*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Hersir Aron Ólafsson
15. september 2020 12:56

Það sem þjóðin vill

Það er algeng meinloka að telja eigin skoðanir betri, réttari og æðri öðrum.

Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Það er algeng meinloka að telja eigin skoðanir betri, réttari og æðri öðrum. Þegar þær verða nógu heilagar eru skoðanirnar stundum heimfærðar á umtalsvert stærra þýði en innistæða er fyrir og breytast í skoðanir þjóðarinnar, vilja almennings o.s.frv. Ef vel liggur á fólki telur það hljómþýðar raddir sínar jafnvel vera „raddir fólksins“. 

Tæplega þarf að eyða mörgum orðum í  að „þjóðin“, „fólkið“ og „almenningur“ hefur sjaldnast eina tiltekna skoðun, vilja eða val. Meirihlutinn getur þó ótvírætt lýst skoðun sinni og tekið ákvörðun um ýmis mál, líkt og endurspeglast reglulega í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum. En meira um það síðar. 

Vel skipulögð og kostuð áhrifavaldaherferð Stjórnarskrárfélagsins, eða „fræðsla“ eins og hún er víða kölluð, hefur vakið verðskuldaða athygli. Óhætt er að fullyrða að þar sé farið fremur frjálslega með bæði hugtök og staðreyndir, líkt og bent hefur verið á við litla hrifningu. 

Rauði þráðurinn er óréttlætið sem felst í því að sumir hagnist vel á að veiða, markaðssetja og selja fisk. Þetta óréttlæti á nýja stjórnarskráin að leysa. Að vísu kemur ekki fram nákvæmlega hvernig. Því síður kemur fram með hvaða hætti „þjóðin“ ætlar að skapa sömu verðmæti og sérhæfð fyrirtæki hafa gert um árabil með tilheyrandi gjaldeyris- og skatttekjum. 

En nóg um það. Stærsta villan endurspeglast nefnilega í kjarna hugtaksins sem allt snýst um, Nýju stjórnarskránni svokölluðu. Óljóst er af hverju þetta átta ára gamla mál skaut nýlega upp kollinum aftur, en málflutningurinn hefur ekki verið í fullu samræmi við þær átta ára gömlu staðreyndir sem skipta máli. 

Þannig er því ítrekað haldið fram að þjóðin hafi „kosið sér nýja stjórnarskrá“. Fullyrðingin er ekki útskýrð nánar og líklega treyst á stopult minni lesenda um smáatriðin. 

Hið rétta er þó að „þjóðin“ kaus sér hvorki eitt né neitt með bindandi hætti. Í október 2012 var haldin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs. Minna en helmingur kosningabærra Íslendinga mætti á kjörstað. Fremur naumur meirihluti minnihlutans svaraði því með ráðgefandi já-i að leggja ætti tillögurnar til grundvallar í frumvarpi. Þetta má allt sjá hér. 

Áhugi á málinu var almennt lítill og svo dó það út. Fullyrðingar um val og vilja þjóðarinnar í tengslum við átta ára gamla ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem minnihluti svo mikið sem mætti, eru því vægast sagt óvarlegar. 

Það er göfugt að berjast fyrir hugðarefnum sínum og vinna að betra samfélagi. Það er ekki jafn göfugt að tína saman rangfærslur, taka myndband, smella á Boost post og úthúða svo þeim sem dirfast að gagnrýna fræðsluna. 

Höfundur er lögfræðingur

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.