Rökrétt er að aflandskrónueigandi taki þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans. Nema fyrirhuguð styrking krónunnar verði svo mikil að lögbundið viðmiðunargengi teljist vart réttlætanlegt. Auk þess sem afgangur aflandskróna í hlutfalli við gjaldeyrisforða verði lítill.

Erlendir aðilar áttu um 46 milljarða króna í ríkisskuldabréfaflokknum RIKB 19 0226 (RIKB19) í lok mars 2015 þegar reglum Seðlabankans var breytt og tekið var fyrir að aflandskrónueigendur gætu fjárfest í öðrum gerningum en ríkisvíxlum. Þar áður höfðu erlendir eigendur aukið stöðu sína í flokknum að miðgildi um 1 ma.kr. á mánuði frá mars 2012. Í kjölfar gjalddaga RIKB 13 0517 (RIKB13) í maí árið 2013 juku þeir stöðu sína í RIKB19 um 9 ma.kr. á einum mánuði samkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins.

Að meðtöldum vaxtagreiðslum er uppsöfnuð heildarávöxtun til dagsins í dag í evrum 113% af stöðu í RIKB13 frá ársbyrjun 2009 og í framhaldinu RIKB19 frá miðjum maí 2013. Skuldabréfavísitala Barclays bankans sýnir að á sama tímabili hefði ávöxtun af evrópskum ríkisskuldabréfum verið 48%.

Aflandskrónueigandi RIKB19 mun þurfa að gera upp hug sinn varðandi þátttöku í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í dag, 16. júní. Myndin sýnir sögulega ávöxtun af fyrrgreindri stöðu ásamt mögulegri niðurstöðu útboðs. Ef hann tekur þátt í útboðinu, selur Seðlabankanum á uppsettri kröfu (6,29%) og samráð er með­ al aflandskrónueigenda um 175 ma.kr. þátttöku má gera ráð fyrir útboðsverði 190 evrur fyrir krónu. Fyrir vikið lækkar uppsöfnuð heildarávöxtun úr 113% í 56%. Í versta tilfellinu verður útboðsverðið 210 sem þýðir 41% ávöxtun.

Ef tilboð eigandans endar undir útboðsverði verður ekkert af sölu hans á RIKB19 né krónum fyrir evrur. Í kjölfarið hefur hann heimild til 1. nóvember til að selja krónur fyrir evrur á genginu 220 sem þýðir að ávöxtunin fer niður í 37% gefið að krafa RIKB19 haldist óbreytt í 6,26%. Til þess að ávöxtunin á genginu 220 verði að minnsta kosti jafn góð og besta niðurstaða útboðs (190) þyrfti krafa flokksins að lækka um 600 punkta fram í nóvember. Lesandi þekkir að líklegra er að það gerist ekki.

Ef eigandinn heldur stöðunni fram yfir nóvember verður að koma í ljós hversu langan tíma hann verð­ ur læstur inni. Hafa þarf í huga hversu stór afgangur verður af 320 ma.kr. aflandskrónustokknum eftir útboð. Verður afgangurinn nægilega stórt hlutfall af gjaldeyrisforða Seðlabankans til að réttlæta neyðarreglur? Varðandi tímalengd læsingar? Til að neyða aflandskrónueigendur að selja á viðmiðunargengi 220 (sbr. 9. gr. l. nr. 37/2016) ef opinbert gengi verður mun lægra?