*

miðvikudagur, 20. október 2021
Kristrún Frostadóttir
25. desember 2020 08:05

Þegar markaðir bresta

Því er víða haldið fram þessa dagana að viðbrögð við COVID-faraldrinum veiti hraðspólaða innsýn inn í getu okkar til að takast á við loftslagsbreytingar.

epa

Því er víða haldið fram þessa dagana að viðbrögð við COVID-faraldrinum veiti hraðspólaða innsýn inn í getu okkar til að takast á við loftslagsbreytingar. Sú geta er fyrst og fremst fall af skilningi á undirliggjandi vanda – hvernig vandinn vex ef óafskiptur – og hvaða þættir samfélagsins hafa bolmagn til að skipta sér af.

Mörgum vestrænum löndum hefur gengið illa að halda aftur af vexti faraldursins. Þegar þetta er skrifað eru dauðsföll á hverja milljón íbúa í Bandaríkjunum 750, 780 í Bretlandi og 1.250 í Belgíu. Margar ástæður mætti telja þar til, m.a. áhersla á einstaklingsfrelsi. Í því samhengi hefur verið litið til Asíulanda; samsvarandi tölur í Japan og Kóreu eru sem dæmi 15 og 10. Hér á landi er talan 70. En viðmót almennings til aðgerða skiptir einnig máli. Snýr það að opinberum inngripum almennt sem og getu einstaklinga til að melta veldisvöxt.

Okkur er ekki eðlislægt að hugsa í veldisvexti. Gátan um fjölgun vatnalilja í tjörninni er frægt dæmi um slíkan vöxt. Hver lilja getur af sér eina lilju á hverjum degi. Á degi tvö eru því tvær liljur, á degi þrjú fjórar o.s.frv. Á degi 48 sést ekki í tjörnina fyrir liljum. Hvenær varð hálf tjörnin hulin? Á degi 47. Meirihlutann af tímanum tökum við varla eftir vatnaliljunum. Þar til þær hafa allt í einu yfirtekið tjörnina. Hollenski sálfræðingurinn William Wagenaar birti fræga rannsókn fyrir rúmlega 40 árum þar sem í ljós kom að mikill meirihluti fólks átti erfitt með að spá fyrir um gildi út frá veldisvexti þrátt fyrir að þeim hafi verið sagt frá aðferðafræðinni. Langflestir vanmátu vöxtinn, og því lokatöluna, um allt að 90%.

Bent hefur verið á vanmátt okkar til að hugsa í veldisvexti sem ástæðu fyrir því að COVID-farsóttin náði hæstu hæðum í mörgum nágrannalöndum okkar í haust, þó að hegðun veirunnar hefði átt að vera flestum ljós frá því í vor. Við sjáum bara 2, 4, 8 liljur og slökum á. Áður en við vitum af er tjörnin full og grípa þarf til mjög harðra aðgerða. Eins og ofangreindar tölur um dauðsföll benda til hafa íslensk sóttvarnayfirvöld fengið tiltölulega frjálsar hendur við að setja samfélaginu mörk í þessu ástandi. Þá benda kannanir innanlands til almennrar ánægju með flestar aðgerðir þó þær séu íþyngjandi. Þó að rökræða megi um hinar og þessar leiðir liggur fyrir að traust til sóttvarnayfirvalda, sem hafa mikinn skilning á veldisvexti, hefur skipt sköpum hér á landi.

Loftslagsvandinn

Mælingar á koltvísýringi í andrúmsloftinu undanfarna áratugi benda til þess að loftslagsvandinn aukist einnig með veldisvexti, þó yfir mun lengra tímabil en yfirstandandi faraldur. Töf á milli orsakar og afleiðingar gerir vandann mjög óáþreifanlegan. Liljurnar eru enn bara nokkrar í tjörninni. Ljóst er að vanmáttur stjórnvalda víða um heim við að eiga við COVID-farsóttina lofar ekki góðu varðandi viðbragðsgetu, hvað þá vilja, til að eiga við þá náttúruvá sem er yfirvofandi. Stóra spurningin hér á landi er hvort geta yfirvalda til að grípa til sóttvarnaaðgerða í vírusfaraldrinum þýði að við séum betur sett hér á landi gagnvart loftslagsvánni en annars staðar. Harðar aðgerðir og lokanir hérlendis hafa hins vegar gengið að vissu leyti vegna þess að við vitum að um tímabundið ástand er að ræða. Bóluefni eru nú komin fram sem munu leysa grunnvandann. Einföld lausn er aftur á móti ekki í augsýn í loftslagsmálum.

