*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Huginn og muninn
8. desember 2019 08:02

„Þau fengu önd í matinn“

Grunnskólabörn borga 500 kall fyrir máltíðina en borgarfulltrúar borga ekki krónu.

Endur og gæsir við ráðhús Reykjavíkur.
Haraldur Guðjónsson

Uppþot vikunnar var sannarlega fréttaflutningur í vikunni af óhóflegum kostnaði við borgarstjórnarfundi. Kostnaðurinn við hvern fundi nemur 850 þúsund krónum.

Í fyrstu frétt af málinu kom fram að um 360 þúsund af upphæðinni væri vegna matar og drykkjar, sem þýðir að kostnaðurinn er 15 þúsund á hvern borgarfulltrúa. Seinna um daginn kom leiðrétting þess efnis að fleiri en borgarfulltrúar væru í mat og því væri kostnaðurinn 9 þúsund á hvern starfsmann. Síðan kom þriðja leiðréttingin rétt fyrir kvöldmat og var hún þess efnis að kostnaðurinn væri í raun 3.900 krónur á mann. Enn fremur sagði að þetta væri bara ósköp venjulegur mötuneytismatur. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 eða einum og hálfum tíma eftir síðustu leiðréttinguna, var fjallað um málið. Erla Björg Gunnarsdóttir fréttamaður ræddi við Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar, í beinni útsendingu. Eftir viðtalið þakkaði Erla Björg Þórdísi Lóu fyrir og sagði: „Þau eru nýbúin borða enda búin að funda lengi og þau fengu önd í matinn.“ Priceless.  Væntanlega hefur heyrst eitthvað kvak í nágrönnunum á Tjörninni þegar þeir heyrðu þetta.

Hrafnarnir eru eitt stórt spurningarmerki eftir vendingar þriðjudagsins. Matarkostnaðurinn lækkaði á nokkrum klukkutímum úr 15 þúsund á mann í 3.900 krónur. Í viðskiptum er það þekkt taktík að nefna fyrst háa tölu, svo háa að mönnum fallast hreinlega hendur. Þegar hún er síðan lækkuð þá lítur allt miklu betur út. Það verður reyndar að segjast að 3.900 krónur fyrir önd er bara ágætlega sloppið að mati hrafnanna.

Auðvitað eiga borgarfulltrúar að borga sjálfir fyrir matinn, hvort sem það er önd eða ýsa. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er með 2,2 milljónir á mánuði í laun, forseti borgarstjórnar 1,8 og borgarfulltrúar eitthvað í kringum milljón. Ef grunnskólabörn í Reykjavík borga um 500 kall fyrir máltíðina þá hljóta borgarfulltrúar að sjá sóma sinn í því að borga eitthvað.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.