Ég las í vikunni frétt á ónefndum íslenskum vefmiðli sem sneri öllu á hvolf. Fréttin fjallaði, líkt og svo margar aðrar í síðustu viku, um skráningu samskiptasíðunnar Facebook á markað.

Nema hvað, ein helsta staðreynd sem í fréttinni kom fram gekk þvert á það sem ég áður hafði lesið um nákvæmlega sama hlut. Ég velti vöngum í smá stund, enda allt eins líklegt að sjálf hefði ég misskilið það sem ég áður hafði lesið. Til að ganga úr skugga um hvað væri rétt í málinu ákvað ég að fletta því upp. Ég leyfði mér að draga þá ályktun að blaðamaðurinn íslenski hefði sjálfur ekki náð tali af hinum víðfræga Mark Zuckerberg, stofnanda og eiganda Facebook, heldur fengið upplýsingarnar úr frétt á erlendum miðli. Eftir annan lestur fréttarinnar komst ég hins vegar á raun um að hvergi kom fram hvaðan blaðamaður fékk upplýsingarnar. Eins og svo oft á við um erlendar fréttir á íslenskum miðlum.

Eftir dágóða stund af „googli“ og athugun á helstu fréttasíðum vesturheims fann ég um það bil nákvæmlega sömu frétt og var á þessari ágætu íslensku fréttasíðu. Eins og mig grunaði hafði fréttin einfaldlega verið rangt þýdd. Fleiri höfðu greinilega áttað sig á mistökunum enda var ég ekki fyrr byrjuð að skrifa ábendingu til ritstjórnar síðunnar en búið var að leiðrétta mistökin.

Mistök geta alls staðar orðið. Fréttir eru ekki alltaf áreiðanlegar, því miður. Þessi þýðingarmistök minntu mig hins vegar á óþolandi venju fjölda íslenskra blaðamanna sem oft á tíðum geta ekki heimilda. Þetta á reyndar jafnt við þegar frétt er byggð á íslenskri umfjöllun sem og erlendri.

Við þekkjum öll Lagið um það sem er bannað. Við segjum jú ekki ráddi heldur réði, rétt eins og söngvarinn minnti okkur á. Alveg eins og það er bannað að pissa bakvið hurð þá er bannað að stela. Það er einfalt mál að vísa í heimildir. Að stela orðum erlends blaðamanns (sem líklega mun aldrei komast að því) er alveg jafn rangt og að stela orðum íslensks blaðamanns sem samstundis blótar og hringir skammandi.

Af þessu þurfa íslenskir blaðamenn að venja sig. Ef ekki af virðingu við aðra blaðamenn þá af virðingu við lesandann.