Það sem er frekar áhyggjuefni hér heima, og hefur sýnt sig á síðustu mánuðum, er takmarkaður skilningur á vanmætti hins frjálsa markaðar að eiga við áföll orsökuð af ytri áhrifum. Flest virðumst við skilja að núverandi ástand kemur til vegna utanaðkomandi áfalls; vírus lamar samfélagið. Samtakamáttur í sóttvörnum virðist einnig gefa til kynna skilning á neikvæðum ytri áhrifum; ef smitaður einstaklingur fer ekki í einangrun munu margir aðrir einstaklingar líða fyrir þá ákvörðun. Ytri áhrifin staðnæmast þó ekki við heilsufarslegar afleiðingar heldur hefur þeirra gætt á mörgum stöðum í efnahagslífinu meirihluta ársins. Þau birtast bæði sjálfkrafa vegna hræðslu við að smitast, sem hefur áhrif á vilja fólks til að ferðast og sækja þjónustu í mannmergð, en einnig vegna opinberra inngripa og tilmæla sem koma í veg fyrir að fólk geti ferðast og átt ákveðin viðskipti. Eðli neikvæðra ytri áhrifa er að með einum eða öðrum hætti valda þau markaðsbrestum. Það skiptir ekki máli hversu góða þjónustu eða vöru þú býður upp á eða á hvaða verði. Fáir, ef einhverjir, kaupa hana vegna vírusráðstafana.

Stærri en víruskreppan

Þrátt fyrir þessa staðreynd, og að sóttvarnaaðgerðir taki beinlínis mið af slíkum ytri áhrifum, hefur minna borið á að efnahagsaðgerðir hér á landi taki tillit til slíkra áhrifa og þess markaðsbrests sem af þeim hlýst. Veita átti fyrirtækjum í tekjustoppi aðgang að fjármagni í vor á „viðskiptalegum forsendum“ í gegnum bankakerfið. Þegar þetta er skrifað hafa tekjufallsstyrkir verið útfærðir en ekki veittir, eftir átta mánaða vírusbaráttu. Umræða um stóraukið atvinnuleysi snerist fljótt út í ábendingar um mikilvægi þess að hækka ekki atvinnuleysisbætur því sú aðgerð myndi draga úr vilja fólks til að sækja sér vinnu – rök sem eru sótt í rannsóknir sem byggja á áratugayfirferð yfir markaðshagkerfi í jafnvægi, þar sem sköpun starfa er frjáls. Skapa á auðsáhrif með hækkun húsnæðisverðs þrátt fyrir að þau neysluáhrif skili sér illa til aðila sem þurfa að vísa fólki frá í matsölum vegna fjöldatakmarkana. Og vaxtalækkanir eiga að lækka greiðslubyrði fyrirtækja, þá helst á nýjum lánum, þrátt fyrir að engin eftirspurn sé eftir lánsfé hjá tekjulausum fyrirtækjum, né vilji til að lána þeim á viðskiptalegum forsendum.

Loftslagsvandinn er mun stærri en víruskreppan sem nú gengur yfir. Rannsóknir hafa í áratugi bent til þess að markaðir verðleggi illa, ef eitthvað, þá áhættu sem í loftslagsbreytingum felst og enn síður þann kostnað sem fylgir því að menga. Vonir standa til að íslenskt hagkerfi taki nú fljótt við sér á ný, óháð aðgerðum stjórnvalda, þar sem ytri áhrif hverfa smám saman úr kerfinu við bólusetningu almennings um allan heim og afléttingu sóttvarnaráðstafana í kjölfarið. Sú hætta er þó enn til staðar að fólk og fyrirtæki komi óþarflega veikburða út úr ástandinu þar sem of langan tíma tók að koma fjármagni beint á þá staði þar sem efnahagslegu afleiðingar ytri áhrifanna skullu af langmestum þunga. Markaðnum var falið að ákvarða hverjir lifðu af, rétt eins og um leiðréttingu á uppsöfnuðu markaðsójafnvægi væri að ræða.

Barátta á milli hins frjálsa markaðar og hins opinbera, hins góða og hins illa eftir því hvar á hugmyndafræðilegu línunni fólk stendur, skyggir alltof oft á almenna skynsemi í efnahagsmálum. Stundum er gott að beita markaðslausnum og stundum opinberum aðgerðum. Það fer eftir aðstæðum. Ef okkur tekst ekki að sjá þann markaðsbrest sem vírusinngripin leiddu af sér velti ég því fyrir mér hversu vel það mun ganga að horfast í augu við vanmátt núverandi kerfis í viðureigninni við loftslagsvandann. Vonandi mun almenn skynsemi ráða för.

Höfundur er aðalhagfræðingur Kviku banka.

Greinin birtist tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út um miðjan desember. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.