*

föstudagur, 22. janúar 2021
Huginn og muninn
4. desember 2020 18:02

Þetta er Ísland í dag

Fjármálaráðherra hefur hoggið tvisvar í sama knérunn þegar kemur að ráðningu aðstoðarmanns.

Undanfarna mánuði hefur aðra höndina vantað á fjármálaráðherrann Bjarna Benediktsson eftir að tilkynnt var um að Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður hans í árafjöld, hefði ráðið sig sem framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands. Um leið og það lá fyrir lét Svanhildur af störfum og síðan þá hefur Páll Ásgeir Guðmundsson þurft að vera tveggja manna maki.

Það breyttist núna í byrjun mánaðar þegar tilkynnt var um að Hersir Aron Ólafsson, lögfræðingur, ræðumaður og sprelligosi, hefði tekið við af Svanhildi.

Sú ráðning vakti sérstaka kátínu hrafnanna í ljósi þess að Hersir starfaði um skeið, líkt og forveri sinn, sem fréttamaður á Stöð 2 og dagskrárgerðarmaður í Íslandi í dag. Ráðherrann hefur því hoggið tvisvar í sama knérunn og spurning hvort það mynstur haldi áfram. Mögulegir vonbiðlar, sem ættu þá að byrja að pússa aðstoðarmannsskóna sína, eru til dæmis Sölvi Tryggvason, Margrét Erla Maack, Frosti Logason að ógleymdri Völu Matt. Formaður flokksins hefur því úr fríðum flokki að velja.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.