*

föstudagur, 29. maí 2020
Óðinn
12. júní 2018 13:29

Þegar fátækt er sögð vera kostur

Grátlegt er að sjálfskipaðir varðmenn hinna lægst launuðu skuli vilja taka upp skatta sem bitna mest á einmitt þeim.

epa

Óðinn fjallaði á dögunum um syndaskatta eins og svokallaðan sykurskatt og einkum það hversu lítil áhrif skattar af þessu tagi hafa á hegðun fólks. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur stigið fram með leiðbeiningar til ríkja um að leggja sérstaka skatta á „óheilbrigðar“ neysluvörur og er því mikilvægt að halda ákveðnum staðreyndum til haga. Ekki síst þegar haft er í huga að í ráðherraliði ríkisstjórnarinnar eru einstaklingar sem hafa lýst yfir áhuga á að endurvekja sykurskattinn.

                                                                ***

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði til að mynda í desember í fyrra að hún væri opin fyrir því að taka slíkan skatt upp á ný og flokkssystir hennar, forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir, hefur einnig lagt fram slíkar tillögur.

                                                                ***

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur til að 20% skattur verði lagður á sykraða drykki, með þeim rökum að þar með muni neysla þeirra dragast saman um 20%. Þá vill WHO að áfengisgjöld verði hækkuð og að sérstakur skattur verði lagður á mat sem er ríkur af sykri, salti og fitu.

                                                                ***

Þegar haft er í huga að nú þegar er lagður virðisaukaskattur á þessar vörur hér á landi.

                                                                ***

Virka skattarnir?

En eins og Óðinn nefndi á dögunum þá þarf fyrst að svara þeirri spurningu hvort skattar sem þessir hafi yfirhöfuð þau áhrif sem til er ætlast – þ.e. að leiða til betra heilsufars almennings.

                                                                ***

Fjöldi rannsókna hefur verið gerður á áhrifamátt sykurskatta, en tölfræðileg tengsl á milli sykurskatta annars vegar og sykurneyslu og ofþyngdar hins vegar eru hins vegar veik. Óðinn vísaði í fyrri greininni til skýrslu sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneyti Nýja-Sjálands og birt var síðastliðið haust. Skýrsluhöfundar tóku saman niðurstöður úr 47 ritrýndum fræðigreinum og opinberum skýrslum um áhrif sykurskatta, með áherslu á skattlagningu sykraðra drykkja.

                                                                ***

Skýrsluhöfundar taka málefnið fyrir á mjög skýran hátt. Byrja þeir á að benda á keðju orsaka og afleiðinga sem verður að vera til staðar til að hægt sé að segja að sykurskattar virki.

  • Skattar verða að skila sér í hærra vöruverði.
  • Hærra vöruverð verður að skila sér í minni neyslu sykraðra drykkja. 
  • Minni neysla sykraðra drykkja verður að skila sér í minni neyslu hitaeininga. 
  • Minni neysla hitaeininga verður að skila sér í minni áhrifum áhættuþátta á heilsufar. 
  • Að lokum verður þetta að hafa áhrif til fækkunar dauðsfalla og veikinda.

                                                                ***

Allir hlekkir þessarar keðju verða að virka svo sykurskattarnir virki sem skyldi, en niðurstaða skýrslunnar er sú að mjög fátt bendi til þess að svo sé í raun og veru.

                                                                ***

Fyrst ber að viðurkenna að almennt virðast sykurskattar skila sér út í verðlag. Verð á sykruðum drykkjum hækkar eftir álagningu skattsins. Með því er hins vegar alls ekki sagt að orrustan sé unnin, því bæði er ástæða til að efast um að hærra verð leiði til umtalsverðs samdráttar í neyslu sykraðra drykkja annars vegar eða á hitaeiningaríkum matvælum almennt.

                                                                ***

Verðteygnin

Lögmál hagfræðinnar í sinni einföldustu mynd segja okkur að hærra verð eigi að draga úr eftirspurn eftir viðkomandi vöru. Ef við hækkum verð á sykruðum drykkjum ætti eftirspurn eftir drykkjunum að minnka. Raunveruleikinn er hins vegar flóknari og það fer eftir eðli vörunnar, samhengi við aðrar svipaðar vörur og löngun neytenda í vöruna hversu mikil áhrif verðbreytingar hafa á neyslu.

                                                                ***

Vörur eru misverðteygnar – þ.e. áhrif breytinga á verði vöru á eftirspurn eftir henni eru mismikil. Vörur sem ekki eru verðteygnar eru nauðsynjavörur eins og einfaldar matvörur, vörur sem ekki er auðvelt að skipta út fyrir aðrar og vörur sem eru ávanabindandi.

