*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Leiðari
18. janúar 2019 15:00

Þjóðarsátt 2.0

Er kominn tími til að gera nýja þjóðarsáttarsamninga þar sem allir við samningaborðið koma sér saman um bæta hag hinna lægst launuðu?

Haraldur Guðjónsson

Þó að kjaraviðræðum VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness (VLFA) og Verkalýðsfélags Grindavíkur (VLFG) við Samtök atvinnulífsins hafi ekki verið slitið í gær vofir verkfall enn yfir.

Það hefði verið mjög ótaktísk ákvörðun hjá forsvarsmönnum stéttarfélaganna að slíta viðræðunum í gær, nokkrum dögum áður en hugmyndir um lausn á húsnæðisvandanum verða kynntar. Í nóvember komu stjórnvöld og heildarsamtök á vinnumarkaði sér saman um að stofna „átakshóp“ sem á að koma með tillögur um það hvernig hægt sé að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði. Á hópurinn að kynna heildstæða lausn á húsnæðisvandanum á sunnudaginn.

Kjaraviðræður stéttarfélaganna fjögurra ná til tæplega 55 þúsund launþega, sem eru um 29% vinnandi fólks í landinu. Það er því alveg ljóst að verkfall þessara félaga myndi hafa lamandi áhrif á atvinnulífið. Þó að ekki yrði farið í allsherjarverkfall gætu skæruverkföll bitið fast því á meðal félagsmanna í þessum stéttarfélögum eru hópferðabílstjórar, flugvallarstarfsmenn, þjónustufólk á hótelum, hafnarverkamenn, fólk í fiskvinnslu og verslunar- og skrifstofufólk.

Í kjaraviðræðunum hafa félögin fjögur lagt mikla áherslu á kjarabætur fyrir hina lægst launuðu. Forsvarsmenn atvinnulífsins, sem og forsætis- og fjármálaráðherra, virðast sammála um nauðsyn þess að bæta hag þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Vandinn er hins vegar sá að innan verkalýðshreyfingarinnar er ekki sátt. Í fyrradag birti til að mynda BHM áherslur sínar í komandi kjaraviðræðum við hið opinbera og verður aðalkrafa stéttarfélagsins í þeim samningum að menntun verði metin til launa. Í samtali við RÚV sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, að niðurstaða samninga á almenna markaðnum myndi „að sjálfsögðu“ hafa áhrif á aðra vinnumarkaði og skírskotar þá til opinbera markaðarins.

Þetta er fullkomin uppskrift að hinu sígilda höfrungahlaupi á íslenskum vinnumarkaði. Þegar einn hópur er búinn að semja þá vill næsti hópur sömu hækkun og þannig koll af kolli.

Fyrir tæpum 30 árum voru gerðir tímamótasamningar á íslenskum vinnumarkaði. Þessir samningar, sem gerðir voru árið 1990, eru oftast nefndir þjóðarsáttarsamningarnir. Er það vegna þess að forystumenn á íslenskum vinnumarkaði og stjórnvöld komu sér saman um ákveðnar áherslur, ekki síst til að auka kaupmátt og ná niður verðbólgu.

Á níunda áratugnum var verðbólgan mæld í tugum prósenta, á 12 mánaða tímabili árið 1983 mældist hún til að mynda rúmlega 70%. Í þjóðarsáttarsamningunum miðaði efnahagsstefnan við að ná verðbólgunni niður í 6%. Til að setja þessar tölur í samhengi þá mældist verðbólgan 3,7% í lok desember 2018 og er það miðað við 12 mánaða tímabil. Í desember árið 2017 mældist hún 1,9%. Hún hefur því verið hækka nokkuð síðustu misseri.

Til þess að sátt náist um að hækka lægstu laun, án þess að þær hækkanir leiti upp allan launastigann og verðbólga fari þar með úr böndunum, virðist komið að þeim tímapunkti að gera þurfi nýja þjóðarsáttarsamninga, þar sem áhersla verður lögð á hækkun lægstu launa og að viðhalda kaupmætti.

Stikkorð: kjaramál
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.