Ég er áhugamaður um íslensk orkufyrirtæki og hef skrifað mikið um þau. Sérstaklega HS Orku og mál henni tengd. Ég tel mig því nokkuð vel upplýstan um þá ótrúlegu rússíbanareið sem fyrirtækið hefur gengið í gegnum frá upphafi árs 2007. Þess vegna hafa fréttir undanfarinna daga um HS Orku, Magma og aðkomu stjórnmálamanna að framtíðarskipulagi fyrirtækisins komið mér á óvart. Ekki vegna þess að þær séu svo sláandi, heldur vegna þess að þær eru fjörgamlar.

Tvöfalt skúbb Morgunblaðsins

Í gær birtist frétt á forsíðu Morgunblaðsins með fyrirsögninni „Leynimakk með Magma Energy“. Þar er dreginn sú ályktun að fjármálaráðherra hafi beitt áhrifum sínum í ágúst 2009 til að tryggja að ekkert yrði af byggingu álvers í Helguvík. Hann hafi m.a.

Magma energy
Magma energy
© vb.is (vb.is)
samið um það við Ross Beaty, aðaleigandaeiganda og stjórnarformann Magma, að félagið gæti eignast helming í HS Orku og að það myndi leita leiða til þess að auka fjölbreytileika í viðskiptamannahópi sínum. Fín frétt, ef hún hefði ekki verið sögð tveimur árum áður, af sama fjölmiðli og var að „skúbba“ henni núna.

Greint var frá fundi Ross Beaty með forsvarsmönnum ríkisins á mbl.is þann 25. ágúst 2009. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/08/25/upplysandi_fundur_med_magma/

Síðan var sagt frá því á forsíðu sama fjölmiðils þann 31. ágúst 2009 að í kjölfar þeirra viðræðna væri vilji til að hið opinbera myndi eiga meirihluta í HS Orku á móti Magma. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/08/31/eignast_meirihluta_i_hs_orku/

Gömul afstaða

Vilji Magma, sem heitir reyndar í dag Alterra Power, til að auka fjölbreytni orkukaupenda HS Orku er heldur ekki nýr af nálinni. Greint var frá því í Viðskiptablaðinu 11. febrúar 2010. Þar er haft eftir Ross Beaty að „Við stefnum ekki einungis að því að byggja upp framleiðslugetu HS Orku til að sjá álveri í Helguvík fyrir orku. Við teljum að nýtingarmöguleikar á Reykjanesskaganum séu meiri en þegar hefur verið reiknað með. Við höfum áhuga á að byggja upp iðnað og fjárhag á íslandi með þeirri auknu orku. Með henni munum við reyna að auka fjölbreytni meðal stórnotenda sem við seljum orku og horfa víðar en eingöngu á áliðnaðinn“. Sú afstaða var endurtekin 26. ágúst 2010. Sjá: http://www.vb.is/frett/152/?q=ross%20beaty

Alþingi logar

Í kjölfar fréttaflutnings Morgunblaðsins voru þessar gömlu fréttir ræddar ítarlega á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnartíma í gærmorgun. Fyrst spurði formaður Sjálfstæðisflokksins umhverfisráðherra út í það og lagði út frá frétt Morgunblaðsins.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins  í Suðurkjördæmi lagði svo fyrirspurn fyrir Iðnaðarráðherra um málið.

Þrír Alþingismenn, tveir úr Sjálfstæðisflokki og einn úr Framsóknarflokki, lögðu síðan fram beiðni um fund í iðnaðarnefnd vegna málsins skömmu eftir hádegi í gær. Beiðnin var send á alla fjölmiðla. Í henni segir að „Í tilefni af frétt í Morgunblaðinu í morgun um að hæstvirtur fjármálaráðherra hafi ástundað einhverskonar baktjaldamakk í tengslum við Magma-málið svokallaða óskum við undirritaðir eftir fundi í hæstvirtri iðnaðarnefnd þar sem fjármálaráðherra útskýrir mál sitt. Jafnframt óskum við eftir að fá aðgang að þeim gögnum sem rætt er um í fréttinni“.

