*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Týr
15. nóvember 2020 15:04

Þegar Þórdís fór í bakarí

Tý finnst það mjög athyglisvert að innan Evrópu sé lögverndun starfa mest hér á landi .

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.
Haraldur Guðjónsson

Það er ástæða til að hrósa Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur fyrir hafa frumkvæði að því að fá OECD til að framkvæma samkeppnismat á regluverki byggingariðnaðar og ferðaþjónustu. Í skýrslu OECD, sem kynnt var á þriðjudag, eru gerðar tæplega 440 tillögur til breytinga á gildandi lögum og reglum sem snúa að þessum atvinnugreinum, í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni þeirra. Vonandi verður því fylgt eftir.

                                                                   ***

Það er eitt sem vakti athygli Týs umfram annað áhugavert í skýrslu OECD. Það er sú staðreynd að lögverndun starfa er mest hér á landi allra Evrópuríkja. Týr væntir þess að skiptiborðið hjá Samtökum iðnaðarins hafi verið rauðglóandi þegar bakarar, ljósmyndarar, hárskerar og aðrir fengu þessa gusu framan í sig. Það er ekki ætlun Týs að gera lítið úr störfum þeirra, þvert á móti eru öll störf mikilvæg og þessi störf sjálfsagt mikilvægari en flest þeirra sem unnin eru í ráðuneytinu sem setur þeim reglugerðir.

                                                                   ***

Það þýðir þó ekki að þau þurfi að vera lögvernduð. Það að Pétur skuli opna bakarí og selja Páli brauð er ekki eitthvað sem krefst mikilla reglugerða af hálfu hins opinbera. Hann ætti í raun lítið að þurfa nema vsk númer til að hefja starfsemi. Ef brauðið er vont, of dýrt eða þjónusta Péturs léleg getur Páll snúið sér annað. Svo einfalt er það.

                                                                   ***

Vandamálið liggur þó ekki bara í fjölda laga og reglugerða – heldur frekar í hegðun undirstofnana. Bakarí Péturs þarf ekki bara að uppfylla fjöldann allan af reglugerðum heldur getur hann líka átt von á sekt frá Neytendastofu ef verðmerkingar eru ekki nógu skýrar. Ef bakaríið en vinsælla en næsta bakarí getur hann átt von á húsleit og rannsókn frá Samkeppniseftirlitinu. Og ef hann vill flytja inn erlenda osta til að selja ofan á brauðið þarf hann að treysta á velvilja möppudýra í ráðuneytinu. Engum þessara aðila dettur í hug að spyrja hvað neytandinn vill.

                                                                   ***

Þórdís Kolbrún hefur þegar lýst því yfir að lögvernduðum störfum kunni að fækka. Gott og vel. En mun starfsmönnum Neytendastofu eitthvað fækka? Mun Samkeppniseftirlitið taka þátt í því að auðvelda fyrirtækjum rekstur? Munu starfsmenn  ráðuneytisins taka þátt í því að meta hvaða reglugerðir eru úreltar eða of strangar og leggja til að þær verði afnumdar?

                                                                   ***

Týr bíður spenntur eftir að sjá það.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.