*

mánudagur, 16. maí 2022
Örn Arnarson
14. október 2021 12:28

Þegnar sótt­varna­eyjunnar keppa í sundi

Nokkuð ó­sam­ræmi reyndist í bréfi sótt­varna­læknis til heil­brigðis­ráð­herra og skýrslu ECDC sem hann vísar þar frjáls­lega í.

Það rennur æði á Íslendinga þegar þeir taka þátt í keppni sem þeir eiga möguleika á að sigra. Kapp Íslendingsins verður meira eftir því sem færri hafa áhuga á að standa uppi sem sigurvegarar og hljóta þann heiður sem efsta sætinu fylgir.

Ágætt dæmi um þetta er þegar Íslendingar tóku þátt í Norrænu sundkeppninni í fyrsta sinn árið 1951. Um var að ræða lýðheilsuátak þar sem markmiðið var að fá sem flesta einstaklinga til að synda 200 metra og skipti tíminn þar engu máli. Eins og fjallað er um í grein Stefáns Pálssonar sagnfræðings í grein sem birtist á Vísi árið 2018 þá ríkti mikil stemning á landinu í aðdraganda keppninnar. Fjöldi greina birtist í blöðum þar sem landsmenn voru hvattir til þess að fara á sundnámskeið til að komast 200 metrana og leggja þannig sitt af mörkum fyrir þjóðina.

Til að gera langa sögu stutta gjörsigruðu Íslendingar í keppninni. Fjórðungur landsmanna lagði sitt af mörkum fyrir forsetann og lýðveldið og synti 200 metra. Það er til marks um hið mikla sundæði að aðeins 4% Finna tóku þátt í keppninni en hrepptu þó annað sætið. Danir og Svíar náðu um það bil 2% hvor þjóð og einungis einn af hverjum hundrað Norðmönnum lagði 200 metrana að baki.

Þjóðin fór í sigurvímu eins og segir í grein Stefáns. Verðlaunabikarnum var fundinn staður á Þjóðminjasafninu og viðurkenningarskjöl með nöfnum þeirra 36.037 Íslendinga sem luku sundinu voru bundin inn í leður og fylltu þau fjórtán bindi.

Ástæðan fyrir þessari upprifjun er að um margt minnir nálgun stjórnvalda á sóttvarnamál á það mikla kapp sem lagt var á sigur í sundkeppninni 1951.

* * *

Sem kunnugt er þá ríkir ekkert neyðarástand á landinu vegna útbreiðslu covid-veirunnar. Daglega mælast á bilinu 20 til 60 smit og fá dæmi eru um að fólk veikist alvarlega vegna þeirra enda er þorri landsmanna bólusettur gegn veirunni. Innlagnir á sjúkrahús endurspegla þessa staðreynd. Í raun er nýgengi smita hér landi lægra en í sumum þeirra nágrannaríkja sem hafa fellt allar sóttvarnaaðgerðir úr gildi.

Af þessum sökum voru einhverjar væntingar um að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir myndi leggja til að slakað yrði frekar á sóttvarnaaðgerðum þegar hann skilaði inn minnisblaði sínu til Svandísar Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í síðustu viku. Þær reyndust ekki á rökum reistar. Heilbrigðisráðherra fór að tilmælum sóttvarnarlæknis um að engar breytingar yrðu gerðar á sóttvarnareglum.

* * *

Þrátt fyrir að þessi ákvörðun snerti líf fjölda Íslendinga dags daglega fékk minnisblað sóttvarnalæknis ekkert sérlega mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Í raun og veru virðist enginn blaðamaður hafa haft fyrir því að lesa minnisblaðið. Það er miður. Minnisblaðið er stutt en þar er margt að finna sem orkar tvímælis svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Í bréfi sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra segir:

„Margvíslegar tilslakanir hafa verið gerðar í ýmsum löndum undanfarið, sérstaklega þar sem vel hefur gengið að bólusetja. Mismunandi er hvort tilslakanirnar hafa leitt til aukinnar útbreiðslu en bæði sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) spá aukinni útbreiðslu nú í byrjun vetrar og hafa hvatt þjóðir til að viðhafa áfram nauðsynlegar sóttvarnir þ.á m. fjöldatakmarkanir, nándarreglu og notkunar andlitsgrímu við skilgreinda atburði. Í ljósi þróunar faraldursins erlendis og reynslunnar (sic) hérlendis af fullri afléttingu takmarkana þá tel ég varhugavert að slaka meira á þeim sóttvarnaaðgerðum innanlands en þeim sem nú eru í gildi."

