Við Íslendingar þreytumst ekki á að hæla okkur fyrir þennan stórkostlega þjóðarfrasa. Við erum svo „kúl“ og afslöppuð. Ekkert kemur okkur úr jafnvægi, ekki einu sinni gaddfreðið sker úti í ballarhafi sem ýmist spúir eldi eða lemur á okkur með óveðurslægðum. Auðvitað birtir einstaka sinnum til, meðalhitinn fer yfir 10 gráður og við hendum börnunum út í garð á sundfötunum. „Ekki væla elskan. Ertu komin með kvef? Þetta reddast!“

En hvenær fór þetta að reddast? Þetta var nú ekki beysið framan af. Ég er nokkuð viss um að þegar Íslendingar hírðust í moldarkofunum og biðu af sér svartadauða, móðuharðindi, einokunarverslun og hungursneyð hafi fáir klappað nágrannanum á bakið með orðunum „ekki þetta stress… þetta reddast“.

Einhvers staðar urðu kaflaskil. Okkur fór að leiðast Danirnir. Við ræddum þetta, slógum í borðið og mótmæltum allir. Svo vildi bara svo heppilega til að Danirnir voru hernumdir og við gátum keyrt þetta sjálfstæði í gegn. Þetta reddaðist!

Við vorum nú kannski ekki langt komin með uppbyggingu atvinnulífsins eða sérstaklega tískusinnuð en þá mætti Kaninn. Þegar hann fór sátu eftir allskonar sokkabuxur og gúmmulaði. Þetta reddaðist! Heimsstyrjöldin sjálf skaðaði okkur lítið en samt þótti full ástæða til að láta okkur fá hluta af Marshall-aðstoðinni svo áfram hélt okkar kapítalíska viðreisn. Þvílík redding!

Við urðum nýrík, ætluðum okkur að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð. Það… ehh klikkaði og þjóðargjaldþrot blasti við. En viti menn, Eyjafjallajökull gýs og til verður ferðamannaiðnaður. Redding!

Getur verið að Geldingardalagosið reddi okkur svo frá þessum djöfullegu Covid-leiðindum? Það vill svo til að það er akkúrat mátulegt og svo gott sem við hliðina á Bláa lóninu og flugvellinum. Hvílík heppni!

Það er eins gott að örlagadísirnar hætti ekki að dekra við okkur. Fordekruð þjóðarsálin myndi varla þola slíkt afturhvarf til smáblómsins með titrandi tárið.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Deloitte.