*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Salóme Guðmundsdóttir
21. júní 2020 13:41

Þess vegna starfa fyrirtæki með frumkvöðlum

Ávinningur fyrirtækja af virkum tengslum við nýsköpunarumhverfið er margvíslegur.

Eitt mikilvægasta viðfangsefni Íslands til næstu ára er að efla verðmætasköpun sem byggir á hugviti fremur en beinni nýtingu auðlinda landsins. Margumrædd skýrsla McKinsey frá árinu 2012 leggur áherslu á að efnahagsleg velsæld Íslands grundvallist á auknum útflutningi á alþjóðlega samkeppnishæfum afurðum hugvits og nýsköpunar, en hlutfall slíkra verðmæta í útflutningi er mun lægra en í samanburðarlöndum.

Viðskiptaumhverfi fyrirtækja hefur tekið gríðarlegum breytingum undanfarna mánuði samhliða hröðum tækniframförum sem munu áfram koma til með að gerbreyta efnahagslegum grunni allra ríkja á komandi árum og áratugum. Þekking, nýsköpun og tækni verða forsendur velgengni í því róti og í því umhverfi sem svo tekur við.

Í hefðbundinni starfsemi er verðmætasköpun oftast í beinu í hlutfalli við fjölda starfsmanna eða nýtingu auðlinda. Starfsemi öflugra nýsköpunarfyrirtækja einkennist aftur á móti af því að þau geta skapað margfalt meiri verðmæti án þess að fjölga starfsmönnum mikið eða nýta meira af takmörkuðum auðlindum. Uppbygging slíkra fyrirtækja er forsenda efnahagslegra og félagslegra framfara á Íslandi þar sem ríkar kröfur eru gerðar um aukna velsæld og lífsgæði.

Til að fyrirtæki geti með skilvirkum hætti brugðist við þeirri miklu tækniumbyltingu sem á sér stað er mikilvægt að stjórnendur geri sér grein fyrir þessari umfangsmiklu breytingu, skilji þá tækni sem drífur hana áfram og þekki helstu strauma og stefnur.

Ein leið til þess er að fylgjast grannt með því hvers konar fyrirtæki er verið að stofna, hvers eðlis þau eru, hvernig þau nýta tækninýjungar, hvernig viðskiptamódel þeirra eru byggð og fleira. Því hafa mörg fyrirtæki lagt sig fram við að tengjast hringiðu nýsköpunar og frumkvöðlastarfs hér á landi með skipulögðum hætti.

Ný sýn á viðfangsefnið og ferskar hugmyndir að lausnum

Íslenskt samfélag er öflug uppspretta frumkvöðla og skapandi einstaklinga. Mikil tækifæri til verðmætasköpunar má skapa með því að leiða ólíka einstaklinga saman og veita góðum teymum stuðning við að koma nýjum hugmyndum í framkvæmd. Þetta hefur skilað fjölda nýrra sprotafyrirtækja og nýrra hugmynda, sem margar hverjar hafa skapað veruleg verðmæti.

Að meðaltali koma um 500 nýjar viðskiptahugmyndir inn á borð Icelandic Startups ár hvert. Hlutverk félagsins er að skapa vettvang til tengslamyndunar og veita einstaklingum og teymum leiðsögn við mótun viðskiptaáætlana með það að marki að komast hratt að því hvort nægilegar viðskiptalegar forsendur séu til staðar og styðja við ferlið þar til vara er komin á markað.

Mikil verðmæti eru fólgin í því fyrir rótgróin fyrirtæki að eiga reglulegt samtal við frumkvöðla um þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir hverju sinni. Það getur veitt nýja sýn á viðfangsefnið og gefið ferskar hugmyndir að lausnum. Slíkt samtal býður einnig upp á tækifæri til samstarfs sem gætu skapað virði á báða bóga. Rótgróin fyrirtæki starfa jafnan á margvíslegum mörkuðum með öflugt tengslanet og reyndar dreifileiðir sem margfaldað gætu hraða verðmætasköpunar fyrir ný fyrirtæki. Fyrirtæki sem verja tíma og fjármunum í að vera stöðugt á tánum og þróa nýjar lausnir sem byggja á nýjustu tækni eru líklega þau sem koma til með að ná mestum árangri. Til að geta hreyft sig hratt er ákjósanlegast að fyrirtæki myndi sjálfstæð teymi og láti sprota um að þróa og prófa nýjungar.

Sækja innblástur og stunda vöruþróun í umhverfi sem á sér enga hliðstæðu

Vel á eitt hundrað einstaklingar, reyndir frumkvöðlar, fjárfestar og aðrir leiðandi sérfræðingar taka þátt í verkefnum Icelandic Startups ár hvert með því að miðla þekkingu sinni og reynslu og opna tengslanet sitt frumkvöðlum til framdráttar. Við hvetjum rótgrónari fyrirtæki til að senda teymi til þátttöku í viðskiptahraðla (e. business accelerators) þar sem þau geta unnið að nýsköpunarverkefnum fyrirtækisins í lifandi umhverfi, sótt innblástur, kynnst frumkvöðlum og frá fyrstu hendi þeim aðferðum sem verið er að beita við þróun nýrra viðskiptahugmynda. Sú leið er tilvalið tækifæri til að umbuna framúrskarandi starfsmönnum og í raun endurmenntun sem á sér enga líka.

Spennandi fjárfestingatækifæri og aðgangur að mannauði

Ávinningur fyrirtækja af virkum tengslum við nýsköpunarumhverfið er margvíslegur. Á meðan sum þeirra hafa með markvissum hætti nýtt þennan vettvang til að veita starfsfólki sínu innblástur og efla vöruþróun hafa önnur fundið þar spennandi fjárfestingatækifæri. Fyrirtæki hafa meðal annars farið þá leið að gerast fyrsti viðskiptavinur sprotafyrirtækja sem gjarnan fylgir hlutverk við þróun vörunnar og þar með góður afsláttur af verði hennar. Önnur fyrirtæki hafa keypt lausnir sprotafyrirtækja í heilu lagi og aðlagað að sínum kerfum og vöruframboði. Í sumum tilvikum fylgir teymið að baki hugmyndinni með. Með því að tengjast frumkvöðlum fá fyrirtæki jafnframt aðgang að mannauði með tækniþekkingu og brennandi áhuga á nýsköpun. Það er eftirsóknarverð staða fyrir fyrirtæki sem vilja skara fram úr, komast inn á nýja markaði, umbylta gamalgrónum viðskiptamódelum, stofna ný tekjustreymi og skapa tækifæri til fjölbreyttari samskiptaleiða við viðskiptavini sína.

Höfundur er framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.