Sú hugsun hefur leitað á mig undanfarið að margt sé líkt með stöðunni í ferðaþjónustunni nú um mundir og var í sjávarútvegi áður en kvótakerfið var tekið upp. Þegar ég byrjaði 14 ára að vinna í frystihúsi þá voru litlar ef nokkrar takmarkanir á veiðum og þannig var það til ársins 1984. Ég man eftir miklum uppgripum og mikilli vinnu við að bjarga verðmætum. Fiski var mokað úr sjó og svo unnum við í landi myrkranna á milli (yfir sumarið) við að bjarga verðmætum.

Úr fjarska lítur það svo út núna að þjónusta við ferðamenn snúist á sama hátt töluvert um að bjarga verðmætum og anna þessari miklu eftirspurn sem er eftir gistingu, mat, norðurljósum og annarri náttúru.

Velgengni atvinnugreinanna er líka svipuð, gjaldeyrir streymir inn í landið og setur þrýsting á krónuna til hækkunar. Þetta er eins og var með sjávarútveginn áður en kvótakerfið var sett á ásamt auðlindagjaldinu til að koma jafnvægi á þessa hluti. Mig grunar að þjóðhagsleg úrlausnarefni sem tilkomin eru vegna ferðmannastraums til landsins kalli á lausnir af svipuðum toga og kvótakerfið.

Það gengur samt augljóslega ekki að setja kvóta á fjölda ferðamanna til landsins og afhenda núverandi rekstraraðilum eða selja hann á markaði, það þarf að finna aðrar leiðir að sama markmiði. Markmiðið á að vera, eins og í sjávarútvegi, að hámarka afkomu í greininni svo hún borgi sem hæst laun og skapi sem mest verðmæti fyrir þjóðarbúið.

Enginn mælir fyrir því í dag að ríkið taki yfir rekstur sjávarútvegs. Á sama hátt efast ég um að það sé gott að ríkið eigi allar náttúruperlur landsins með þeirri vanrækslu á innviðum sem leiðir af óheftum gjaldfrjálsum aðgangi. Ef við finnum góða lausn á þessu getur ferðaþjónusta orðið okkur jafn öflug atvinnugrein og sjávarútvegur, það er til mikils að vinna.