*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Snædís Ögn Flosadóttir
9. janúar 2022 13:32

Þegar hagsmunir fara saman

Lífeyrissjóðirnir eru líkt og ríkið sameign allra landsmanna. Ræða þarf aðkomu þeirra að fjármögnun fyrirhugaðri innviðauppbyggingu hér á landi.

Aðsend mynd

Hér á landi, rétt eins og sjá má af þróun landa í kringum okkur, er fyrirséð að fara þurfi í mikla innviðauppbyggingu. Orkuskipti og önnur þróun í átt að sjálfbærni, uppbygging félagslegra innviða og umbreyting samhliða öldrun þjóða er óhjákvæmileg. Þá er ekki meðtalin sú viðhaldsþörf sem að auki liggur fyrir í þeim innviðum sem þegar eru til staðar. Á sama tíma er væntanlegur vöxtur íslenskra lífeyrissjóðakerfisins umtalsverður, umsvif kerfisins að sama skapi að aukast og því mikilvægt að fjárfestingarkostir sem í boði eru séu fjölbreyttir. Það er því ánægjulegt að lesa í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að ætlunin sé að stuðla að einmitt þessu tvennu.

Eðlilega koma upp vangaveltur um það hvort aðrir en íslenska ríkið skuli fjárfesta í innviðum hér á landi og er það skiljanlegt. Gott er þó að hafa hugfast að rétt eins og íslenska ríkið er sameign okkar allra eru lífeyrissjóðir landsins einnig eign landsmanna. Í gegnum lífeyrissjóðina eru allir þeir sem stundað hafa launaða vinnu fjármagnseigendur og styðja þannig með sínum fjárfestingum í lífeyrissparnaði við atvinnulíf, nýsköpun og innviðauppbyggingu á sama tíma og safnað er til efri áranna.

Innviðir, atvinnulíf og lífeyrissjóðir

Hugtakið innviðir er fólki þjált í daglegu tali en skilgreining á innviðafjárfestingu oft óljós. Innviði má þó í grunninn flokka í hagræna innviði og félagslega innviði og almennt hefur túlkun hugtaksins verið hallari undir hið fyrra. Má þar til dæmis nefna orkuframleiðslu, vegi og brýr, flugvelli og fjarskipti. Félagslegir innviðir, sem ívið minna hafa verið í umræðunni sem fjárfestingakostir en falla vissulega þar undir geta verið hjúkrunarheimili, heilsugæsla, skólar, söfn og önnur menningarhús. Þá geta fjárfestingar í innviðum jafnframt verið á ólíku formi, efni og áhættu. Þannig er, svo dæmi sé tekið, eignarhlutur lífeyrissjóðs í gagnaveri og kaup á skuldabréfi til fjármögnunar og byggingar dvalarheimilis hvoru tveggja fjárfesting í innviðum þó afar ólík sé að formi, efni og áhættu.

Innviðir, bæði hagrænir og félagslegir eru þættir í grundvelli hagvaxtar, atvinnulífið treystir á að þeir séu til staðar og sé vel við haldið. Augljóst dæmi er að nefna samgöngur, bæði á landi, lofti og láði sem farveg ferðamannaiðnaðarins, að ónefndu mikilvægi félagslegra innviða svo sem safna og menningarhúsa fyrir þann sama iðnað.

Af þessari upptalningu má vera ljóst að fjárfesting og uppbygging innviða gengur þvert á hin ýmsu stjórnsýslustig. Með aðkomu fjárfesta, annarra en hins opinbera, er nauðsynlegt að tryggja að stjórnsýslan í kring um slík verkefni sé skilvirk og regluverkið skýrt.

Fjárfestingar í innviðum hafa margar hverjar eiginleika sem geta hentað lífeyrissjóðum sem langtímafjárfestum einkar vel. Innviðafjárfestingar eru oft á tíðum fjárfestingar með fremur stöðugt tekjustreymi til lengri tíma sem geta jafnframt falið í sér óbeina verðtryggingu að hluta og falla því vel að markmiðum lífeyrissjóða um fjármögnun langra verðtryggðra skuldbindinga. Þá liggur fyrir fjárfestingarþörf í innviðum sem munu styðja við sjálfbærniþróun og orkuskipti sem ætti því að falla vel að stefnum lífeyrissjóða um ábyrgar fjárfestingar. Ekki má svo gleyma því að lífeyrissjóðir hafa jafnframt hag af því að fjárfesta í innviðum þess samfélags sem þeir tilheyra og stuðla þannig að vexti og velmegun samfélags og atvinnulífs, sjóðunum og sjóðfélögum til hagsbóta.

Innviðafjárfestingar og heildarábati

Innviðafjárfestingar á einhverju formi eru ekki nýjar af nálinni í eignasöfnum lífeyrissjóða. Hvort og með hvaða hætti lífeyrissjóðir eiga að koma að innviðafjárfestingum framtíðar er áhugaverð umræða sem væntanlega verður tekin fastari tökum á næstu misserum. Rökin um dreift eignasafn, áhættuvilja og eðli langtímafjárfesta eiga þar alltaf vel við en á sama tíma mikilvægt að hafa í huga að lífeyrissjóðir landsins eru ólíkir að uppbyggingu. Það sama má segja um innviðafjárfestingar líkt og hér hefur verið rakið og það sem fellur vel að eignasafni eins sjóðs fellur ekki endilega að eignasafni þeirra allra. Aðkoma og þátttaka sjóða ræðst af eðli þeirra, stöðu og fjárfestingarstefnu og óskir um nálgun og form þátttöku geta einnig verið ólíkar.

Lífeyrissjóðir hafa á undanförnum árum aukið við sig í erlendum fjárfestingum þar með talið sérhæfðari fjárfestingum líkt og fjárfestingum í innviðum. Í lágvaxtaumhverfi síðustu ára hefur þessi breyting gefist vel. Frá sjónarhóli sjóðfélaga má svo velta fyrir sér hvort slíkar fjárfestingar falli ekki einmitt vel að eðli langtímasparnaðar og jákvætt sé að fjárfesting sem skilar sjóðfélögum ábata stuðli á sama tíma að uppbyggingu samfélagsins, styðji við sjálfbærni og myndi grunn að öflugu atvinnulífi.

Höfundur er framkvæmdastjóri EFÍA og LSBÍ.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.