                                                                ***

Þá verður að hafa í huga að öll erum við misjöfn og höfum mismunandi langanir og þarfir. Einstaklingar eru misnæmir fyrir verðbreytingum á ákveðnum vörum og rannsóknir sem skoða bara breytingu á heildareftirspurn eftir sykruðum drykkjum missa af þessari staðreynd.

                                                                ***

Þótt heildareftirspurn eftir sykruðum drykkjum minnki eftir álagningu skatts þýðir það ekki að allir hafi dregið jafn mikið úr neyslu sinni. Langlíklegast er að þeir sem minnsta löngun hafi í slíka drykki hafi dregið meira úr neyslunni en þeir sem sólgnari eru í drykkina. Með öðrum orðum er ólíklegt að þeir sem ættu, heilsu sinnar vegna, að minnka neysluna hafi í raun og veru gert það. Þeir greiða einfaldlega bara hærra verð fyrir drykkinn.

                                                                ***

Málið er nefnilega að sykur er ávanabindandi. Reynslan sýnir að verðhækkanir á ávanabindandi vörum hafa takmörkuð áhrif, eða engin áhrif, á hluta neytenda.

                                                                ***

Niðurstöður höfunda nýsjálensku skýrslunnar eru þær að í þeim rannsóknum, þar sem aðferðafræði var ekki ábótavant, má merkja nokkurn, en ekki mikinn samdrátt í neyslu sykraðra drykkja eftir álagningu sykurskatts. Hins vegar er ekki að finna í fyrirliggjandi rannsóknum og ritgerðum gögn sem sýna það hvort, eða í hve miklu magni, neytendur skiptu sykruðum drykkjum út fyrir aðrar vörur sem innihalda sykur, eða fóru að drekka frekar drykki sem innihalda fitu í stað sykurs.

                                                                ***

Það sem mikilvægast er hins vegar er að engin rannsókn, byggð á raunverulegum dæmum, rennir stoðum undir þá kenningu að sykurskattar hafi áhrif á almennt heilbrigði.

                                                                ***

Ósanngjarnir skattar

Svo má ekki gleyma því heldur hversu harkalega ósanngjörn þessi skattlagning er. Skattar á vöruverð hafa mun meiri áhrif á tekjulægri einstaklinga en þá tekjuhærri. Í stuttri en mjög áhugaverðri grein frá Institute of Economic Affairs fer Christopher Snowdon yfir þessi atriði.

                                                                ***

Nefnir hann sem dæmi að í Bretlandi fara um 34% af ráðstöfunartekjum tekjulægstu 10% þjóðarinnar í óbeina neysluskatta, þar af um 2,9% í skatta á tóbak og 2,0% í áfengisskatta. Hjá tekjuhæstu 10% þjóðarinnar eru hlutföllin bara 14% – þar af 0,1% í tóbaksskatta og 0,9% í áfengisskatta.

                                                                ***

Verði tillögur WHO um 20% syndaskatta að veruleika myndi það hafa mun meiri og alvarlegri áhrif á þá tekjulægstu en þá tekjuhæstu. Michael Bloomberg, milljarðamæringur og fyrrverandi borgarstjóri New York, hefur látið skattheimtu sem þessa sig miklu varða og lítur hann á þessa skekkju í áhrifum skattlagningarinnar sem kost, en ekki galla.

                                                                ***

Fátæktin er kostur!

„Vandinn liggur í fólki sem á ekki mikinn pening, svo hærri skattar ættu að hafa meiri áhrif á hegðun þess og hvernig það tekst á við sjálft sig,“ sagði hann á fundi á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

                                                                ***

Erfitt er að ímynda sér skýrara dæmi um yfirþyrmandi sjálfumgleði og virðingarleysi fyrir venjulegu fólki. Að mati Bloombergs er efnalítið fólk ófært um að stýra sínu lífi sjálft og því ber ríkinu að taka ákvarðanir um matvælaneyslu fyrir það. Sú staðreynd að fólkið er efnalítið er mati Bloombergs kostur!

                                                                ***

Það er óumdeilt að Vesturlandabúar almennt og Íslendingar þar á meðal gætu vel tekið sig á í mataræði og almennu heilbrigði. En það breytir því ekki að samfélag getur ekki kallast frjálst ef fólk hefur ekki raunverulegt val um að drekka kók með hamborgaranum og fá sér svo franskar með kokteil.

                                                                ***

Það að sjálfskipaðir varðmenn hinna lægst launuðu og þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu skuli vilja taka upp skatta sem bitna mest á einmitt þessu fólki er grátlegt.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.