Fyrir ári síðan vann ég að efnahagsspá er bar heitið Jafnan er dimmast undir dögun. Meginkjarni hennar var að árið 2021 yrði strembið fyrir íslenskt hagkerfi, atvinnuleysi mikið og efnahagsbatinn færi hægt af stað. Líkt og flestar aðrar efnahagsspár frá þessum tíma hefur þessi tiltekna spá ekki elst vel. Atvinnuleysi helmingaðist á aðeins örfáum mánuðum og byrlega blés í segl þjóðarskútunnar á síðari hluta ársins.

Í sjálfu sér hefur aðeins einn undirliður þessarar hagspár staðist tímans tönn, ferðamannaspáin, niðurstaða sem er í sjálfu sér mögnuð. Það er að segja, það er magnað að þrátt fyrir að stærsta einstaka forsendan hafi ræst - hófstemmdur bati stærstu útflutningsgreinarinnar - vanmat spáin hrapallega efnahagsbatann. Sem leiðir óhjákvæmilega að spurningunni, hvernig heppnaðist árið svona vel?

Það benti fátt til þess í upphafi árs að hagkerfið myndi koma jafn vel undan vetri og raun bar vitni. Undir lok fyrsta ársfjórðungs var lítill skriður kominn á bólusetningar gegn COVID-19, gripið var til hörðustu sóttvarnaaðgerða frá upphafi faraldursins, almennt atvinnuleysi náði áður óþekktum hæðum og hagkerfið hélt áfram að dragast saman.

Er leið á vorið sneri hagkerfið hins vegar við blaðinu, í einu vetfangi að því virtist. Hlutfall bólusettra landsmanna hækkaði í takt við hækkandi sólu og loks var öllum sóttvarnaaðgerðum innanlands aflétt, tímabundið að vísu. Landsmenn jafnt sem ferðamenn nutu sumarsins og frelsinu sem því fylgdi og bjartsýni fór vaxandi. Ferðamannasumrinu var borgið en björninn þó ekki unninn þar sem faraldurinn tók sig upp að nýju.

Svo fór að tæplega 700 þúsund ferðamenn sóttu landið heim á árinu, niðurstaða sem líkt og áður sagði var í góðum takti við væntingar. Þó að aukningin hafi numið 45% milli ára var þetta aðeins þriðjungur af fjöldanum árið 2019 og á greinin því ennþá langan veg fyrir höndum.

Kröftug einkaneysla

Eftir að ferðaþjónustan var leyst úr fjötrum og atvinnuátaki ríkisstjórnarinnar ýtt úr vör tók vinnumarkaðurinn stakkaskiptum og atvinnuleysi helmingaðist á örfáum mánuðum. Atvinnuleysi er nú sambærilegt og það var áður en faraldurinn skall á og búið er að endurheimta öll þau störf er töpuðust í farsóttinni, langt á undan áætlunum greiningaraðila. Þó að ferðaþjónustan hafi verið burðarásinn í fjölgun starfa lögðu aðrar greinar hönd á plóg, þá sérstaklega framleiðslugreinar, byggingastarfsemi og vitaskuld opinber stjórnsýsla.

Þrátt fyrir að stór hluti ráðningastyrkja hafi runnið sitt skeið um áramótin virðist það ekki hafa haft teljanleg áhrif á atvinnuleysi. Ráðningaráform eru ennþá mikil og því útlit fyrir að atvinnuleysi muni hjaðna frekar á yfirstandandi ári samhliða fjölgun ferðamanna og aukinni fjárfestingaþörf.