Troðið marvaðann

Fyrirsögnin á forsíðu Morgunblaðsins í dag er „Áhersla á styttingu leigutíma“. Þar er sagt frá, líkt og um ný tíðindi sé að ræða, að í drögum að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sveitarstjórna á Suðurnesjum og HS Orku frá því í apríl síðastliðnum hafi ofangreint komið fram.

Frá því var greint í nánast öllum fjölmiðlum landsins í lok janúar síðastliðins að viðræður hefðu hafist milli ríkis, Magma og

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Reykjanesbæjar um styttingu á leigutíma auðlinda HS Orku og kaupa á landssvæðum sem auðlindirnar eru á. Sjá: http://www.visir.is/vidraedur-rikisstjornar-og-eigendur-hs-orku-hefjast-i-dag/article/2011648561425

Viðræðurnar, og um hvað þær snérust, voru reyndar það lítið leyndarmál að iðnaðarráðuneytið gaf út fréttatilkynningu um þær þann 25. janúar 2011. Fyrirsögn tilkynningarinnar er „gengið til samninga um styttri nýtingarrétt orkuauðlinda“. Sjá: http://www.idnadarraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3038

Hinn punkturinn í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag er að forsvarsmenn Norðuráls telji að styttri leigutími orkuauðlinda feli í sér lakari arðsemi fyrir álver í Helguvík. Um þetta hefur að sjálfsögðu verið fjallað í Viðskiptablaðinu. Sjá: http://www.vb.is/frett/62882/

Staksteinar Morgunblaðsins í dag eru síðan undirlagðir undir þau orðaskipti sem áttu sér stað á Alþingi vegna fréttaflutnings Morgunblaðsins um málefni HS Orku.

Í blaðinu er líka eftirfylgnifrétt vegna forsíðunnar deginum áður, sem fjallaði um fund í fjármálaráðuneytinu í ágúst 2009 með forsvarsmönnum Magma. Þar er líka rætt við formann Sjálfstæðisflokksins og þingmann hans í Suðurkjördæmi. Þau eru myrk í máli um það viljaleysi í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum sem fréttirnar sýna fram á.

Þar er svo skrifaður leiðari undir fyrirsögninni „Með ólíkindum“. Leiðarinn leggur út frá fréttaskýringu Morgunblaðsins um málefni HS Orku í gær, fimmtudag. Þar er hjólað af fullum krafti í þrjá ráðherra sitjandi ríkisstjórnar og sagt að fréttaskýringin sýni hreint ótrúlega framgöngu ráðherranna í þessum málum. Ég ætla ekki að taka afstöðu til framgöngu ráðherranna. Hún er hins vegar ekki ný frétt. Frá aðkomu þeirra allra að málinu hefur oft og ítrekað verið greint áður.

Fréttablaðið bættist síðan, nokkuð óvænt, í partíið í morgun þegar blaðið sagði frá því að Norðurál hefði boðið í hlut Geysis Green Energy í HS Orku árið 2009. Sú frétt tengist því sem var birt í Morgunblaðinu þó ekki að öðru leyti en að hún fjallaði um HS Orku og hafði verið sögð áður í Viðskiptablaðinu 25. maí 2010. Sjá: http://www.vb.is/frett/1196/

Óskiljanleg atburðarrás

Ég verð að viðurkenna að ég næ ekki tilgangi þess að fjölmiðill skúbbi aftur nokkurra ára gömlu skúbbi sem hann átti sjálfur. Sérstaklega þegar um er að ræða röð frétta. En það er kannski ekki mitt að skilja.

Fyrir þá sem vilja kynna sér átakasögu HS Orku á undanförnum árum í mjög stuttu máli er vert að benda á neðangreindan tengil. Hann sýnir tímalínu atburða hjá fyrirtækinu frá 1. janúar 2007 og til janúarloka 2011.

Sjá: http://www.vb.is/frett/61088/?q=hs%20orka