Það er ekki fáheyrt að hagsmunasamtök á borð við Samtök leigjenda handvelji ákveðnar tölur til að koma málstað sínum á framfæri í fjölmiðlum og opinberri umræðu. Og í sjálfu sér ekkert við það að athuga. En almenningur verður að geta treyst fjölmiðlum til að rýna í slíka framsetningu í fréttaflutningi og setja hana í samhengi.

RÚV féll vissulega á því prófi. Þess vegna var undarlegt að sjá Fréttablaðið falla í nákvæmlega sömu gryfju í síðustu viku. Þá sagði blaðið efnislega sömu frétt og birtist hjá Ríkisútvarpinu fimm vikum fyrr. Á forsíðu blaðsins fyrir viku er rætt við Guðmund, formann Samtaka leigjenda, og þar endurtekur hann fullyrðingar sínar um að leiguverð hafi hækkað um ríflega 100% á undanförnum tíu árum á meðan það hafi hækkað með mun hóflegri hætti á meginlandi Evrópu. Rétt eins og í umfjöllun RÚV gerir Fréttablaðið enga tilraun til þess að setja þróun leiguverðs í samhengi við þróun annarra hagstærða hér á landi á tímabilinu.

Það var ekki síður áhugavert að nokkrum klukkustundum eftir að Fréttablaðið kom út birtist frétt á vefsvæði RÚV um fullyrðingar formanns leigjendasamtakanna um hækkanir leiguverðs. Með öðrum orðum var RÚV þarna að vísa í frétt Fréttablaðsins frá því fyrr um daginn sem var á sama tíma efnislega sama frétt og RÚV hafði flutt ríflega mánuði fyrr.

Svona klifun í fjölmiðlum leiðir til þess að fullyrðingin um að leiguverð hafi hækkað í meira mæli en aðrar tengdar hagstærðir fær á sig ásjónu sannleika eða öllu frekar sannleiksígildis. Og það gerist þrátt fyrir að óumdeilt er til að mynda að leiguverð hefur að raunvirði staðið í stað undanfarin ár hver svo sem þróunin kann að vera í framhaldinu.

Í framhaldi af þessu má svo benda á að Viðskiptaráð Íslands brást við fréttaflutningi Fréttablaðsins um hækkun leiguverðs. Þann 10. maí birtist úttekt á heimasíðu ráðsins þar sem helstu fullyrðingar í málflutningi formanns leigjendasamtakanna voru hraktar með býsna sannfærandi hætti. Sú úttekt hefur af einhverjum ástæðum ekki fengið jafn mikla athygli frá Fréttablaðinu og Ríkisútvarpinu og málflutningur formanns Samtaka leigjenda.

Fjölmiðlarýni er skoðanadálkur en þessi birtist í Viðskiptablaðinu 16. júní 2022.