Örn Arnarson, það er rétt sem þú bendir á í grein þinni þann 14 september að ég hef ekki skrifað Halla og Ladda harðort bréf á undanförnum árum en það er einfaldlega vegna þess að ég lét sérhagsmuni mína ráða.

Ég keypti nefnilega tvö afspyrnu góð hross af Kirkjubæjarbúinu sem var stofnað af föður Ladda og hef hvorki viljað varpa skugga á aðstandendur búsins né skyldmenni þeirra í tíunda ættlið þótt það hafi svo sannarlega verið full ástæða til þess að gagnrýna dvínandi gæði á bröndurum. Ég vil nefnilega að heiminum sé ljóst að öll spendýr sem koma frá Kirkjubæ eru frábær og þá sérstaklega hryssurnar tvær sem ég keypti.

Ég er líka sammála þér þegar þú segir að Jón Ívar Einarsson hafi skrifað ágæta grein og hófstillta í Morgunblaðið um sóttvarnaraðgerðir á landmærum þar sem hann lagði til að sóttkví yrði skipt út fyrir heimkomusmitgát.  Mér fannst þetta alls ekki galin hugmynd og ræddi hana við ýmsa aðila í sóttvarnarbatteríinu og skoðaði vendilega gögn frá heimkomusmitgát íbúa. Ég komst að þeirri niðurstöðu að heimkomusmitgátin veitti ekki eins góða vörn og sóttkvíin og væri því ekki raunhæfur möguleiki.

Ég legg hins vegar á það áherslu að mitt mat á þessu lýtur að sóttvörnum og engu öðru. Það næsta sem gerðist var að Morgunblaðið hafði samband við Jón Magnús, unglækni sem hafði verið partur af Covid-19 teymi Landspítalans, og spurði hann álits á tillögum Jóns Ívars. Jón Magnús gagnrýndi hugmyndir nafna síns Ívars á málefnalegan en óvæginn hátt.

Viðbrögð Jóns Ívars voru að hrauna yfir strák á Fb síðu lækna og segja honum að hann ætti ekki að derra sig við mann eins og hann sem væri prófessor við Harvard, hefði lagt að mörkum til meira en hundrað vísindagreina, hefði h-stuðul upp á 35 og væri með meistaragráðu í tölfræði frá Harvard. Strákur væri hins vegar bara sérnámslæknir sem hefði verið meðhöfundur á einni vísindagrein og ætti því einfaldlega að hneigja sig og þegja.

Sem sagt Jóni Ívari þóttu röksemdir sínar meiri og merkilegri vegna stöðu sinnar og fyrri afreka. Þegar ég sá þetta fyrst reyndi ég að horfa fram hjá því vegna þess að jafnvel prúðustu menn hafa tilhneigingu til þess að sleppa fram af sér beislinu á samfélagsmiðlum. Síðan frétti ég að hann hefði skrifað skilaboð til prófessors við læknadeild Háskóla Íslands þar sem hann sagði að ef unglæknir í stöðu Jóns Magnúsar hefði andmælt merkum manni eins og honum í Boston hefði hann örugglega verið rekinn úr starfi og því væri mikilvægt að hann lærði sína lexíu áður en hann héldi út í heim í sérnám. Hér var verið að hvetja til þess að Jóni Magnúsi yrði refsað fyrir að tjá skoðun andstæða hans. Síðan klikkti Jón Ívar út með því að kæra strák til siðanefndar Læknafélags Íslands fyrir að sýna sér ekki nægilega mikla virðingu.

Það var við þessum samskiptum Jóns Ívars, við hinn unga Jón Magnús, sem sem ég brást við í svari mínu við seinni grein Jóns Ívars sem eins og fyrri greinin var hófstillt og prúðmannleg. Hrokinn sem endurspeglaðist í samskiptum prófessorsins við unglækninn minnti mig um margt á sjálfsupphafningu sem mér þótti einkenna læknaskóla Harvard og virðist breiðast út þar eins og veirupest.

Hvergi virðist hún illskeyttari en þegar hún á rætur sínar hjá þeim sem eru ekki alveg vissir um að þeir eigi heima í svona fínum skóla. Og svo segir Jón Ívar í seinni greininni að hann hafi engra sérhagsmuna að gæta þegar kemur að sóttvörnum á landamærum.

Hann kemur að vísu til Íslands í hverjum mánuði og eyðir einni viku með börnum sínum sem hann á hér. Hann á því svolítilla hagsmuna að gæta í því að þurfa ekki að eyða meiri hluta þessarar viku í sóttkví. Þetta eru sérhagsmunir af fallegustu gerð en sérhagsmunir samt. Og svo það sé alveg á hreinu held ég að Jón Ívar sé góður drengur og mjög duglegur en hann var slíkur klaufi í því hvernig hann umgekkst Jón Magnús að hann leit út fyrir að vera fantur sem ég held að hann sé alls ekki.

Þú segir réttilega að ég sé starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar sem er í eigu Amgen en þú ert kominn út í mýri þegar þú segir að íslenskir fjölmiðlar „persónugeri áherslur Íslenskrar erfðagreiningar í sóttvarnarmálum við mig“.

Íslensk erfðagreining hefur engar áherslur í sóttvarnarmálum, alls engar. Íslensk erfðagreining hefur engra sérhagsmuna að gæta í sóttvörnum og hefur því engar áherslur í þeim. Ég hef heldur engar persónulegar áherslur í sóttvörnum af því ég er ekkert í sóttvörnum utan mínum eigin. Síðan segir þú að Amgen hljóti að telja sig hafa einhverja hagsmuni af því hvernig íslensk stjórnvöld haga sínum sóttvarnaraðgerðum og það verði að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir fjalli um málefni Íslenskrar erfðagreiningar í því ljósi. Þetta er þvæla, Amgen telur sig ekki hafa hagsmuni í því hvernig íslensk stjórnvöld haga sínum sóttvarnaraðgerðum.

Amgen telur sig hins vegar hafa hagsmuni í því að dótturfyrirtæki þess, Íslensk erfðagreining hjálpi stjórnvöldum við að afla gagna til þess að auka skilning á faraldrinum á Íslandi sem stjórnvöld geti nýtt sér til þess að draga ályktanir og taka ákvarðanir og síðan heimurinn allur.

Amgen hefur hvatt Íslenska erfðgreiningu til þess að birta, eins hratt og mögulegt er, allar niðurstöður rannsókna á faraldrinum svo þær nýtist sem fyrst og víðast. Til þess að hlúa að þessum hagsmunum hefur Amgen lagt að mörkum töluvert fé og starfskrafta þess fólks á Íslandi sem er best til þess fallið að varpa ljósi á faraldurinn. Þeir hagsmunir sem Amgen sér í þessu er að heimurinn viti að þegar gefur á bátinn sé það reiðbúið til þess að ausa. Það þykir flott.

Höfundur er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.