Á sama tíma og atvinnuhorfur stórbötnuðu jókst kaupmáttur launa um 3,7% milli ára. Samspil þessara þátta ásamt aukinni bjartsýni og hraðri eignamyndun á íbúðamarkaði lagði grunninn að kröftugri einkaneyslu, sérstaklega á síðari hluta ársins þegar hvert kortaveltumetið á fætur öðru var slegið. Því til viðbótar jókst fjárfesting atvinnuveganna, ein jákvæðustu hagtíðindin að mínu mati eftir þriggja ára samfelldan samdrátt, og hið opinbera studdi við hagkerfið í gegnum neyslu og fjárfestingu. Innlend eftirspurn jókst þar af leiðandi verulega. Og þar liggur hundurinn grafinn, svo ég víki aftur að spurningunni er ég lagði upp með. Svo kröftug innlend eftirspurn kom greiningaraðilum ítrekað í opna skjöldu og voru eftirspurnarspár færðar upp um tæp 3 prósentustig yfir árið.

Þrautseigju innlendrar eftirspurnar má að einhverju leyti rekja til sterkra stoða hagkerfisins, sveigjanleika þess og verulegrar raunlaunahækkunar, en ekki síður aðgerða stjórnvalda, bæði ríkissjóðs og Seðlabankans, er gripu til stórtækra aðgerða strax við upphaf faraldursins með það að markmiði að verja tekjur og atvinnu heimilanna. Viðbrögðin við lausara aðhaldi létu ekki á sér standa og urðu í raun mun meiri en reiknað var með. Þau skiluðu sér í aukinni einkaneyslu, betri niðurstöðu í ríkisrekstri en á horfðist og almennt auknum efnahagsumsvifum. En það er ekkert sem heitir ókeypis hádegismatur og hin hlið peningsins - hærra húsnæðisverð, vaxandi verðbólguþrýstingur og stígandi verðbólguvæntingar - er öllu neikvæðari.

Slakinn í hagkerfnu er horfinn

Vissulega fór efnahagsbatinn árið 2021 af stað með meiri krafti en reiknað var með, sem meðal annars má þakka sögulega slakri peningastefnu og þensluhvetjandi ríkisfjármálum, en nú er komið að tímamótum. Ekkert lát er á húsnæðisverðshækkunum, verðbólgan heldur áfram að stíga og kjölfesta verðbólguvæntinga tekin að losna. Seðlabankinn hefur nú þegar gripið í taumana, bæði í gegnum vaxtahækkanir og með beitingu þjóðhagsvarúðartækja en betur má ef duga skal. Í ljósi þess að slakinn í hagkerfinu er horfinn og verðbólguhorfur fara versnandi er ekki spurning um hvort, heldur hvenær og hversu mikið peningastefnunefnd Seðlabankans hækkar næst vexti.

Það sjá þó allir í hendi sér að stjórnvöld geta ekki verið með annan fótinn á bremsunni og hinn á bensíngjöfinni. Ríkisfjármálin og peningastefnan verða að ganga í takt svo hér verði hægt að tryggja kjölfestu verðbólguvæntinga og þannig skapa grundvöll fyrir verðstöðugleika við lægra vaxtastig en ella, öllum til hagsbóta. Það út af fyrir sig er krefjandi verkefni en því til viðbótar þarf vinnumarkaðurinn að róa að sama markmiði, og það á tímum verðbólgu, vaxta- og húsnæðisverðshækkana. Við eigum því ærið hagstjórnarverkefni fyrir höndum sem vonandi tekst að leysa á sem farsælastan hátt.

Ef við höldum rétt á spilunum þá er íslenskt hagkerfi í einkar eftirsóknarverðri stöðu. Ferðaþjónustan er óðum að ná vopnum sínum, loðnan mokveiðist og útflutningstekjur þjóðarbúsins byggja á mun breiðari grunni en áður. Útlit er fyrir kröftugan hagvöxt á yfirstandandi ári, drifinn áfram af útflutningi, fjárfestingu og einkaneyslu, hagvaxtarsamsetning í hæsta gæðaflokki. Heimilin standa styrkum fótum, þjóðin er ung, lífeyriskerfið vel fjármagnað, erlend staða þjóðarbúsins aldrei verið betri og það þarf ekki annað en hraða yfirferð yfir fréttamiðla til að sjá að tækifærin eru á hverju strái. Til að enda þetta á gamalkunnri klisju: Það er ekkert víst að þetta klikki.

Höfundur er aðalhagfræðingur Arion banka.

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .