta sjálfir gert það sem þarf að gera, þróast þau hraðar og verða betur stödd. Það er til lítils að byggja hátæknilegan brunn fyrir vatn ef enginn kann eða hefur ekki fjármagn til að laga hann þegar hann bilar. Þess vegna skiptir máli að fjármagni og lausnum fylgi uppbygging þekkingar.

Sem dæmi um uppbyggingarverkefni þar sem fyrirtækjasamstarf hefur gengið afskaplega vel er samstarf Rauða krossins, Íslandsbanka, Þekkingar, Reiknistofu bankanna og Sýnar. Verkefnið nefnist Brúun hins stafræna bils og felst í því að efla þekkingu og getu afrískra landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans í upplýsinga- og samskiptatækni. Áreiðanlegt internet, starfhæft tölvupóstkerfi, traust bókhaldskerfi og ábyrg gagnavistun skiptir öllu máli þegar skipuleggja þarf neyðaraðgerðir og uppbyggingarstarf. Fyrirtækin fjögur lána Rauða krossinum starfsfólk með sérfræðiþekkingu til verkefnisins. Þannig hafa sendifulltrúar á þeirra vegum farið til Malaví, Búrúndí, Tansaníu, Líberíu og svo lengi mætti telja til að aðstoða. Markmiðið er að efla heimafólk, að láta þekkinguna verða eftir þar svo að þau verði sjálfbær um að finna út úr því þegar eitthvað klikkar.

Ég hvet íslensk fyrirtæki til að setja sig í samband við okkur og athuga hvort sú sérþekking sem þar býr geti ekki nýst á vettvangi í þróunarsamstarfi.

Höfundur er upplýsingafulltrúi Rauða krossins.