Framganga stjórnmálamanna á þessum verðbólgutímum hefur vakið upp áleitnar spurningar um áhuga og þekkingu þeirra á viðfangsefninu. Þrátt fyrir að framlegð hafi almennt farið lækkandi á mikilvægum neytendamörkuðum eins og með dagvöru hafa ráðamenn biðlað til fyrirtækja að velta ekki verðhækkunum beint út í verðlagið og gæta sér hófs þegar kemur að greiðslu arðs vegna liðinna rekstrarára.

Látum það liggja milli hluta að arðgreiðslur koma verðbólgu í raun og veru sáralítið við. Með þeim er verið að koma arði til eigenda fyrirtækja sem hafa þá meðal annars valkost um að verja honum í sparnað fremur en fjárfestingu og leggja þar með lóð á vogarskálar Seðlabankans í baráttunni fyrir verðstöðug-leika. Að því sögðu sést að fullyrðingar um að stærstu fyrirtækin á neytendamarkaði hafa ýtt öllum verðhækkunum undanfarinna ára beint út í verðlag á ekki við rök að styðjast. Ekki verður það sama sagt um hið opinbera.

Á vegum ríkisins starfar svokölluð verðlagsnefnd búvöru. Nefndin er skipuð sex mönnum og ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. Verkalýðshreyfingin, Bændasamtökin og Samtök afurðastöðva fyrir búvörur skipta nefndarmönnum jafnt á milli sín og svo fer fulltrúi matvælaráðuneytisins með formennsku. Af skoðun fundargerða nefndarinnar síðustu ár verður ekki annað séð en að lítið fari fram á fundum nefndarinnar fyrir utan að ýta öllum hækkunum út í verðlag til neytenda samkvæmt einhverri reikniformúlu og virðist ríkja sátt um að hafa þann háttinn á. Að minnsta kosti verður ekki séð að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafi haft sig mikið í frammi á fundum nefndarinnar.

Þannig hefur nefndin á ríflega tólf mánuðum hækkað verð á mjólk og mjólkurvörum um 14%. Á sama tíma skilaði Auðhumla, samvinnufélag mjólkurbænda og móðurfélag Mjólkursamsölunnar, methagnaði í fyrra. Milljarðahagnaður í fyrra er sá langmesti frá því að fyrirtækið leit dagsins ljós í núverandi mynd árið 2007. Hér staldrar enginn við og veltir fyrir sér hvort samstarfsvettvangur ríkis, hagsmunaaðila og verkalýðs sé að tryggja að verðhækkanir vegna landbúnaðarframleiðslu leggist alfarið á neytendur meðan Auðhumla skilar methagnaði.

Það eru sömu stjórnmálamenn sem leggja sig fram um að gera fyrirtæki tortryggileg á verðbólgutímum og setja kíkinn að blinda auganu þegar kemur að sjálfkrafa verðhækkunum á mjólkurvöru í krafti starfa verðlagsnefndarinnar. Þetta eru einnig sömu stjórnmálamennirnir sem hækka sjálfkrafa vísitöluhækkanir á útgjöld og þjónustu ríkisins um hver áramót. Þeim er ýtt beint á herðar almennings. Þrátt fyrir þráláta verðbólgu undanfarin misseri fer engin umræða um hvort ekki sé rétt í ljósi stöðu efnahagsmála að sníða ríkisútgjöldum stakk eftir vexti.

Ríkisfjármálaáætlun felur í sér enga markverða stefnubreytingu frá útgjaldafylleríi liðinna ára. Það er því þyngra en tárum taki að stjórnarandstaðan gagnrýni fjármálaáætlunina fyrst og fremst fyrir að auka útgjöldin ekki nóg.

Ástandið veit ekki á gott og því er tímabært að hin pólitíska umræða taki mið af þeirri staðreynd að það er ríkið sem að stórum hluta stýrir þeim þáttum sem hafa áhrif á verðbólgu innanlands þegar litið er framhjá erlendum áhrifum sem enginn hefur stjórn á. Öll umræða af hálfu stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu ber merki um fullkomið skilningsleysi á þessari staðreynd. Meðan svo er, er einbúið að verðbólga verði þrálát og hratt og örugglega muni fjara undan sæmilegri skuldastöðu ríkisins. Sporin í kringum ráðhúsið við Reykjavíkurtjörn virðast ekki hræða í þessum efnum.