Markaðsstarf er umsvifamikið . Ímyndin, auglýsingaefnið, útstillingar í verslunum, vefverslun, vefurinn, samfélagsmiðlar ... og á svo líka að passa upp á að það sé gaman hjá öllum?

Án þess að ætla inn í enn eina „fordæmalausir tímar" umræðuna þá hafa síðustu mánuðir að minnsta kosti kennt okkur að vá hvað það er gaman að hafa gaman, og þá sérstaklega saman!

Undirstaða innri markaðsmála er menningin eða kúltúrinn í hverju fyrirtæki. Getur menning, og þar af leiðandi starfsánægja, verið forsenda árangurs og skapað raunverulegt samkeppnisforskot?

Mitt heimili er stærsti skemmtistaður í heimi, ég vona að við höfum staðið okkur það vel í markaðsmálum að slagorðið kveiki á perunni. Það kemur oft upp þegar talað er um menningu - já en þið eruð skemmtistaður, það er svo auðvelt að hafa gaman hjá ykkur. Menning er ekki eitthvað sem gerist óvart eða þú ert svo heppin að slagorð fyrirtækisins felur í sér skemmtun. Menning, þar sem allir dansa í takt, er mikilvæg vinna og ég segi alltaf að stærsti skemmtistaður í heimi byrji innan frá.

En hvernig sköpum við menningu sem getur skilað okkur raunverulegum árangri?

Hver ertu?

Til að byrja með þarftu að vita hver þú ert, hvað þú stendur fyrir, bæði fyrir starfsmennina þína og viðskiptavini. Ánægðir starfsmenn skila þér ánægðum viðskiptavinum og þessi hringrás byrjar innandyra en ekki öfugt. Forsenda ánægju er að vita til hvers er af fólki ætlast og til þess þarf skýr markmið sem allir skilja og tengja við.

Tökum sem dæmi að ég segi þér að pakka fyrir ferðalag og ég bið þig að segja mér hverju þú myndir pakka - hvað kemur fyrst í hugann?

En ef ég segi þér svo að þú sért að fara í mánuð á Norðurpólinn, breytist listinn við það?

Til þess að vita hverju við eigum að pakka verðum við að vita hvert ferðalaginu er heitið, hvert við stefnum og hvert mitt hlutverk á því ferðalagi er.

Ætlum við að veita framúrskarandi þjónustu? Ætlum við að hafa gaman? Ætlum við að vera framúrstefnuleg og fagleg? Um leið og markmiðið er skýrt, ég veit til hvers er ætlast þá hegða ég mér öðruvísi í aðstæðum á hverjum einasta degi. Það hvernig ég hegða mér hefur svo áhrif á menningu fyrirtækisins, það er nefnilega þannig að það er engin ein markaðsdeild, forstjóri eða mannauðsdeild sem skapar menningu fyrirtækisins, það er hver einasti starfsmaður á hverjum einasta degi.

Hver kemst í byrjunarliðið?

Allir þurfa að spyrja sig, hvernig liðsmenn þarf ég til að uppfylla þessi markmið sem við vinnum eftir? Er ég með rétta liðið í dag? Það þarf kjark til að taka af skarið þegar þú sérð að þú ert ekki með rétta liðið, það þarf kjark til að þora að vera öðruvísi og til að þora að viðurkenna „við erum ekki fyrir alla" . Í mínu umhverfi ölum við á keppnisskapi - árangursmenning með gleðina að leiðarljósi og það er ekki fyrir alla að þrífast í hröðu og árangursdrifnu umhverfi. En fyrir þá réttu er þetta umhverfi sem hjálpar þér að skína, þróast, efla þig og síðast en ekki síst hafa gaman á meðan.

Þjálfun og aukaæfingar

Þegar það er skýrt hver þú ert og byrjunarliðið er klárt þá þarf að þjálfa. Þjálfun eða fræðsla er eitthvað sem á að eiga sinn stað í öllum markaðsplönum. Til að vera trúr því sem þú stendur fyrir og því sem þú býður upp á skiptir öllu að liðsmennirnir hafi þekkingu, spili í takt og hafi trú á því sem fyrirtækið gerir.

Hér væri hægt að segja að þjálfun og fræðsla sé erfið í ljósi fjarvinnufjörsins en þarna skiptir hugarfarið máli, þetta eru ekki vandamál sem erfitt er að leysa heldur tækifæri á silfurfati til að hugsa: Hvernig get ég komið á óvart, hugsað út fyrir kassann og skapað ánægju?

En hvernig tryggi ég að allir séu með?

Að hlúa að menningu kostar vinnu, tíma og skipulag. Þetta kallar á að bregðast við breyttum aðstæðum, hugsa út fyrir kassann og fá  alla með. Í rauninni er þetta nákvæmlega það sem markaðsmál snúast um. Við búum til  herferðarplan svo rétt skilaboð komist til rétta hópsins. Hér má ekki gleyma einum veigamesta þætti herferðarinnar en það eru innanhúsmálin. Hvernig kynnum við, hvetjum, fræðum og þjálfum við okkar eigið fólk? Hvernig tryggjum við að allir dansi í takt og séu raunverulegir talsmenn aðgerðanna okkar.

Í ljósi hinnar margumrómuðu kórónu hefur sjaldan verið mikilvægara að vera með allt sitt á hreinu, á tímum þar sem liðsfélagar hittast ekki eins mikið og fjarvinna hefur áhrif á okkar daglega líf.

Þú þarft ekki að stefna á að búa til skemmtistað, þú þarft bara að vita hver þú ert og vinna að því að standa við það á hverjum degi. Fyrir viðskiptavininn og fyrir liðið þitt.

Að lokum spyr ég - hvernig fyrirtæki vilt þú vinna hjá? Hvað leggur þú að mörkum á hverjum einasta degi til að skapa þinn draumavinnustað?

Höfundur er markaðsstjóri Nova.