*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Pétur Blöndal
27. febrúar 2020 13:33

Þegar Ísland tók fram úr Evrópu í lífsgæðum

Framkvæmdastjóri Samáls segir ekkert „óviðeigandi“ að vekja máls á stöðu Rio Tinto.

Haraldur Guðjónsson

Eftir margra ára taprekstur álversins í Straumsvík er komið að því að eigendur félagsins hyggist taka stefnumarkandi ákvörðun um framtíð álversins og skoða hvort forsendur séu til að halda starfseminni áfram eða hvort hún verði lögð niður. Ekki þarf að orðlengja, að það yrði mikið högg fyrir íslenskt efnahagslíf.

Vitaskuld er ekkert er „óviðeigandi“ við það að vekja máls á stöðu fyrirtækisins og mikilvægi þess að það búi við samkeppnishæf rekstrarskilyrði. Skárra væri það nú.

Hvað kostar álver?

Ekki er langt síðan hætt var við kaup Norsk Hydro á álverinu í Straumsvík eftir að dregist hafði hjá evrópskum samkeppnisyfirvöldum að gefa samþykki sitt. Það segir sína sögu um stöðu álversins að kaupverðið var einungis 35 milljarðar. Til að setja það í samhengi má nefna að Rio Tinto hafði nýlokið 60 milljarða fjárfestingarverkefni í Straumsvík, því stærsta á Íslandi frá hruni. Sú fjárfesting skilaði 15 þúsund tonna framleiðsluaukningu og að allar afurðir fyrirtækisins eru nú virðisaukandi, stangir með sérhæfðum málmblöndum fyrir hátt í 200 viðskiptavini.

Ekki nóg með að þetta fullkomna álver, sem hefur ráðist í miklar hagræðingaraðgerðir á síðustu árum, kostaði einungis tæpa 35 milljarða, heldur fylgdi með í kaupunum helmingshlutur í skautsmiðjunni Aluchemi sem Rio Tinto á með Norsk Hydro og hlutur Rio Tinto í sænska fyrirtækinu Aluflour sem framleiðir álflúoríð. Eftir að kaupin duttu upp fyrir hafa ekki fundist aðrir kaupendur.

Sömu lögmál gilda í álverinu í Straumsvík og hjá öðrum fyrirtækjum. Til þess að fyrirtækið eigi sér framtíð hér á landi, þá þarf reksturinn að vera sjálfbær. Það eru engin geimvísindi.

Spennandi tímar framundan?

Framundan eru spennandi tímar í álframleiðslu en um leið krefjandi. Eigi framleiðslufyrirtæki að halda velli í þeirri öru framþróun sem felst í fjórðu iðnbyltingunni, þá krefst það mikilla fjárfestinga. Í þeim gróskumikla klasa sem myndast hefur í kringum íslensku álverin eru fyrirtæki sem eru vel í stakk búin að taka þátt í þeim verkefnum.

Á hverju ári kaupa íslensk álver vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja hér á landi og nam sá kostnaður 23 milljörðum árið 2018, er þá raforka undanskilin. Það er því rangt sem stundum er haldið fram að sala á orku til íslenskra álvera jafngildi útflutningi á orku – í raun er minnihluti þess 86 milljarða kostnaðar álvera sem til féll hér á landi árið 2018 kominn til vegna raforkukaupa.

Fyrirtæki með sterkar rætur á Íslandi

Stundum er því haldið á lofti að álverin séu alþjóðleg fyrirtæki. En þau eru þó hvert og eitt íslenskt, Isal, Fjarðaál og Norðurál. Isal er raunar með kennitölu frá 1966. Geri önnur íslensk fyrirtæki betur! Víst eru þau með erlenda eigendur en það sama má segja um ýmis önnur öflug íslensk fyrirtæki, svo sem Össur, Marel og HS Orku.

Stöðugleiki og sterkar rætur álvera hér á landi hafa skapað grundvöll fyrir verðmætasköpun og hagkvæma uppbyggingu raforkukerfisins í áratugi, sem færir Íslendingum samkeppnisforskot, býr til spennandi og vel launuð störf, og hefur frá upphafi skilað orkufyrirtækjum í eigu þjóðarinnar góðri arðsemi. Í Sögu Landsvirkjunar sem kom út árið 2005 skrifar Jón Þór Sturluson:

„Að teknu tilliti til tímasetningar eigendaframlaga, arðgreiðslna og metins virðis Landsvirkjunar má reikna út arðsemi þess fjár sem eigendur hafa bundið í fyrirtækinu á bilinu 5,1 til 7,4 prósent... Niðurstaðan er sú að ef Landsvirkjun væri rekin sem hvert annað einkafyrirtæki og verðlegði raforkuna í samræmi við hámörkun hagnaðar og samkeppni frá keppinautum, væri arðsemi af þeim fjármunum sem settir hafa verið í fyrirtækið væntanlega vel ásættanleg, á bilinu 5,1 til 7,4 prósent að raungildi.“

En besti vitnisburðurinn er að með tilkomu orkuiðnaðar á Íslandi, uppbyggingu álversins í Straumsvík og Búrfellsvirkjunar, hefur landsframleiðsla á mann, sem er mælikvarði á efnahagslega velmegun, farið úr því að vera til jafns við meðaltal Evrópu í að vera 50% meiri.  Stór hluti skýringarinnar á þessari miklu og jákvæðu breytingu í lífsgæðum er að á þessum tíma tóku landsmenn að nýta orkuauðlindir lands í meira mæli til gjaldeyris- og atvinnusköpunar. Allt fram á miðja tuttugustu öldina vorum við Íslendingar eftirbátar annarra þjóða í lífsgæðum. En nú er öldin önnur.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.