Þetta er ekki nákvæm lýsing á því sem stendur í stöðumatsskýrslu sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins frá 30. september. Þar kemur skýrt fram að þau Evrópuríki sem hafa ekki náð að bólusetja stóran hluta íbúa standa frammi fyrir mikilli hættu á nýrri bylgju í byrjun vetrar ef slakað verður á sóttvörnum. Orðrétt segir í fréttatilkynningu um stöðumatsskýrsluna á heimasíðu ECDC:

„Þau aðildarríki ESB og EES sem hafa ekki bólusett tilhlýðilegan fjölda íbúa eiga á hættu að smitum vegna covid muni fjölga verulega samhliða fjölgun innlagna á sjúkrahús og dauðsfalla fram til loka nóvembermánuðar ef slaka á almennum sóttvarnaaðgerðum á næstu vikum. (e. EU/EEA countries that have not yet achieved high enough COVID-19 vaccination coverage in their total populations, which are planning to relax non-pharmaceutical interventions during the next two weeks, run a high risk of experiencing a significant surge of cases, hospitalisations and mortality from now until the end of November.)"

Ljóst er að ekkert af þessu á við Ísland. Í raun er sérstaklega tekið fram að Ísland er eitt þeirra þriggja Evrópulanda þar sem bólusetningarhlutfall þjóðarinnar er komið yfir 75%. Sérfræðingar sóttvarnastofnunar ESB meta eðli málsins samkvæmt stöðuna í þeim ríkjum þar sem mikill árangur hefur náðst í bólusetningum með öðrum hætti. Í skýrslunni segir að í þeim ríkjum sé minni hætta á að veruleg aukning verði á smitum með þeim afleiðingum að innlagnir á sjúkrahús og dauðsföllum fjölgi. Það er að segja nema ef draga taki úr áhrifum bólusetningar af einhverjum ástæðum.

* * *

Sérfræðingar sóttvarnastofnunarinnar leggja höfuðáherslu á að bólusetning sé brjóstvörnin gegn útbreiðslu veirunnar. Í skýrslunni er svo að finna ráðleggingar til stjórnvalda sem eiga aðild að stofnuninni. Þar er þeim tilmælum beint til ríkja sem hafa að undanförnu slakað á sóttvarnaaðgerðum að þau haldi samt sem áður áfram að reka áróður fyrir að fólk sinni einstaklingsbundnum sóttvörnum og forðist að sækja fjöldasamkomur að óþörfu. Glöggir lesendur taka væntanlega eftir að þarna er ekkert minnst á grímunotkun og ekki eru neinar fjöldatakmarkanir lagðar til.

* * *

Rétt eitt eins og Íslendingar settu glæsilegt Norðurlandamet með þátttöku sinni í sundkeppninni forðum þá virðast sóttvarnayfirvöld hér á landi hafa einsett sér að nú verði heimsmet slegið - heimsmet í fjöldaþátttöku í tilgangslausu kafsundi. Allir þurfa að halda í sér andanum á bólakafi þangað til sóttvarnalæknir segir að óhætt sé að anda að sér fersku lofti ofan vatns.

* * *

Í fleiri tilfellum getur verið gagnlegt fyrir blaðamenn að kynna sér frumgögn þeirra mála sem fjallað er um hverju sinni. Í síðustu viku birtust niðurstöður skoðanakönnunar sem Maskína gerði á trausti almennings til niðurstöðu alþingiskosninganna. Niðurstöðurnar sýna að tæplega fjórðungur aðspurðra sagðist treysta niðurstöðum kosninganna illa en ríflega 60% sögðust treysta þeim vel.

Flestir fjölmiðlar fjölluðu um þessa niðurstöðu og var sú umfjöllun í takt við útdrátt könnunarfyrirtækisins um könnunina á heimasíðu fyrirtækisins. Fleira var þó lesa úr könnuninni sem telja má fréttnæmt. Þannig sögðust mun fleiri í könnuninni hafa kosið Pírata, Samfylkingu, Sósíalista og Viðreisn en raun varð á í þingkosningunum. Að sama skapi gáfu færri sig fram sem stuðningsmenn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, Miðflokks, Flokk fólksins og VG en í þingkosningunum.

Augljóslega skiptir þetta máli þegar fjallað er um niðurstöðu þessarar könnunar. Þetta bendir til þess að þýði í þessari könnun er talsvert annað en nýlegar kosningar leiddu í ljós um afstöðu þjóðarinnar. Það vekur svo upp spurningar um úrtakið í öðrum könnunum sama fyrirtækis og hugsanlega hjá öðrum þeim sem gera slíkar kannanir.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.